Aðsent

Bleikur október
Fimmtudagur 13. október 2022 kl. 12:35

Bleikur október

Bleikur október er tileinkaður vitundarvakningu þar sem sjónum er beint að krabbameinum hjá konum en þetta er árlegt átaksverkefni Krabbameinsfélagsins. Í tilefni þess er vert að vekja athygli á heilsu kvenna og beina þeim að fara í skimanir fyrir legháls- og brjóstakrabbameini.

Lýðheilsuvísar frá Embætti landlæknis sýna að þátttaka kvenna í skimun fyrir legháls- og brjóstakrabbameini hefur verið minni á Suðurnesjum í samanburði við önnur heilbrigðisumdæmi. Það er ljóst að úr þessu þarf að bæta og eru konur á Suðurnesjum hvattar til að fara reglulega í skimun til þess að láta fylgjast betur með heilsufari sínu. 

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Við hvetjum allar konur sem hafa fengið boðsbréf að bóka tíma en það er miðað við að konum sé boðin skimun fyrir leghálskrabbameini á þriggja ára fresti á aldursbilinu 23–29 ára og á fimm ára fresti á aldursbilinu 30–65 ára. Konur á Suðurnesjum geta pantað tíma í skimun fyrir leghálskrabbameini hjá Heilbrigðisstofnun Suðurnesja í síma 422-0500. Gjald fyrir skimun á leghálskrabbameini er 500 krónur. Einkennalausar konur 40 til 74 ára geta pantað tíma í skimun fyrir brjóstakrabbameini hjá brjóstamiðstöð Landspítala, Eiríksgötu 5 í Reykjavík. Tímapantanir í síma 513-6700 milli kl. 8:30 og 12:00 alla virka daga. 

Það er ýmislegt hægt að gera til að draga úr líkum á krabbameinum en einn af hverjum þremur íslendingum má búast við að greinast með krabbamein um ævina. Þess vegna viljum við minna á mikilvægi skimanna en ár hvert bjarga skimanir lífi fjölda kvenna. Því fyrr sem krabbamein eða forstig greinist því betra. Það er mikilvægt fyrir okkur konur að huga að heilsu og vellíðan okkar.

Bleiki dagurinn verður haldinn þann 14. október næstkomandi. Frá kl. 13 til 15 verður Krabbameinsfélag Suðurnesja, í samstarfi við Lýðheilsuráð Reykjanesbæjar og Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, með opinn dag á Heilsugæslu HSS þar sem hægt að fara í ýmiss konar heilsufarsmælingar og fá ráðgjöf fyrir bættri heilsu. Sigrún Elva Einarsdóttir frá Krabbameinsfélagi Íslands mun halda fyrirlestur um krabbamein kvenna og mikilvægi legháls- og brjóstaskimana. Krabbameinsfélag Suðurnesja verður á staðnum og gefur gestum bleika boli og verða léttar veitingar í boði. Allar konur á Suðurnesjum eru velkomnar.

Krabbameinsfélag Suðurnesja er með þjónustuskrifstofu á Smiðjuvöllum 8 í Reykjanesbæ og er hún opin á þriðjudögum og miðvikudögum frá kl. 12 til 16. Sigríður Erlingsdóttir er forstöðumaður félagsins og er hún til staðar til að aðstoða fólk við að ná jafnvægi við breyttar aðstæður í lífinu, veita stuðning og nauðsynlegar upplýsingar. Einnig er boðið upp á fjárhagslega aðstoð en að greinast með krabbamein getur verið kostnaðarsamt og veitir félagið styrki til þeirra sem þess þurfa á að halda. Stuðningshópur kvenna byrjar í næstu viku og verður á þriðjudögum frá kl. 14 til 16 og eru allar konur velkomnar, hvar sem þær eru í ferlinu að greinast með krabbamein. Ráðgjafaþjónusta KÍ býður upp á ráðgjöf og stuðning fyrir þá sem greinst hafa með krabbamein og aðstandendur og býðst þjónustan einnig þeim sem misst hafa ástvin úr krabbemeini. Hefur þú þörf fyrir ráðgjöf og stuðning varðandi það sem þú ert að upplifa, til dæmis sálræna líðan, félagsleg réttindi eða líkamleg einkenni þá hvetjum við þig að hafa samband. Það er hægt að hringja í síma 421-6363 eða á [email protected].  

Sigríður Erlingsdóttir, forstöðumaður Krabbameinsfélags Suðurnesja.

Ásdís Ragna Einarsdóttir, verkefnastjóri lýðheilsumála hjá Reykjanesbæ.

Andrea Klara Hauksdóttir, hjúkrunardeildarstjóri heilsugæslunnar.