Mannlíf

Með nýjan mótor og vatnsdælu
Sunnudagur 1. mars 2015 kl. 09:00

Með nýjan mótor og vatnsdælu

Grindvíkingurinn Helgi Einar Harðarson er bæði líffæragjafi og -þegi.

Helgi Einar Harðarson fékk slæma flensu árið 1989, þá sextán ára gamall og í ljós kom veira sem ráðist hafði á hjartað. Helgi lá lengi á milli heims og helju og tekin var ákvörðun um að græða í hann nýtt hjarta. Í slíkum aðgerðum er líka komið fyrir nýra úr sama einstaklingi. Nýru sem eru til staðar eru ekki fjarlægð heldur nýjum bætt við á nárasvæðinu. „Þá var mér sagt að það hjarta myndi kannski duga í 5-8 ár, en það dugði í 15 ár. Þá var ég líka orðinn mjög máttfarinn og búinn á því líkamlega og andlega. Var farinn að einangra mig. Maður er líka settur á alls kyns lyf og stera eftir svona aðgerðir og það tekur á nýrun. Sterarnir fara misjafnlega í fólk og rugla ónæmiskerfið. Ég var frekar ör týpa að eðlisfari fyrir og það batnaði ekki,“ segir Helgi. 
 
Helgi Einar fór til Danmerkur með móður sinni árið 2003 og þar var honum sagt að ekkert væri hægt að gera. En tilviljanir réðu því að honum bauðst síðan að fara til Svíþjóðar í rannsóknir fyrir aðgerð. Málið var tekið föstum tökum. „Á þeim tíma voru Íslendingar ekki með samning um líffæragjöf þangað. Þá voru einnig bara tveir spítalar í Evrópu sem gátu framkvæmt svona aðgerðir. Í Svíþjóð var mér sagt að ég þyrfti nýtt hjarta og nýra. Hjartað sem ég hafi fengið hafi bara verið bilað. Íslensku læknarnir komust að sömu niðurstöðu.“ 
 
Í klukkutíma fjarlægð frá flugvellinum í 16 mánuði
Við tók 16 mánaða bið og Helgi mátti ekki vera í meira en klukkutíma fjarlægð frá Reykjavíkurflugvelli. Þar átti sjúkraflutningavél bíða eftir því að fljúga með hann og hann varð að vera kominn til Svíþjóðar innan sex tíma. „Svo var hringt og ég var í sumarbústað í Kjósinni hjá vini mínum og kallið komið. Ég var ekki byrjaður að borða og fór því á fastandi maga. Mamma kom með töskuna út á völl. Í Svíþjóð var síðan búið að sturta mig allan, raka mig og setja í mig nálar til að rúlla mér niður í svæfingu. Þá kom hjúkka sem sagði að það væri hætt við því líffærin myndu ekki passa. Það var pínu áfall og ég flaug heim.“ 
 
Með nýjan mótor og vatnsdælu
Eftir fjóra mánuði var hringt aftur og Helgi kvaddi fólkið sitt og flaug út. Þar biðu hans tvær stórar aðgerðir í júní 2004. „Þegar maður er lasinn á spítala þá hugsar maður ýmislegt. Hvort maður muni einhvern tímann eignast barn eða geta ferðast um og bara haldið heilsunni. Þarna fékk ég algjörlega nýjar græjur og sá og fann strax mun á mér eftir aðgerðirnar,“ segir Helgi, ánægður með þriðja hjartað. Þegar hann er spurður um aldur segist hann ekki lengur vita það því hann sé svo mikið uppgerður, með nýjan mótor og vatnsdælu. „Ég er annar Íslendingurinn sem fær nýtt hjarta og veit að húmorinn skiptir miklu þegar gengið er í gegnum svona reynslu.“
 
 
Kraftaverkadóttirin Sigurbjörg Brynja
Nákvæmlega fimm árum eftir að Helgi fékk þriðja hjartað fæddist dóttir hans, Sigurbjörg Brynja, 14. júní 2009. „Ég kynntist móður hennar 2006 og mér finnst kraftaverk að dóttir mín skuli hafa fæðst miðað við allt sem á undan var gengið,“ segir Helgi býr að Sjónarhóli, í stóru gulu húsi við tjaldsvæðið í Grindavík. Hann er búinn að vera að breyta því smám saman í gistiheimili. „Það gengur mjög vel að bóka fyrir næsta sumar, gerist allt í gegnum Booking.com. Annars leysi ég af við að keyra vörubíl fyrir Einhamar Seafood við löndun. Eigendurnir Sandra og Stefán eru einstök og hafa verið mjög skilningsrík í minn garð. Stefán er líka vinur minn.“
 
Framhaldslíf líffæranna 
Talið berst að umræðu um líffæragjafir og Helga finnst hann skynja svo sterkt að fólki finnist ekkert mál að skrá sig og vilji gefa líffæri sín. „En ég virði alveg ef það eru einhverjir sem kjósa að gera það ekki og það á ekki að neyða neinn. Ég er ánægður með frumvarpið því ákvörðunin á þeirri stundu þegar manneskja er að deyja eða er látin er svo erfið. Sem betur fer erum við Íslendingar gjafmild og þegar allt kemur til alls erum við góð fyrir allan peninginn.“ Í tilfelli hjónanna sem komu fram í viðtali þar sem sonur þeirra hafði gefið sex manns líffæri úr sér eftir sinn dag, telur Helgi að það hafi í raun hjálpað þeim að einhver hluti af honum sé enn á lífi. „Ég hef líka hugsað til þess að kannski er einhver þarna úti sem hugsar til þess að einhver er með hjarta og nýra úr einhverjum sem var honum kær. Ég hef allavega ekki séð neitt eða lesið um að einhverjir aðstandendur hafi séð eftir því að hafa gefið líffæri. Umræðan og upplýsingin eru orðin miklu sterkari. Margir deyja á meðan þeir bíða eftir líffærum.“ 
 
Gaf hjartalokurnar í fyrri hjartaaðgerðinni
Helgi bætir við að eðlilega sé erfitt að búa til frumvarp sem hentar öllum en það lítur út fyrir að meirihlutinn sé með því og það eigi eftir að bjarga mörgum mannslífum. „Ef frumvarpið fer í gegn, þá er til dæmis hægt að ákveða á einhverjum tímapunkti, t.d. hjá heimilislækni, að einhver vilji ekki gefa líffæri. Eða á einhvern hátt í gegnum netið. Sem betur fer erum við Íslendingar með mjög færa lækna sem geta framkvæmt þessar aðgerðir hér. Þeir vaða í hlutina,“ segir Helgi bjartsýnn og bætir við að lokum: „Mamma minnti mig áðan á það að ég var ekki bara hjartaþegi í fyrstu aðgerðinni. Hjartalokurnar mínar fengu nýtt líf í öðru barni.“ 
 
VF/Olga Björt
 
Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024