Fréttir

Draumur að sjá gesti upplifa norðurljósin
Sunnudagur 22. október 2017 kl. 08:00

Draumur að sjá gesti upplifa norðurljósin

Fólk kemur hingað til að njóta náttúrunnar,“ segir Friðrik Einarsson hjá Northern Light Inn hótelinu í Svartsengi í Grindavík. Nýjungar í rekstri og fleiri herbergi.

„Það sem erlendi ferðamaðurinn elskar er að sitja í gestastofunni en þar eru þeir við arineld, horfa út um gluggann og sjá rigningu, rok, snjókomu og sól, allt á sama deginum. Þetta finnst þeim æðislegt og það er enginn sem ég hef hitt frá 1995 sem er að koma til Íslands því hér er sól og blíða, fólk er að koma hingað til að njóta náttúrunnar,“ segir Friðrik Einarsson hjá Northern Light Inn.
Northern Light Inn er fjölskyldurekið hótel sem systkinin Kristjana og Friðrik Einarsbörn reka, en þau hafa verið í rekstri frá 1995 og hafa byggt hótelið hægt og rólega upp. Við settumst niður með Friðriki og spjölluðum um hótelið, ferðamanninn og uppbygginguna.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Hvernig upplifir ferðamaðurinn Norðurljósin?
„Það er í rauninni bara algjör draumur að vera hérna og horfa á útlendinginn upplifa norðurljósin. Ég hef fengið vini mína til að koma hingað og sjá hvernig þeir bregðast við þeim því þeir hafa ekki trúað mér þegar ég segi þeim frá upplifun þeirra. Við erum þannig búin að það eru öll ljós slökkt þegar norðurljósin koma og ef veitingastaðurinn er fullur þá látum við vita þegar norðurljósin eru komin og kokkurinn heldur matnum heitum á meðan, hann er ekkert voðalega ánægður með það,“ segir Friðrik og hlær. „Gestir hafa faðmað mig eins og ég hafi eitthvað með norðurljósin að gera, þeir eru það glaðir að sjá þau. Við vorum einu sinni með hjón frá Ameríku sem höfðu búið í Japan og þau sögðu við mig að þau hefðu aldrei séð Japana hegða sér eins og þeir höguðu sér hérna, þeir misstu sig algjörlega þegar þeir sá norðurljósin. Í Japan haga menn sér ákveðinn hátt og sýna ekki miklar tilfinningar á almannafæri. Það er alveg stórkostlegt að fylgjast með fólki þegar norðurljósin birtast, fólk öskrar, hlær og við höfum líka séð það gráta. Það kemur allur tilfinningaskalinn fram og ljósin eru svo falleg í myrkrinu og það er það sem við erum að græða á, við græðum á myrkrinu og leggjum áherslu á að það er bannað að leggja fyrir framan hótelið, við slökkvum öll ljós og þetta er einstök upplifun.“

Það er nóg að gera hjá ykkur á veturna, er meira að gera hjá ykkur núna á haustin heldur en að sumri til?
„Það er svolítið skrýtið með okkur og það hefur reyndar alla tíð verið þannig að það er mest að gera hjá okkur yfir veturinn en það er samt fullbókað hjá okkur á sumrin. Yfir sumartímann erum við með meira af gestum sem koma hingað á bílaleigubílum sem fara snemma út úr húsi, keyra um og skoða landið og koma seint inn á kvöldin. Á veturna fáum við fleiri gesti sem koma með rútum, ekki á bílaleigubílum, koma snemma inn á daginn og eru hérna meirihluta dagsins. Þannig það er í raun og veru meira að gera hjá okkur á veturna þrátt fyrir að hótelið sé líka þétt bókað á sumrin því gestirnir eru meira inni á hótelinu og minna að flakka um.“

Norðurljósaturninn nýtur mikilla vinsælda
„Við erum með svokallaðan norðurljósaturn þar sem að getir geta sest niður og skoðað norðurljósin á kvöldin en við höfum líka tekið eftir því að gestir okkar fara mikið upp í hann á daginn til þess að skoða hraunið og náttúruna í kring. Fyrir okkur Íslendinga er hraunið ekkert voða merkilegt en fyrir útlendinginn er þetta stórkostlegt fyrirbæri, þeir elska hraunið og víðáttuna hér í kring. Á kvöldin er turninn vinsæll fyrir norðurljósin og svo höfum við einnig verið með jógahópa úr Grindavík á morgnana og seinnipartinn. Það hefur einnig aukist að við séum að fá fyrirspurnir frá hópum erlendis frá sem vilja koma og stunda jóga í norðurljósasalnum og líka í heilsuræktinni okkar.“

Bjóða upp á lúxus og fjölskylduherbergi
„Fjölskylduherbergin okkar eru stærri og það eru fjögur rúm í hverju herbergi, við erum með sex þannig og það eru ekki mörg hótel á Íslandi sem bjóða upp á svona herbergi almennt. Það er hægt að bæta þar inn auka rúmi og geta allt að fimm gist þar, þessi herbergi eru vinsæl allt árið um kring, hvort sem það eru fjölskyldur eða vinir að koma saman og sameinast um eitt herbergi. Við erum líka með tíu „deluxe“ herbergi fyrir tvær manneskjur, herbergin eru 30 fermetrar og við opnuðum þau núna í sumar. Þeir sem gista í þeim herbergjum eru með frían aðgang að heilsulindinni okkar.“

Hvað bjóðið þið upp á í heilsulindinni ykkar?
Heilsulindin eða „wellness“ spa-ið okkar er fyrir þá sem gista á hótelinu og þar erum við með þrjár týpur af gufuböðum, hvíldarherbergi og þetta er alveg kjörinn staður fyrir Íslendinga að koma saman, fyrir hjón eða par til að gista eina nótt og slaka á, fara í gufuböðin og hvíldarherbergið. Við vonumst til þess að íslendingar fari að nota þetta í meiri mæli.“

Northern Light Inn er með 42 herbergi, veitingastað sem tekur allt að 150 manns í sæti og í sumar opnuðu þau „wellness spa“ og heilsurækt ásamt flot-tanki.

Flot-tankur þar sem vöðvarnir og húðin mýkjast upp
„Flot-tankurinn okkar er ansi skemmtilegur en við erum að kynna þetta fyrir íbúum Suðurnesja og erum með sérstakt kynningartilboð í október. Þetta er tankur sem er fullur af vatni og í honum eru 530 kíló af Epson Magnesíum salti þannig að þú flýtur í þessu eins og korktappi. Vatnið í tanknum er 35 gráðu heitt og er það jafn heitt og húðin okkar. Saltið gerir það að verkum að húðin og vöðvarnir mýkjast upp, þú ert í tanknum í klukkutíma í ró og næði með sjálfum þér og eftir þann tíma ert þú bara endurnærður.“

Einn fengið innilokunarkennd
Það hefur aðeins einn fengið innilokunarkennd af öllum þeim sem hafa prófað tankinn en hann fékk nóg og fór upp úr eftir níu mínútur af klukkutíma.
„Af öllum þeim fjölda sem hafa farið í tankinn er það nokkuð gott hlutfall. Það eru margir sem segjast vera með innilokunarkennd en tankurinn er í rauninni stærri en bíllinn þinn og þeir sem hafa sagst vera með innilokunarkennd hafa þraukað í klukkutíma og líkað vel.“

Næring fyrir líkama og sál
„Tankurinn er fyrst og fremst hugsaður sem slökun á hugann en Epson Magnesíum saltið mýkir upp alla vöðva og þú nærð góðri slökun. Þetta snýst um það að komast úr amstri dagsins, vera í klukkutíma með sjálfum þér, fljótandi inni í tanknum. Eiginleikarnir tanksins snúast um það að ná þessari djúpu slökun sem er svo mikilvæg, næring fyrir líkama og sál og ekki síst hugann. Flot-tankurinn er opinn fyrir alla, ekki bara gesti hótelsins.“

Ekkert rafknúið í líkamsræktinni
Líkamsræktin býður upp á nýjustu hlaupabrettin sem eru meðal annars notuð í Crossfit stöðvum, ekkert rafmagn stjórnar tækjunum heldur eingöngu líkaminn sjálfur.
„Við erum með nýjustu tækin sem eru ekki rafknúin, við erum á vatnsverndarsvæði og vildum huga svolítið að umhverfinu með tækjunum. Líkamsræktin er ekki stór en gerir sitt gagn.“

Íslenskt veðurfar heillar
„Það sem erlendi ferðamaðurinn elskar er að sitja í gestastofunni okkar en þar sitja þeir við arineld, horfa út um gluggann, sjá rigningu, rok, snjókomu og sól, allt á sama deginum. Þetta finnst þeim æðislegt og það er enginn sem ég hef hitt frá 1995 sem er að koma til Íslands því hér er sól og blíða, fólk er að koma hingað til að njóta náttúrunnar og þeir eru yfir höfuð vel búnir og vel klæddir, þetta eru mjög góðir gestir. Ekta íslenskt rigningarveður er ekki að stöðva þá og það sem gerist líka í þannig veðri er að þá verður mosinn grænn og fallegur, ólíkt því sem gerist á sumrin þegar það er mikil sól, þá þurrkast hann upp og verður gulur. Mosinn er mun fallegri í rigningu og roki.“

Ferðamaðurinn farinn að dvelja lengur
Ferðamenn og gestir hótelsins eru farnir að dvelja lengur en eina nótt á hótelinu, mun lengur en áður. „Hér áður kom ferðamaðurinn hingað fyrstu nóttina sína og þá síðustu en núna er mun meira um það að gestir eru að dvelja hér í tvær til fjórar nætur og veturinn hjá okkur er mjög vel bókaður eins og öll hin árin sem við höfum verið í rekstri. Við lítum bjartsýn fram á veginn.“