Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

Við höfum fulla trú á okkur sjálfum
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
þriðjudaginn 19. apríl 2022 kl. 11:11

Við höfum fulla trú á okkur sjálfum

– en það munar um tólfta manninn

– segir Sigurður Ragnar Eyjólfsson, þjálfari meistaraflokks karla í knattspyrnu hjá Keflavík sem er spáð falli í sumar.

Siggi Raggi segir að sér lítist bara vel á tímabilið þrátt fyrir að mikil meiðsli hafi verið að hrjá liðið á undirbúningstímanum. „Vonandi verða einhverjir komnir til baka fyrir mót. Ég held bara að við höfum verið pínu óheppnir en fyrir utan það þá höfum við hagað undirbúningstímabilinu þannig að öllum hefur verið gefið tækifæri til að spila,“ sagði Siggi í spjalli við Víkurfréttir nú skömmu fyrir Íslandsmót. „Ungir og efnilegir strákar fengu að spila mikið í vetur og síðan þegar nær dró móti fóru erlendu leikmennirnir okkar að koma til landsins og þá fór að koma meiri mynd á liðið og úrslitin urðu betri. Heilt yfir er búið að ganga mjög vel í síðustu leikjunum á undirbúningstímabilinu og liðið verið að spila vel – undantekningin er leikurinn á móti ÍBV, síðasti leikur, en það eru bara ofboðslega mikil meiðsli í liðinu og við erum að vinna í að fá leikmenn inn til að styrkja okkur því deildin verður enn sterkari í ár en hún var í fyrra.“

Æfing hjá meistaraflokki karla. Haraldur Guðmundsson, aðstoðarþjálfari, sýnir að hann hefur engu gleymt. VF-myndir: JPK


Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Besta deildin – fleiri leikir, lengra tímabil

Nú lengist tímabilið með þessari úrslitakeppni, hvernig líst þér á það fyrirkomulag?

„Mér líst mjög vel á að það sé verið að fjölga leikjum, að mótið sé núna 27 leikir. Það er þessi úrslitakeppni sem bætist aftan á og það er, held ég, vilji allra þjálfara að leikjum sé fjölgað. Það eru svo skiptar skoðanir hvaða aðferð sé best við það en ég held að það sé flott að prófa þetta fyrirkomulag og sjá hvernig gengur. Ég held að allir séu spenntir fyrir því. Hvort að þetta sé hin fullkomna lausn á eftir að koma í ljós, það gætu aðrar lausnir komið seinna en mér finnst fínt að prófa þetta og sjá hvernig það gengur.

Svo lengir þetta mótið og maður fær vonandi að sjá að ungu mönnunum verði gefnir fleiri sénsar til að spila, kannski meira en áður. Við erum búnir að spila óvenju mikið á uppöldum strákum, allt að 60% leiktímans hefur farið til leikmanna sem eru uppaldir í félaginu. Það er ofboðslega hátt hlutfall og er í raun helmingi hærra hlutfall en hjá þeim liðum sem eru best í að ala upp leikmenn í Noregi. Við höfum verið að gefa okkar strákum mikinn séns í vetur og núna getum við horft á tímabilið þannig að menn séu að fá nýja áskorun. Það er að verða meiri samkeppni um stöður þegar núna þegar tímabilið er að byrja og menn að koma til baka – vonandi stíga þessir strákar upp, allir sem einn, og vaxi og eflist með verkefninu.“

Siggi segir það líka vera mjög spennandi að sjá fram á að hafa stuðningsmenn á leikjum en þeir hafa verið af sárlega skornum skammti í Covid-faraldrinum. „Það er öðruvísi að spila fyrir framan þúsund manns en þegar það eru engir áhorfendur. Það gefur deildinni mikið skemmtilegri blæ og okkur hlakkar til þess.“

Maður veltir fyrir sér með því að lengja tímabilið svona og fjölga leikjum, vantar ekki meiri breidd í liðið?

„Jú og við erum einmitt að vinna í að fjölga leikmönnum. Við höfum náttúrlega selt frá okkur leikmenn eins og Davíð Snæ [Jóhannsson] til Lecce, Björn Boga [Guðnason] til Heerenveen og svo Ástbjörn Þórðarson í FH. Í staðinn verðum við að styrkja liðið eitthvað og fá menn inn sem hafa einhverja reynslu og koma meira jafnvægi á liðið. Við höfum gert það með mönnum eins og Dani Hatakka, finnskum hafsent, og Patrik Johannesen, A-landsliðsmanni frá Færeyjum en þeir passa mjög vel inn í liðið okkar. Þar að auki höfum við fengið efnilega leikmenn frá öðrum liðum, eins og Ásgeir Pál Magnússon sem kemur með góða reynslu úr 2. deildinni og verður gaman að sjá hvernig spjarar sig í sumar. Svo fengum við Erni Bjarnason úr Leikni og Sindri Snær [Magnússon] sneri aftur en hann er reyndar búinn að vera óheppinn með ökklameiðsli. Við söknum hans en Sindri er búinn að vera duglegur í endurhæfingunni og hlakkar til að komast inn á völlinn aftur og spila fyrir Keflavík. Ég er ánægður með þær styrkingar sem við höfum fengið, samt vantar okkur aðeins fleiri. Við héldum að við myndum eiga náðuga daga á leikmannamarkaðnum en bæði þessi miklu meiðsli í hópnum og svo að missa leikmenn frá okkur sem voru á samningi þegar að við fórum við inn í undirbúningstímabilið hefur sett strik í reikninginn. Við seldum leikmenn og þurfum að fá aðra í staðinn og það er áskorun að finna rétta leikmennina sem passa inn í það sem við erum að gera en við höfum til ellefta maí og ætlum að vanda valið.“

Þið takið nú varla mark á þeim bölspám (að Keflavík falli) sem hafa verið að birtast í fjölmiðlum undanfarið?

„Nei, við höfum fulla trú á okkur sjálfum og liðinu. Við vorum náttúrlega bara einu stigi frá fallsæti í fyrra en við sýndum það með frammistöðu okkar í bikarkeppninni [þar sem Keflavík komst í undanúrslit] að á góðum degi og allir eru heilir erum við jafngóðir og jafnvel betri en flest lið í deildinni. Það var lærdómurinn á síðasta ári að þegar vantaði fjóra, fimm leikmenn í liðið þá var bilið orðið of mikið til að veita sterkustu liðunum samkeppni. Við vorum í kringum sjötta sæti um mitt mót en svo dalaði það aðeins þegar við fórum að missa menn í meiðsli.“

Sindra Snæ hlakkar til að komast inn á völlinn aftur en hann hefur glímt við meiðsli á  ökkla.

Fyrirkomulag keppninnar í efstu deild karla í knattspyrnu, Bestu deildinni, verður með öðru sniði í ár en áður. Fyrst verða leiknar hefðbundnar 22 umferðir þar sem öll lið mætast á heima- og útivelli. Eftir það verður deildinni skipt í efri og neðri hluta, sex efstu liðin annars vegar og sex neðstu liðin hins vegar, þar sem liðin leika fimm umferðir til viðbótar.

Mikil tilhlökkun fyrir tímabilinu

Siggi segir að öll liðin séu búin að vera að styrkja sig og hann telur að deildin eigi eftir að vera talsvert sterkari í ár en á síðasta ári. Hann segir önnur lið hafa verið að nota sjónvarpspeninginn sem þau fengu í fyrra til leikmannakaupa en af öllum liðunum í Bestu deildinn hafi Keflavík sennilega úr einna minnstu að moða. „Þannig að við þurfum helst að detta niður á einhver kjarakaup, finna leikmenn sem geta sprungið út með okkur. Svo er það áskorun að halda þeim áfram ef það gerist.

Við verðum bara að sníða okkur stakk eftir vexti,“ segir Siggi; „og taka eitt skref í einu. VIð byggjum upp liðið jafnt og þétt, bæði innan frá með því að gefa uppöldum leikmönnum tækifæri, öðlast reynslu og gera mistök til að læra af, svo utan frá með því að styrkja hópinn með góðum og reynslumiklum leikmönnum.

Annars hlakka ég mikið til mótsins. Við eigum erfiða byrjun, fyrsti leikur verður útileikur á móti Breiðabliki á þriðjudaginn (19. apríl kl. 19:45) og svo eigum við Val heima, þá Víking og KA úti. Einhvern tímann verðum við að mæta þessu sterku liðum líka við gerum bara eins vel og við getum – mér sýnist allir vera staðráðnir í að standa sig í sumar og það stefna í að við verðum með lið sem spilar skemmtilegan fótbolta. Svo vona ég að stuðningsmennirnir séu búnir að fá nóg af inniveru út af Covid og verði duglegir að mæta á völlinn til að styðja við bakið á liðinu. Það munar um tólfta manninn.“

Tengdar fréttir