Sindri Kristinn nokkuð bjartsýnn
Markvörður Keflavíkur, Sindri Kristinn Ólafsson, var í viku við æfingar hjá danska liðinu Esjberg en Ísak Óli, bróðir hans, er á samningi hjá félaginu. Víkurfréttir heyrðu í Sindra skömmu eftir komuna heim og spurðu hvernig hafi gengið.
„Þetta gekk alveg ágætlega,“ segir Sindri sem kom heim í vikunni. „Frábært að komast út og æfa við frábærar aðstæður.“
Sindri segir að markmannsþjálfarinn hafi virkað svolítið fjarlægur og lítið gefið sig að honum þessa viku sem Sindri æfði með liðinu. „Ég hugsaði bara með mér að hann væri ekki að fíla mig en ég ákvað að njóta þess að æfa og hafa gaman af. Svo eftir síðustu æfinguna kallaði hann mig á fund og þá hélt ég að hann væri að fara að segja mér að þetta myndi ekki ganga en það var eiginlega öfug skilaboð sem ég fékk. Þeim leist mjög vel á það sem ég sýndi þeim og kæmi mér ekki á óvart ef ég myndi heyra í þeim fljótlega aftur,“ sagði Sindri vongóður um að komast að hjá danska fyrstu deildarliðinu en hann afþakkaði samning við enska liðið Oldham Athletic fyrir rúmu ári síðan.
Staðan hjá Esbjerg er þannig að liðið er með tvo meidda markverði á samningi og það er verið að vinna í að losa þá undan samningi við félagið. Þau mál eru í vinnslu og leysast væntanlega bráðlega – hvað gerist þá verður svo að koma í ljós, hvort Sindri Kristinn yfirgefi herbúðir Keflavíkur og gangi til liðs litla bróður sinn í Danmörku.