Aðsent

Geta útlendingar ekki lært íslensku?
Mánudagur 11. júlí 2022 kl. 17:08

Geta útlendingar ekki lært íslensku?

Tryggvi Pétur Brynjarsson.


Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir og Eiríkur Rögnvaldsson stönguðust hornum nýlega um auglýsingu frá hinu opinbera vegna þess að hún var mestmegnis á ensku og íslenska útgáfan skrifuð í molum. Var verið að auglýsa starf fyrir tölfræðing og að mati Áslaugar var engin þörf fyrir íslenskukunnáttu þar sem starfið fólst í „tölum en ekki tungumálanotkun“. Tók hún einnig fram að með því að heimta íslenskukunnáttu væri verið að útskúfa hinum 50.000 erlendu ríkisborgurum á Íslandi frá störfum í hinu opinbera. Eiríkur svaraði þessu með að einungis væri um að ræða hreint „pólitíkusasvar“ þar sem hún svaraði ekki fyrir mögulegt lögbrot að hans mati og vísaði til „laga nr. 61/2011 um stöðu íslenskrar tungu og táknmáls“.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Þetta mál birtist mér, eins og mörgum öðrum landsmönnum, í fréttaveitum landsins og vakti það ýmsar tilfinningar hjá ýmsu fólki. Hjá sumum landsmönnum vakti það reiði, hjá öðrum sorg en aðrir báru engar tilfinningar til þess háttar hugsunar og gengu til dags síns bundnir hversdagsleikanum, hugsandi „ekki mitt vandamál“. Sumir erlendir ríkisborgarar höfðu svipuð viðbrögð: Hjá sumum vaknaði reiði, öðrum sorg eða afskiptaleysi þar sem þetta hljómaði eins og hversdagshjal í eyrum einstaklings sem hugsar „ekki mitt mál“.

Þegar fréttin blasti við mér með annað dæmi um bakslag íslenskrar tungu, þá kíkti ég á hana forvitninnar vegna þó að slíkt væri mér fyrir löngu hætt að vera frétt. Er ég renndi í gegnum greinina áður en ég las hana, stangaðist í augun mín: „Would you like to work for the government?“ („Viltu vera ríkisstarfsmaður?“) Vissi ég þá að tungumálahrörnunin sem ég hafði séð svo lengi á vinnumarkaðnum í hinum fjölbreyttu störfum landsins hafði loks sigið inn til ríkisstjórnarinnar. En slíkt gat ekki gert mig hissa þar sem þjóðin endurspeglar það sem stjórnmálamenn okkar hugsa og gera og íslenskuleysi á vinnumarkaði er afrakstur lagaleysis og stjórnleysis þeirra.

Áslaug Arna, með athugasemd sína um starf tölfræðingsins, og Eiríkur Rögnvaldsson, með nýja bók sína „Alls konar íslenska“, eru bæði aðdráttarafl í því sem varðar þróun mála gagnvart íslensku eins og er. Áslaug Arna reynir, að sínu mati, að vera hagsýn gagnvart starfi tölfræðingsins og skellir syndinni á íslenskuna með því að gefa í skyn að hún haldi hinum 50.000 erlendu ríkisborgurum í skefjum og sé sem einbert kúgunartól. Eiríkur Rögnvaldsson talar í bók sinni, „Alls konar íslenska“, um léttleika í máli og frjálslynda tungumálanotkun. Slík tungumálanotkun er brúkuð milli manna dagsdaglega og þarf ekki mikla kennslu en þar er ýjað að vana margra landsmanna til að leiðrétta slíkt tal að óþörfu. Ekki þarf þó að taka fram að gott mál er einkum notað við réttar aðstæður í flestum tungumálum og er íslenska engin undantekning í því, með ensku sér við hlið. Gott dæmi væri á ensku með hversdagslegu setninguna „How y’all/youse doin'?“ og hið formlega „How are you all doing?“ Bæði myndi útleggjast sem „Hvað segið þið gott?“, sem í dagsdaglegu máli okkar væri „Hva' seiji'ði gott?" Einnig á spænsku má líta á hið formlega „¿Para mi?“ eða hið óformlega „¿Pa' mi?“ sem bæði þýðir „Fyrir mig?“. Í dagsdaglegu máli landsmanna hljómar það þó oftast sem „Fyri'mig?“ Dæmin eru endalaus og snúast sem jörðin um eyru mannanna en eru gott dæmi um formlegt og óformlegt mál sem er brúkað á mismunandi sviðum hins daglega lífs. Hefur Eiríkur (með bók sinni) helgað sér að brúa einhverjar brýr á milli slíkra mála en hefur það lítið að gera með íslensku sem tungumál, en frekar tungumál almennt. Mögulega er hún einnig til vakningar um að tungumál í ræðu er ekki hið sama og í kaffitíma. Að dómi margra er þó slík umræða merki um áframhaldandi þróun eða hnignun á málum eins og íslenskunni.

Orðin, þótt minni séu, hjá Áslaugu Örnu í garð íslenskunnar endurspegla djúpstætt viðhorf margra Íslendinga til erlendra ríkisborgara þar sem hún segir að á Íslandi séu yfir 50 þúsund erlendir ríkisborgarar og að hún skilji ekki af hverju þeir eigi ekki að hafa aðgengi að störfum hjá hinu opinbera. Í þessari frásögn sinni kemur hún ekki einungis upp um eigin fordóma gagnvart erlendu fólki sem starfar á Íslandi, heldur líka fordóma þjóðarinnar yfir höfuð. Fyrir marga landsmenn er það nýjung að erlendir ríkisborgarar tali ríkismál landsins og þeim að ósekju hefur því verið borað í höfuð þeirra á ungdómsárum að íslenskan væri ótrúlega erfitt mál og nánast ólæranleg. Er þetta viðhorf innbyggt í þjóðina og heyrt getur maður ungmenni segja að „íslenskan er erfiðasta tungumál í heimi“. Það er hjákátlegt svar í sjálfu sér þar sem fyrst og fremst skiptir máli hvaða tungumál hver einstaklingur talar. Þetta viðhorf Íslendinga sést oftar hjá enskumælandi fólki, einkum bandarísku, sem er oftast í minni samskiptum við önnur tungumál í sínu geysistóra landi en gengur og gerist í Evrópu. Bretinn er á sinn hátt einangraður á sinni eyju með sitt tungumál, sem er litið á sem „heimsmál“ að þeirra hálfu, og eru önnur tungumál einungis lærð af forvitni eða skemmtun. Hissa verða margir enskumælandi á „tungumálakunnáttu“ Norðurlandabúa og skilja ekki hvernig þeir geta talað „reiprennandi ensku“. Er spurningunni létt svarað ef litið er til veðráttu á Norðurlöndunum og peningaeign fólks á þeim slóðum, en flestir eiga sjónvarp og tölvur og eyða miklum tíma inni hjá sér heima, horfandi á efni og spilandi tölvuleiki á ensku. Þetta allt frá unga aldri býr til form „óeðlilegs“ tvítyngis (tungan er ekki lærð af foreldrum og töluð sem móðurmál) sem er ekki fullkomið á neinn hátt og speglar oft þær kvikmyndir og sjónvarpsefni sem þeir sömu einstaklingar hafa horft á. Þá segja margir enskumælandi að „norðurlandamálin séu svo frábrugðin (er finnska ekki talin með), einkum íslenskan, að þetta er ótrúlegt“. Hægt er að svara þessu svo að þessi tungumál eru fyrst og fremst náskyld. Enska er vestur-germanskt tungumál, ásamt þýsku, hollensku, frísnesku og skosku (sumir telja skoska ensku sér tungumál). Íslenska er norður-germanskt tungumál, ásamt norsku, færeysku, sænsku, dönsku og elfdælsku (áður talin sænsk mállýska) og eru þessi mál sprottin af rótum forn-germönsku, þegar eitt og sama mál var talað milli ættbálka Germana. Hægt væri að tala um áhrifin sem þessi mál hafa haft á hvert annað gegnum aldirnar og sjá tengslin þar, einkum gegnum „ómenguð“ stofnorð. Þegar talað er um Norðurlandamálin er íslenska talin mest frábrugðin ensku, en ef vel er að gáð er íslenskan ef til vill líkust henni hvað varðar stofnorðin sín þar sem líkindi hinna Norðurlandamálanna eru tengd við latnesk-skotnu orðin úr ensku. Ef litið er til orðsins „hafa“ á hinum Norðurlandamálunum er „har“ víðast sagt en íslenska orðið svipar enn meir til enskunnar „have“. Hið mest áberandi en þó ei hið augljósasta er „th“ hljóðið í ensku sem er einnig í íslensku sem „þ“ og „ð“ en er hvorki til staðar í hinum Norðurlandamálunum (nema elfdælsku) né í öðrum vestur-germönskum málum sem eru viðurkennd ríkismál. Flestir einstaklingar í heiminum vita ekkert um þessi tengsl og m.a.s. enskumælandi fólk veit ekki að enska sé í nokkurri tungumálafjölskyldu, hvað þá þeirri germönsku, því orðið „germanskt“ vekur frekar hugmynd um eitthvað þýskt (german) og tungumál sem líkjast þýsku, s.s. Norðurlandamálin. Erlendir aðilar sem koma til Íslands eru flestir þess hugar og sumir líta á íslensku sem stakmál þó þeir séu oftast meðvitaðir um að íslenska sé náskyld Norðurlandamálunum og er stundum kölluð kjánalegum orðum, s.s. „víkingamál“, þótt t.d. Eistar hafi farið í víking á fornöld með sitt óskylda úralska mál. En skyldleiki við ensku er sjaldan þekktur af erlendu ríkisborgurunum, og einnig Íslendingum sjálfum, sem líta á ensku sem fullkomlega „óbeygjanlegt mál“, þrátt fyrir að öll fornöfn í ensku eru beygð, sbr. „I/me“, „he/him“, „her/she“, „we/us“, og „they/them“. Meðan á því er gengið er gott að nefna að einungis eignarfallið er notað í spænsku, en annars beygjast fornöfn ekki eins og í germönskum málum (enska og íslenska þar með talin). Tungumálakunnátta útlendinga er oft dæmd frá viðhorfi landsmanna (eins og áður var sagt) og fordæmdum hugsunum þeirra um tungumálagetu enskumælandi. Engin furða er á þessum fordómum landsmanna þar sem Ísland er eyja í Vestur-Evrópu þar sem flest tungumál beygjast einungis í sögnum og fornöfnum og öll önnur föll hafa dáið út, en aðeins lengra á bauginn í Austur-Evrópu finnst og þrífst sama beygingarkerfi og viðgengst hér á landi og oftast með fleiri fallbeygingar, þó oftast án tiltekins greinis sem er ríkjandi í íslenskunni. Landsmenn halda þó enn í sína hjátrú um hið „gullna mál“ sem er erfitt að ná eða finna eins og fjögurra laufa smára eða gulllampa Aladíns. Tungumálageta kemur aðeins frá því, (ef ég má gerast svo djarfur að sletta svolítið) að „speak-a“, svo að „prata“, eftir á að „tosa“ þar til að maður byrjar að „tala“. Með öðrum orðum: Getan kemur frá því að gera, að tala kemur frá því að skilja og að skilja kemur frá því að læra og hringsólast það þannig að sá lærir sem einungis talar og talar. Snýst þetta þannig aftur til Áslaugar Örnu. Með því að segja að 50.000 erlendir ríkisborgarar séu útilokaðir frá hinu opinbera þar sem þeir, að hennar sögn, tala ekki íslensku þá gerir hún ráð fyrir að allir þeir 50.000 erlendu ríkisborgarar séu mállausir í íslensku, eða að þeir tali ekki íslensku einungis því að þeir eru erlendir og ekki íslenskir, án þess að gera sér grein fyrir því að einstaklingur þarf ekki að vera íslenskur til þess að tala íslensku eða að hafa lært hana. Að bestu getu frá að dæma væri Áslaug Arna sú manneskja sem myndi svara erlendum starfsmanni á ensku þótt hann talaði við hana á íslensku, eða hrósa slíkum manni með barnalegu hrósi s.s. „vel gert“, „gott hjá þér“ og „að sjá þig!“ Svo virðist sem að frá hennar sjónarhorni þurfirðu að vera Íslendingur til þess að tala íslensku.

Reynsla mín eftir að hafa verið með fasta búsetu í Bandaríkjunum frá 2005–2014 og að hafa komið til baka til landsins í þeirri von að aðlagast heimalandi mínu og tungumáli (sem ég hætti aldrei að tala) á ný var örðug í fyrstu þar sem „bjöguð enska“ var ríkjandi á ýmsum vinnustöðum þar sem ég starfaði. Þeir starfsmenn sem töluðu slíka „ensku“ höfðu flestir búið í áratug á Íslandi og vægt til orða tekið var íslenskan þeim „tilgangslaus og andstyggileg“, að þeirra eigin sögn. Í Bandaríkjunum varð ég vel var við eintyngda spænskumælandi innflytjendur, en þeir eru í allt annarri stöðu en Schengen innflytjendur Íslands og oftast kennitölulausir, og þar með réttindalausir, sem er þveröfugt við flesta innflytjendur þjóðar vorrar, sem eru flestir tví- og þrítyngdir. Menn eru einnig með miklu meiri réttindi til að fara á námskeið eftir vinnu og eru flestir með bíl. Ég á mínum fyrstu árum var á spænskunámskeiði og fór þangað eftir erfiða daga í vinnunni með strætó og er nú altalandi á spænsku þótt ég hafi aldrei búið í spænskumælandi landi. Pólverjar, Litháar og Filippseyingar (og allir aðrir aðfluttir Íslendingar, eins og það er kallað) búa á Íslandi og hafa þau réttindi að geta lært íslensku. En enginn er viljinn ef hvergi er töluð íslenska.

Ég hef heyrt hjákátlega dóma eins pólsks drengs um Ísland og Íslendinga eftir rúmlega fimm mánaða dvöl hans á landinu og sagði hann að „Enska er aðalmálið á Íslandi og allir landsmenn eru latir.“ Ég gat einungis brosað við slíkri fásinnu og fáviti og gaf það einungis í skyn að það væri ástæðan fyrir því af hverju að eitt eða annað byggingarsvæði hefði enga íslenska verkamenn. Eftir nú rúmlega átta ára dvöl mína á Íslandi get ég sagt að vinnumarkaður Íslands er eins og stór skóli í frímínútum og hver krakki er eitt fyrirtæki eða verkstjóri. Ef einn krakki er leiðinlegur við krakkana í kring eða við vini sína þá láta aðrir krakkar hann í friði og halda sig í fjarlægð og sá krakki verður einn og út undan og enginn vill vera í liði með honum. Segjum svo að nýir krakkar komi í skólann, ókunnugir skólanum og samnemendum sínum, þá hugsa þeir ekkert um hver þessi eini krakki er og fara með honum í lið og leika við hann, þar til að þau fatta eins og hinir að hann er ekki skemmtileg mannvera og láta hann í friði. Með komu nýs hóps af krökkum heldur þetta svo áfram. Sama er með íslenska vinnumarkaðinn: Eitt fyrirtæki eða yfirmaður stendur án íslenskra starfsmanna og eru ástæðurnar þær að annað hvort er fyrirtækið, eða önnur svipuð, komið með slæmt mannorð. Við komu mína heim var ég með bandaríska hugarfarið um að „vinna væri bara vinna“ og þar af tekur maður hvaða starf sem er. Andlegi skaðinn sem slíkt hugarfar getur leitt menn í er misjafnt þar sem „vinna er ekki bara vinna“. Vondur eða slæmur vinnustaður getur farið illa með marga karla og konur og afleiðingarnar fylgt þeim í mörg ár, ef ekki ævilangt. Þeir sem sinna aldrei leiðinlegu starfi á lífsleiðinni lifa í forréttindaheimi hugar síns og eru í besta lagi „heppnir“, þótt starfið gæti verið krefjandi. Þrátt fyrir það eru þeir í vissri „búbblu“ og bergmála „vinna er bara vinna“ og eru slíkir pabbastrákar og pabbastelpur líkleg til þess að lifa í þessari búbblu það sem eftir lifir ævinnar, aldrei skiljandi neinn nema sjálf sig.

Útlenskir starfsmenn eiga þar með mesta hættu á slíku, þar sem þeir taka fyrsta starfið sem þeim gefst og læra svo hægt og bítandi á landið, vinnu- og leigumarkað. Myndi ég ráðleggja hverjum útlendingi sem hefur störf á Íslandi að spyrja í viðtalinu hvort íslenska sé töluð á vinnustaðnum. Ef því er svarað neitandi þá getur hann gert sér hugmynd um hvers konar starf þetta mun verða og ekki væri það starf af góðu gerðinni, svo vægt sé til orða tekið. Flestir spyrlar í viðtali munu þó halda að íslenska gæti verið fælandi og því svarað neitandi. Þá þarf frekar að spyrja „Starfa Íslendingar hér?“ og ef því er svarað neitandi þá er spurt „Er þó töluð íslenska hér?“ og gá að hvernig spyrillinn svarar.

Annað er að flestir (já, flestir) atvinnurekendur (sem eru íslenskir) vilja ekki að starfsmenn þeirra læri íslensku og fari svo í eitthvað betra starf. Þeir vilja hafa þá mállausa (einnig ef þeir tala bara ensku), svo þeir skilji ekki þegar talað er um þá á íslensku fyrir framan þá og gera þá ólíklegri til að fara til annarra fyrirtækja því tungumálaleysið fækkar tækifærum. Enskan hjá þeim verður aldrei góð þar sem hún er ekki móðurmál landsmanna og þeir veltast í sama sorafyrirtæki og -verknaði þar til þeir láta til skarar skríða og læra íslensku og grípa þau tækifæri sem bjóðast þá. Hitt þó er að í öllum eldri en 25 (eða þrítugt) er innbyggð sú hugsun að einungis Íslendingar tali íslensku og því munu margir vinnuráðendur sjá nöfnin Pawel, Marchin, Juan (sem eru ekki Íslendingar af erlendu bergi brotnir) og sjá að við tungumálakunnáttu stendur: Íslenska. Þeir munu margir þó hugsa: „Hann talar þó ekki góða íslensku því hann er útlenskur,“ og ráða einhvern íslenskan í staðinn.

Þrjú af yngri systkinum mínum voru mállaus í íslensku þegar þau fluttu til landsins og brúkuðu einungin sína bandarísku ensku sem er flestum torskilin og hljómar ekki eins og í bíó, ef svo má til orða taka. Þau lærðu þó íslensku, upp á eigin spýtur, í vinnunni (þar sem þau störfuðu í þjónustu). En þegar tvö þeirra vildu fara á íslenskunámskeið var því hafnað af atvinnurekenda þar sem þau „töluðu nógu mikla íslensku.“

Hið síðasta varðandi upplifun mína á heimaslóðum er að flestir erlendir ríkisborgarar hafa skipað mér að tala ensku í vinnunni. Eitt dæmi var í byggingarvinnu þar sem ég var að tala ensku og að sinna starfinu með einum Litháa og samskipti okkar fór gegnum það mál. En vegna vankunnáttu hans á ensku, sem hann trúði þó að hann talaði, þá reiddist hann og ávítaði mig fyrir að tala „amerísku“ og sagði á „ensku“: „This is Iceland, we don't speak American!“ Ég svaraði í sömu mynt: „You’re right, this is Iceland and we speak Icelandic.“ Hann glotti bara við þessu og svaraði engu. Fannst mér hegðun hans sýna einhvers konar minnimáttarkennd gagnvart enskunni. Mér fannst örðugt að skilja hvernig karlinn gat hugsað þannig þar sem hann bjó á Íslandi en ekki Bretlandi. Hann talaði einnig enga íslensku eftir tíu ár dvöl sína hér á landi og ég tek fram að enskan var hrikaleg. Svo fattaði ég eitt: Allt vinnusvæðið var litháískt og pólskt og aðeins afbrigði af rússnesku eða ensku töluð manna á milli og ég hugsaði: „Þegar þessir menn fara heim þá er fjölskyldan eða vinir samlandar þeirra og íslenska er ólifandi tungumál í þeirra máls- og tilveruheimi. Íslenska heyrist rétt á götum miðbæjarins eða í verslunarkjörnum en svo ekkert. Flestir landsmenn keyra og þá á endanum verða einu Íslendingarnir sem þessir karlar og konur hitta nokkrir verkamenn á sama vinnusvæði frá öðru fyrirtæki eða verkstjórinn eða fullur Íslendingur í miðbænum. Byrjaði ég sjálfur að upplifa þetta þar sem nær einungis enska er töluð í búðum (oftast skipar erlenda starfsfólkið manni að tala „ensku“) og vinnusvæðið var oftast einungis enskt eða meiri partinn enskt og þegar ég kom heim talaði ég við systkini mín á ensku og við eiginkonu mína á öðru máli. Chromecast tengir mann við sjónvarpsveitur, YouTube eða hvað sem er og lítið sem ekkert íslenskt efni er að finna. Ef maður fer á Rúv og sér kvikmyndir eða heimildarmyndir eru þær nánast allar á ensku og ekki talsettar (nema nýlega nokkrar BBC heimildarmyndir). Íslenskur texti er til staðar en stærsti partur tungumálsins er að heyra það talað en ekki að sjá það.

Skrifuð íslenska er einnig fjarri augum fólks og virðist því sem næst falin af ferðamannaiðnaðinum. En einungis skrifað mál samsvarar dauðu máli þar sem nóg er af latínu í dómshúsum og merkilegum byggingum heims. Íslenska gæti nánast þá ekki verið til. Fannst mér erfitt að aðlagast íslensku samfélagi fyrst og ég hugsaði: „Ef mér finnst það erfitt og tala þjóðtunguna, hvernig væri þá þetta fyrir mállausa innflytjandann?“

Erlendir starfsmenn, t.d. Pólverjar sjá þetta ekki eins vel og við, þar sem margir þeirra tala sitt móðurmál liðlangan daginn og grípa aðeins til ensku í samskiptum við viðskiptavini og nokkra íslenska samstarfsmenn.

Þegar allt þetta er nefnt og kallað til atvinnurekenda, stórra eða sjálfstæðra fyrirtækja, þá segja þau öll hið sama: „Það er ekki hægt að ráða Íslendinga í vinnu!“, „Íslendingar eru latir!“ og jafnvel „Ég ræð útlendinga og þeir kvarta ekkert. Íslendingurinn er alltaf að kvarta undan hinu og þessu. Útlendingurinn kvartar ekkert, bara gerir!“ Fyrst og fremst er slíkt tal andstyggilegt og væri augljóslega svo ef við myndum skipta orðinu Íslendingur út fyrir orðið „blökkumaður“ og um væri að ræða blökkumann að tala um aðra blökkumenn: „Það er ekki hægt að fá blökkumenn í vinnu!“, „blökkumenn eru latir!“, „Ég ræð útlendinga og þeir kvarta ekkert. Blökkumaðurinn er alltaf að kvarta undan hinu og þessu. Útlendingurinn kvartar ekkert, bara gerir!“ Tek ég það fram að slík andstyggileg orðræða er algeng í Bandaríkjunum hjá atvinnurekendum, sem myndu frekar ráða rómanskan Ameríkana en Bandaríkjamann og segja hið sama, og aðrir blökkumenn segja þetta um annað fólk af sama uppruna, en þetta er augljóslega séð innbyggð kynþáttahyggja þótt hún beinist að eigin landsmönnum. Ef að Íslendingar eru ekki að starfa hjá fyrirtæki þessara manna sem segja slíkt, þá er ástæða fyrir því þar sem fyrirtæki slíkra manna er ekki gott og vilja í raun ekki hafa starfsfólk, heldur þræla.

Hitt er líka það að ríkið ber það fram að það vilji hafa helling af ótalandi útlendingum í skítastörfum til þess að vinna og starfa sem hljóðar maskínur sem aðlagast aldrei, heldur starfa bara og atvinnurekendurnir endurspegla það þar sem Ísland er lítið land og þessir karlar og stjórnmálamenn landsins gætu ef til vill verið skyldir.

Það hentar þessum mönnum (atvinnurekendum) að fólkið kann ekki íslensku og það breytir voða litlu ef það lærir ensku á Íslandi því það nær flest aldrei góðu taki á henni þar sem hún er ekki mál landsmanna. Það nær frekar tökum á „ís-ensku“, sem er ekki alvöru tungumál og er í raun íslenskuskotin enska. Réttindin eiga að vera á málum flestra, en það búa ekki allir tungumálatalendur heims á Íslandi. Áður en tæknin getur það þá mun engin þýðu vinnuréttindabók yfir á sérósku eða tsalagi fyrir þann eina eintyngda mann á því máli í sínu fyrirtæki (flestir sérókar tala ensku nú til dags, en margir einnig sérósku).

Burtséð frá þessum tungumálum þá bendi ég á að þegar þessir áðurnefndu atvinnurekendur segja, líkt og einn frægur íslenskur bensínstöðvarekandi sagði: „Það talar engin íslensku því að Íslendingar fást ekki í þessa vinnu!“ þá er þessi sami maður að gefa í skyn að útlendingar „geti ekki“ lært íslensku.

Hnignun tungunnar er raunveruleg staðreynd og er stjórnmálamönnum um að kenna fyrir að vernda ekki málið eins og þeim ber. Öll tungumál eru vernduð, ríkismálin hjá stórum þjóðum eru tryggð með lögum til þess að vera leiðandi mál þjóðar sinnar og er Ísland engin undantekning. Þótt Bandaríkin séu ekki með eina skráða „þjóðtungu“ þá tryggja þeir með lögum að enskan sé það sem er kallað „de facto“ mál og er tryggð á öllum sviðum þjóðlífs. Þá verður að segja að ef ríkið styður ekki þjóðtunguna þá er tungumál þjóðarinnar í hættu.

Góður forvari um framtíð þjóðarinnar ef sama hátterni er gengið til enda eru örlög norræna tungumálsins í Hjaltlandseyjum og Orkneyjum, tungumálið Norn, sem líktist mest færeysku og norsku. Þetta tungumál dó út árið 1850 vegna auðsveipsháttar eyjaskeggja. Hjaltland og Orkneyjar urðu partur af Skotlandi og enskan dreifðist þar hægt og rólega. Nútíma landsmenn á Íslandi finna sig undir sama þrýstingi (hægt en bítandi) og Hjaltlendingar forðum þar sem þjóðin er í Atlantshafsbandalaginu (NATO) sem hefur þörf fyrir að allar þjóðir verði enskumælandi til að taka þátt í hernaðarstarfsemi þeirra. Eru örlög Vestur-Íslendinga einnig góð áminning um komandi örlög okkar ef við þegjum andspænis aðsteðjandi hættu eða göngum villigötur trúgirni, ef svo má til orða taka.

Einnig hefur mikið verið talað um að íslenska má ekki vera notuð til þess að kúga eða skipa fólki að tala íslensku, en í flestum störfum mínum á landinu hefur mér verið skipað að tala ensku dagsdaglega og það í þessu eina landi þar sem ég ætti að geta talað mál mitt, móðurmál mitt, tungumál afa og ömmu og forfeðra minna. Eins og Navahó-maðurinn getur einungis talað navahósku (Diné bizaad) á sínu verndarsvæði, ætti ég sömuleiðis að geta talað íslensku í mínu landi þar sem tungumálið á að vera verndað samkvæmt íslenskum lögum. Einnig eru flest fyrirtæki brotleg á þeim íslensku lögum sem varða tunguna:


1. gr.

Þjóðtunga – opinbert mál.

Íslenska er þjóðtunga Íslendinga og opinbert mál á Íslandi.

2. gr.

Íslenskt mál.

Þjóðtungan er sameiginlegt mál landsmanna. Stjórnvöld skulu tryggja að unnt verði að nota hana á öllum sviðum íslensks þjóðlífs.
Allir sem eru búsettir hér á landi skulu eiga þess kost að læra og nota íslensku til almennrar þátttöku í íslensku þjóðlífi svo sem nánar er mælt fyrir um í sérlögum.

Íslenskan er það sem bindur erlent fólk sem flytur til landsins okkar saman í samfélaginu okkar en ekki hrognakennd útgáfa af ensku, sama hve vel sú útgáfa er töluð. Það eina sem er verið að fæða með þessari þróun er aðskilnaðarstefna þar sem einungis Íslendingar mega tala íslensku og útlendingunum er haldið utan við samfélagið með ensku og það er það sem blasir við landsmönnum í dag. Þetta er raunveruleikinn.

Það þarf skipulögð lög um íslensku og tungumálastefnu sem ríkið vill fara eftir, því eins og gangurinn er nú genginn er þjóðin líkust stefnulausum báti í brimfullum sæ í þeim málefnum. Hef ég nokkur ráð til handa: 

1. Allt erlent starfsfólk verður skráð á íslenskunámskeið á kostnað fyrirtækis eftir þrjá mánuði í starfi og verður námskeiðið tengt starfi hvers og eins. Úrsögn úr íslenskunámskeiði samsvarar uppsögn.

 2. Íslenskuskylda verður á öllum starfssviðum nema fyrir starfsfólk sem kemur og starfar tímabundið og hefur samning til þess að sýna upp á það eða eru háskólanemar með tímabundna vist. 

Eru þetta einungis mínar tillögur um svonefnt skipulag sem varðar tunguna en ríkið verður að gera skyldur sínar til þjóðtungu landsmanna skýrar og einnig að gera skyldu sína gagnvart tungumálinu yfir höfuð. Ekki er einungis nóg að gera íslenska Alexa eða Siri, það þarf að tryggja íslensku sem tungumál vinnumarkaðarins.

Er mér einnig umhugað þegar ég var eitt sinn í Bónus og ein kona um fimmtugt sem virtist vera Filippseysk var að rífast við ungan svartan starfsmann á íslensku og hann svaraði henni með stælum á ensku: „Why can't you just say it in English?“ (Af hverju geturðu ekki bara sagt það á ensku?) Og hún svaraði hátt á íslensku: „Ég tala ekki ensku!“ Starfsmaðurinn sagði „Ó“ við því og leit konan til mín í von um að ég myndi segja eitthvað en ég gekk framhjá henni, út úr búðinni og í vinnuna. Ég hugsaði eftir á að ég hefði átt að segja eitthvað þar sem mér er umhugað um tungumálið og leiddi þetta hug minn að því að réttindi erlendra ríkisborgara sem hafa lært íslensku og tala enga ensku eru minna metin en þeirra sem tala enga íslensku en ensku í staðinn. Ég hugsaði um það í dálítinn tíma og leið aftur eins og ég hefði átt að segja eitthvað. Ég er þó allavega að segja eitthvað núna.

Ef ekki er þörf á íslenskukunnáttu í starf tölfræðingsins hjá hinu opinbera, þar sem stærðfræði er „alþjóðlegt mál“, þá má Áslaug Arna standa við orð sín og ráða eintyngdan mandarín-/kantónskumælandi Kínverja sem talar hvorki íslensku né ensku og sanna mál sitt.

En því miður getur hann ekki lesið auglýsinguna þar sem hún er bara á ensku og mismunar honum.

Höfundur er skáld.