Fréttir

Grindavíkurvegur einn slysamesti og áhættusamasti vegur landsins
Fimmtudagur 30. nóvember 2017 kl. 06:00

Grindavíkurvegur einn slysamesti og áhættusamasti vegur landsins

- Kemur fram í greiningu EuroRAP. Þingmenn Suðurkjördæmis funduðu með fulltrúum Grindavíkurbæjar

Þingmenn Suðurkjördæmis funduðu með fulltrúum Grindavíkurbæjar og áhugafólki um endurbætur á Grindavíkurvegi í síðustu viku og var staðan tekin og næstu skref til umbótar Grindavíkurvegs tekin. Vegagerðin mun hitta fulltrúana í vikunni þar sem reynt verður að þrýsta á undirbúningsvinnu svo hægt sé að ráðast í framkvæmdir á veginum en næstu skref þingmanna Suðurkjördæmis eru þau að þeir sannmælist um að setja veginn í forgang til þess að sækja fjármagn fyrir hann.

Fulltrúar Grindavíkurbæjar bentu þingmönnum meðal annars á það að klára þurfi að laga holur sem eru í veginum sem fyrst og einnig það að það sé löngu komið að þolmörkum og aðgerðir til að auka öryggi vegarins, það þoli enga bið. Ásmundur Friðriksson þingmaður Sjálfstæðisflokksins sagði að fundurinn hefði verið mjög góður og að nú þyrfti að auka fé í innviðina. Á fundinum var einnig tekin saman samantekt  um Grindavíkurveg, hér að neðan eru nokkrir punktar úr henni.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

- Grindavíkurvegur er einn slysamesti og áhættusamasti vegur landsins samkvæmt greiningu EuroRAP

- Á árunum 2007-2016 varð eitt banaslys á Grindavíkurvegi og sextán alvarleg slys. Alls urðu 124 slys og óhöpp á veginum á þessu tímabilinu. Á árinu 2017 hafa þegar orðið tvö banaslys.

- Umferð um Grindavíkurveg við Seltjörn hefur aukist um nærri 60% á milli áranna 2011 og 2016 samkvæmt gögnum Vegagerðarinnar. Árið 2016 fóru að meðaltali nærri 5000 bílar daglega um veginn yfir sumartímann og meira en 3700 yfir vetrartímann.

- Íbúum í Grindavík hefur fjölgað nærri um 14% á síðastliðnum fimm árum og mikil eftirspurn er eftir íbúðarhúsnæði og byggingarlóðum í bæjarfélaginu. Íbúafjölgun ein og sér mun því valda auknum umferðaþunga á Grindavíkurvegi.

- Bláa Lónið er einn fjölsóttasti ferðamannastaður landsins og gera má ráð fyrir mikilli aukningu ferðamanna sem allir fara um Grindavíkurveg. Árið 2016 var gestafjöldi Bláa Lónsins yfir ein milljón og að meðaltali komu 48 rútur þangað daglega auk mikil fjölda fólksbíla. Rútuferðirnar einar og sér til og frá Bláa Lóninu voru því samtals um 35.000

- Grindavík er einn öflugasti útgerðarbær landsins. Uppskipaðar sjávarafurðir í Grindavíkurhöfn voru 43.000 tonn árið 2015 og var þeim öllum keyrt um Grindavíkurveg til frekari vinnslu, sölu eða útflutnings. Útflutningsverðmæti sjávarafurða frá Grindavík er rúmlega tuttugu milljarðar króna. Sama ár var um tuttugu þúsund tonnum af fiskisalti landað í Grindavík sem var dreift í saltfiskverkanir á öllu Suðvesturhorninu. Þá er áætlað að tæplega tuttugu milljónir lítra af eldsneyti fari um Grindavíkurhöfn árlega sem síðan er ekið um Grindavíkurveg.

- Gríðarlega mikil fjárfesting og uppbygging er á svæðinu fyrir tugi milljarða og mikilvægt að ríkið fylgi á eftir með öflugum og öruggum samgöngum. Má þar helst nefna uppbyggingu fiskeldis hjá Matorku, Íslandsbleikju og Stolt Sea Farm ásamt umfangsmiklum hótelframkvæmdum við Bláa Lónið. Allar þessar framkvæmdir munu auka umferð um Grindavíkurveg verulega.

- Í farþegaspá Isavia sem gerð var í október 2016 er gert ráð fyrir rúmlega 25% aukningu ferðamanna á Íslandi á árinu 2017. Hér ber að nefna svigrúm til aukningar á sumarmánuðum er takmarkað en aukning í öðrum mánuðum getur verið allt upp undir 60% miðað við rauntölur 2016. Samkvæmt tölum frá Isavia jókst fjöldi farþega í janúar á milli áranna 2016 og 2017 um 70%