Pistlar

Fiduáhrifin
Föstudagur 5. febrúar 2021 kl. 07:46

Fiduáhrifin

Ég fylltist gleði og stolti þegar ég sá að hvatningarverðlaun Félags kvenna í atvinnulífinu féllu Fidu Abu Libdeh í skaut þetta árið. Fida er ekkert annað en stórkostleg. Hún er sannur frumkvöðull og brautryðjandi, fyrirmynd okkar allra fyrir svo margra hluta sakir. Ég hef þekkt Fidu og hef fylgst með henni um margra ára skeið. Það sem mér þykir svo markvert við hennar sögu er annars vegar hvernig hún hefur náð að brjóta sér leið í gegnum alls konar hindranir sem hefðu stöðvað okkur flest og hins vegar hvernig hún sá tækifæri sem enginn annar sá til að búa til verðmæti úr ónýttu hráefni sem fellur til við nýtingu jarðvarma.

Fida kom til Íslands frá heimalandi sínu þegar hún var unglingur og hefur sjálf sagt þá sögu að það hafi ekki verið auðvelt að vera hent út í djúpu laugina í íslensku skólakerfi með litlum stuðningi eða skilningi á ólíkum uppruna og menningarheimi. Hún fann að lokum námsfjölina sína í Keili, þar sem fyrirtækið hennar, Geo Silica, varð til og menntaði sig áfram samhliða því að byggja fyrirtækið upp. Fyrirtækið sem stofnað var árið 2012 hefur vaxið jafnt og þétt og hefur verið að sækja fram á nýja markaði með þessa einstöku vöru sem gerir okkur öllum gott. Ég óska Fidu innilega til hamingju með verðskulda viðurkenningu og allrar velgengni í því sem framundan er.

Public deli
Public deli

En þá að yfirskrift þessara lokaorða – Fiduáhrifunum. Fida stofnar fyrirtæki sitt árið 2012, í erfiðu árferði sem á sér nokkra samsömun við það sem við erum að glíma við núna vegna heimsfaraldursins, einkum þegar litið er til þess mikla atvinnuleysis sem við erum að glíma við hér á Suðurnesjunum. Enn á ný verðum við fyrir því að grunnstoð atvinnulífsins á svæðinu brestur, nú er það ferðaþjónustan sem verður fyrir högginu en áður höfum við farið í gegnum brotthvarf Varnarliðsins og aflabresti með sambærilegum afleiðingum. Stóra verkefni okkar í atvinnumálum er og á að vera að fjölga stoðunum þannig að samfélagið fari ekki á hliðina þegar ein atvinnugrein verður fyrir áfalli.

Og þar kemur nýsköpunin sterk inn. Í slíku árferði er aldrei meiri þörf á nýsköpun, nýjum aðferðum og lausnum. Í kreppum felast alltaf tækifæri og það jákvæða sem gerist er að þá skapast oft rými í hugum þeirra sem finna fyrir kreppunni á eigin skinni. Hugmyndageymslur fyllast og leitin að svarinu við spurningunni „hvað á ég nú að gera?“ hefur oftar en ekki skilað sér í hugmyndum og tækifærum sem annars hefðu ekki orðið að veruleika. Akkúrat núna þurfum fleiri „Fidur“ sem sjá tækifæri í því sem aðrir hafa ekki séð áður.

Fiduáhrifin felast í því að hafa kjark til að láta vaða, seiglu og staðfestu til að takast á við alla þá erfiðleika sem upp koma á leiðinni, óbilandi trú á verkefninu til að missa aldrei sjónar á endatakmarkinu ... og endalausa bjartsýni til þess að hafa gaman á leiðinni.

Ragnheiður Elín Árnadóttir.