Flugþjónn er líka karlastarf

- Flugþjónninn Bjarki Þór segir hvorki karla né konur þurfa að mæta fordómum í störfum sínum

Bjarki Þór Valdimarsson er 23 ára Keflvíkingur. Eftir nám við Fjölbrautaskóla Suðurnesja lá leið hans til Svíþjóðar þar sem hann lauk námi sem þyrluflugmaður. Eftir útskrift ákvað Bjarki hins vegar að sækja um starf sem flugþjónn hjá WOW AIR. „Ég vissi í raun ekkert út í hvað ég var að fara en hafði alltaf haft áhuga á því að sækja um. Eftir starfsviðtalið var ég svo boðaður á sex vikna námskeið sem var virkilega krefjandi en skemmtilegt á sama tíma," segir Bjarki sem hefur nú starfað sem flugþjónn síðan 2015.

Aðspurður út í starfið segir Bjarki það snúast fyrst og fremst um að tryggja öryggi um borð. „Við erum mjög vel þjálfuð til að takast á við alls kyns aðstæður. Allt frá alvarlegum veikindum og upp í verstu mögulegu aðstæður sem gætu komið upp í flugi. Svo þarftu auðvitað líka að kunna að hella upp á gott kaffi," segir Bjarki og hlær. Hann segist þó ekki hafa upplifað fordóma varðandi það að vera karl í þessu starfi. „Ég held að þessi starfsgrein sé mikið að jafnast út varðandi kynjahlutföll þó svo að það séu ennþá töluvert fleiri konur í þessari stétt. Ég var til dæmis í síðustu viku með þremur öðrum strákum í áhöfn sem var mjög skemmtilegt og það sýnir að strákar eru að bætast við í miklu magni."

Bjarki telur staðalímyndir hafa mikið með það að gera að konur séu í miklum meirihluta í þessu starfi. „Hérna áður fyrr voru þetta nánast einungis konur en núna er þetta að jafnast út hægt og rólega. Sama og er að gerast hjá lögreglunni. Áður fyrr voru karlmenn í nánast öllum stöðum þar en núna sjáum við sífellt fleiri konur í lögreglunni."

Bjarki segir karla og konur ekki eiga að þurfa að mæta fordómum í neinu starfi. „Við erum jafn fær um að sinna nánast öllum störfum sem við tökum okkur fyrir hendur. Það fólk sem telur karlmenn ekki hæfa í það að vera flugþjónar þarf virkilega að víkka út sjóndeildarhringinn sinn," segir Bjarki Þór og hvetur fleiri stráka til að sækja um.

Texti: Sólborg Guðbrandsdóttir