Fréttir

Keilir tekur þátt í þróun tölvuleikjanáms
Frá verkefnafundi GameEdu í Gautaborg í nóvember 2018
Miðvikudagur 28. nóvember 2018 kl. 09:53

Keilir tekur þátt í þróun tölvuleikjanáms

Keilir tekur þátt í verkefninu GameEdu sem er samstarfsverkefni skóla frá fjórum Evrópulöndum um nám í tölvuleikjagerð á framhaldsskólastigi og í starfsmenntun. Verkefnið er styrkt af Erasmus+ menntaáætlun Evrópusambandsins og eru samstarfsaðilar Keilis, skólarnir Yrgo í Svíþjóð, Dania í Danmörku og Grafisch Lyceum Utrecht í Hollandi.
 
Markmiðið með verkefninu er að efla samstarf milli landanna og deila góðum starfsvenjum þegar kemur að þróun markaðssetningu og eflingu leikjagerðarnáms.
 
Í verkefninu, sem hófst haustið 2018 og er til tveggja ára, munu skólarnir vinna að sameiginlegum markmiðum og þróa nýjar kennsluaðferðir fyrir leikjagerðarnám í löndunum. Þá verður sérstök áhersla lögð á að jafna kynjahlutföll í náminu. Á meðan á verkefninu stendur verða kynntar áherslur í leikjagerðarnámi og meðal leikjagerðarfyrirtækja í samstarfslöndunum. Þá verða haldnar þrennar vinnubúðir fyrir kennara í tölvuleikjanámi þar sem skipst verður á góðum starfsvenjum og skoðuð samlegðaráhrif sem varða kennslu, þróun námsgagna og fyrirkomulag námsins.
 

Tölvuleikjanám hjá Keili

 
Fyrir Keili skiptir samstarfsverkefnið sérstaklega miklu máli, þar sem skólinn hefur undanfarin ár unnið að uppsetningu nýs náms í tölvuleikjagerð til stúdentsprófs. Mun samstarfið við skólana þannig skipta miklu máli við þróun og uppsetningu sérhæfðra námskeiða hjá Keili, auk þess sem stefnt er að bæði starfsmanna- og nemendaskiptum milli landanna í framtíðinni.
 
Námið byggir á kjarnafögum og valfögum sem einskorðast ekki við forritun, heldur taka á öllum þeim fjölbreyttu og ólíku þáttum sem eru til grundvallar fyrir skapandi starf leikjagerðarfólks. Sem dæmi má nefna hönnun, listir, tónlist, hljóðupptökur, verkefnastjórnun, heimspeki, o.fl. Þá verður starfsnám, verkefna- og hópavinna stór þáttur í náminu. Skólinn mun leggja áherslu á vendinám sem hefur verið stór hluti af starfi Keilis á undanförnum árum. Í skólanum verða hvorki hefðbundnar kennslustofur né hefðbundin stundatafla heldur munu nemendur stunda sína vinnu í skólanum þar sem kennarar verða til staðar og leiðbeina þeim.
 

Frumkvöðlasetur fyrir leikjagerðarfyrirtæki

 
Einn liður í verkefninu er að skoða frumkvöðlasetur sem hafa myndast í samstarfi við þá skóla sem bjóða upp á nám í tölvuleikjagerð í samstarfslöndunum. Í þessum frumkvöðlasetrum hafa einyrkjar og lítil fyrirtæki í leikjagerð fengið aðstöðu til að þróa og koma leikjum á framfæri auk þess sem þau hafa boðið upp á starfsþjálfun fyrir nemendur í náminu. Þá hafa fjölmargir nemendur farið beint yfir í frumkvöðlasetrin að námi loknu og stofnað sín eigin fyrirtæki.
 
Áhugi er fyrir því að koma upp slíku frumkvöðlasetri - GamePark Iceland - á Ásbrú í framtíðinni, þá í nánu samstarfi við leikjagerðarnám Keilis og háskólanáms í tölvuleikjagerð á vegum Noroff, sem Keilir hefur haft milligöngu með hér á landi. Þess má geta að í frumkvöðlasetrinu The Game Incubator í Gautaborg hafa orðið til yfir 100 fyrirtæki og 500 störf á þeim fjórtán árum sem setrið hefur verið starfrækt.
Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024