Aðsent

Breytingar á húsaleigu eldri borgara í Víðihlíð í Grindavík
Miðvikudagur 28. október 2020 kl. 12:29

Breytingar á húsaleigu eldri borgara í Víðihlíð í Grindavík

Miðflokkurinn í Grindavík fagnar því að samþykkt hafi verið á bæjarstjórnarfundi í gær að breyta leigumálum í Víðihlíð en þar eru íbúðir fyrir eldri borgara. Árið 2018 voru teknar í gagnið sex nýjar íbúðir í Víðihlíð og eins og hefur tíðkast í Grindavík sem og víða annarsstaðar var leiguverð og íbúðaréttur reiknaður út frá stofnverði viðbyggingarinnar sem var dýr í byggingu og leiguverð því mjög hátt og mun hærra á hvern fermeter en á eldri íbúðum. 

Undirrituð hefur tekið þetta mál fyrir á fundum á kjörtímabilinu og óskað eftir leiðréttingu sem loks er komin í gegn. Á fundinum í gær var samþykkt að breyta aðferðum við útreikning leigunnar sem hefur í för með sér að leiguverð lækkar umtalsvert, þó mismikið, ásamt því að fella niður íbúðarétt sem hefur verið við lýði í mörg ár. Þessi nýja samþykkt tekur gildi um áramót. Þetta er gríðarlegt hagsmunamál fyrir okkar dýrmætu þegna. Eldri samningar með íbúðarétt, þar sem eldri borgarar greiða lægri leigu, munu þó halda sér nema þeir kjósi að fara í nýja kerfið. Þetta er mikil einföldun á kerfinu hjá okkur og var þessi tillaga samþykkt samhljóða eftir að vinnuhópur sem stofnaður var um leigumál í Víðihlíð skilaði af sér þessum tillögum.

Sólning
Sólning

Í síðustu kosningunum voru málefni eldri borgara sett í forgang hjá okkur í Miðflokknum í Grindavík og var þetta eitt af þeim málum sem við lofuðum að taka á,  því er um mikinn áfangasigur að ræða.

Hallfríður G. Hólmgrímsdóttir

Bæjarfulltrúi Miðflokksins í Grindavík