Aðsent

Umhverfismál í Suðurnesjabæ
Fimmtudagur 20. október 2022 kl. 07:35

Umhverfismál í Suðurnesjabæ

Nýlega sendi ég erindi til framkvæmda- og skipulagsráðs Suðurnesjabæjar með nokkrum hugmyndum um umhverfismál. Ráðið tók erindið fyrir á fundi sínum og var eftirfarandi bókað og svar sent til mín: 

Á fundi framkvæmda- og skipulagsráðs Suðurnesjabæjar þann 20. september 2022 var til umfjöllunar bréf þitt með hugmyndum og tillögum í umhverfismálum í Suðurnesjabæ. Eftirfarandi er afgreiðsla nefndarinnar á erindinu: „Ráðið þakkar bréfritara fyrir ábendingarnar sem margar hverjar eru góðar og sumar eru þegar í ferli.“

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Af bókuninni og svarinu er ekkert hægt að átta sig á um hvað erindi mitt fjallaði eða hverjar umræður um það voru. Af þeirri ástæðu langaði mig til að upplýsa um málið og mögulega skapa um það umræður. Erindið var svohljóðandi:

Framkvæmda- og skipulagsráð Suðurnesjabæjar.

b/t Jóns Ben Einarssonar, sviðsstjóra.

Efni bréfs: Hugmyndir er varða umhverfismál í Suðurnesjabæ.

Ágæta ráðs- og starfsfólk.

Sem bæjarbúi og sameiningarsinni sveitarfélaga langar mig til að koma á framfæri við ykkur nokkrum hugmyndum varðandi umhverfismál. Eins og margir bæjarbúar hef ég verið áhugasamur um umhverfið og reynt í því sambandi að vera á ýmsan hátt hvetjandi, meðal annars með myndasendingum og athugasemdum til ráðamanna svo og með jákvæðum skrifum í blaðagreinum og á Facebook.

Í grein sem ég skrifaði í Víkurfréttir í desember 2021 sagði ég meðal annars:

„Hjá bæjarstjórn í nýju sameinuðu sveitarfélagi er eflaust í mörg horn að líta og þar af leiðandi þurfa sum verkefni að bíða til betri tíma. Sem áhugasamur íbúi fyrir velferð og framgangi bæjarins okkar hef ég reynt að fylgjast með gangi mála. Sumt hefur vakið athygli mína meira en annað og þar nefni ég meðal annars umhverfismálin. Vonandi verður sá málaflokkur í forgangi á næsta kjörtímabili. Sérstakt umhverfisráð verði skipað áhugasömu fólki og með sameiginlegu átaki geta stjórnendur bæjarins og íbúarnir gert Suðurnesjabæ að snyrtilegasta bæjarfélagi landsins. Við eigum að stefna hátt á öllum sviðum.“  

Svo mörg voru þau orð.

Í greininni tala ég um að sérstakt umhverfisráð verði skipað. Ástæðan er sú að mér finnst að umhverfismálin hafa að sumu leyti mætt afgangi hjá framkvæmda- og skipulagsráði eftir að fyrirkomulaginu var breytt með sameiningu sveitarfélaganna. Þetta má sjá með lestri fundargerða þar sem skipulagsmálin eru mun fyrirferðameiri, sem er væntanlega ekki óeðlilegt miðað við umfang. Ef stjórnendur telja að umhverfismálin eigi áfram að falla undir framkvæmda- og skipulagsráð, þá finnst mér eðlilegra að ráðið verði kallað framkvæmda-, umhverfis- og skipulagsráð.

Til viðbótar framansögðu, langar mig til að koma á framfæri við ykkur eftirfarandi tillögu:

  • Að samin verði metnaðarfull tillaga að umhverfisstefnu sem lagt verði til að bæjarstjórn samþykki.

Athugasemdir og ábendingar varðandi þessa tillögu eru eftirfarandi:

Nú á tímum þegar umhverfismál eru í brennidepli vítt og breytt um veröldina, þá er merkilegt að ekki sé til staðar umhverfisstefna í bæjarfélaginu. Markmið með umhverfisstefnu finnst mér að eigi meðal annars að veita leiðbeiningar og aðhald fyrir stjórnendur bæjarins, stjórnendur fyrirtækja og bæjarbúa alla. 

Umhverfisstefna gæti meðal annars innifalið eftirfarandi atriði:

  • Að stefnt sé að því að bæjarfélagið sé ávallt mjög til fyrirmyndar og að áhersla sé lögð á að bærinn hafi frumkvæði og sýni gott fordæmi í umhverfismálum.
  • Að umhverfismál séu ávallt eðlilegur hluti af vinnubrögðum alls starfsfólks og stofnana bæjarins og að tillit sé tekið til þess við hvers konar ákvarðanatökur þar sem það á við. 
  • Að stefnt verði að því að Suðurnesjabær skipi sér í hóp snyrtilegustu bæjarfélaga landsins og verði ávallt til fyrirmyndar á öllum sviðum umhverfismála.  
  • Að samþykkt verði og kynnt með fundarhöldum og á heimasíðu bæjarins, áætlun um aðgerðir og framkvæmdir sem hvetur alla bæjarbúa og fyrirtækjastjórnendur til dáða í umhverfismálum og að a.m.k. árlegt skipulagt átak verði liður í þeirri áætlun.     
  • Að árlega verði veittar viðurkenningar til einstaklinga og fyrirtækja fyrir fallegt og snyrtilegt umhverfi (sjá erindisbréf fyrir framkvæmda- og skipulagsráð).
  • Að fylgt verði lögum og reglugerðum um umhverfismál sem eiga við um alla starfsemi bæjarfélagsins. 
  • Að allir starfsmenn bæjarfélagsins eigi möguleika á fræðslu um umhverfismál sem miðar að því að þeir séu meðvitaðir um áhrif starfa sinna á umhverfið, þekki vel umhverfisstefnu bæjarfélagsins og verði virkir þátttakendur í henni. 
  • Að tryggt verði að allt sem lýtur að öryggi í umhverfi bæjarins verði ætíð eins og best verður á kosið. 
  • Að umhverfisstefnu bæjarfélagsins verði viðhaldið og hún endurskoðuð í samræmi við allar mögulegar breytingar á aðstæðum. 
  • Gefin verði út umhverfisskýrsla ár hvert, sem auðveldi samanburð og yfirlit yfir umhverfismál í bæjarfélaginu og verkefnum þeim tengdum. 

Í erindisbréfi fyrir framkvæmda- (umhverfis-) og skipulagsráð er fjallað um hlutverk og verkefni ráðsins. Þar kemur meðal annars fram eftirfarandi:

  • að hafa umsjón með árlegu vali og veitingu viðurkenninga til fyrirtækja og einstaklinga fyrir fallegt umhverfi.
  • að hafa umsjón með skipulagi og almennri fegrun opinna svæða í bæjarfélaginu.

Ég minni sérstaklega á ákvæðið í erindisbréfinu um veitingar viðurkenninga fyrir fallegt umhverfi. Af einhverjum ástæðum hefur þetta því miður lagst af síðustu ár. Ég veit að margir sakna þess mjög, enda eru viðurkenningar og verðlaun fyrir fagurt og snyrtilegt umhverfi mjög hvetjandi aðferð og góð leið til að ná meiri og betri árangri. Ég tala af reynslu í þessum efnum en við hjónin höfum þrívegis fengið slíkar viðurkenningar. Ég hvet eindregið til þess að þessi góða leið verði tekin upp aftur.

Að endingu vísa ég til yfirlýsingar meirihluta bæjarstjórnar í umhverfismálum sem kynnt var á bæjarstjórnarfundi hinn 1. júní síðastliðinn. Ég tek heilshugar undir það sem fram kemur í yfirlýsingunni og vænti þess að þessi markmið nái fram að ganga:

  • Auka vitund íbúa um flokkun sorps og fjölga hreinsunardögum í sveitarfélaginu.
  • Suðurnesjabær á að vera leiðandi í umhverfismálum og sýna gott fordæmi. 
  • Áminning og hvatning um snyrtilegt umhverfi á að koma reglulega frá sveitarfélaginu. 
  • Komið verði á fót umhverfisráði áhugasamra íbúa sem geti með aðstoð umhverfisfulltrúa verið ráðgefandi og skapað jákvæða ímynd þess átaks að bærinn verði snyrtilegur.
  • Hreinsun strandlengjunnar í samstarfi við hin ýmsu félagasamtök verði áfram unnin.
  • Áætlun um fráveitumál verði kláruð og tímasett og þá verði byrjað á stórum endurbótum.
  • Fegrun byggðarkjarnanna verði í hávegum höfð og aukin gróðursetning verði í sveitarfélaginu í samstarfi við skógrækt ríkisins og aðra aðila. 
  • Skilgreind verði svæði fyrir trjárækt með kolefnisjöfnun að leiðarljósi.
  • Unnið verði að fjölgun á hleðslustöðvum í Suðurnesjabæ í samvinnu við aðila á þeim markaði.

Bestu kveðjur, með von um að skjótt verði brugðist við og svo óska ég ykkur alls velfarnaðar í vandasömum störfum ykkar.

Jón Norðfjörð,
Sandgerði,
Suðurnesjabæ.