Pistlar

Landanir á Suðurnesjum árið 2023
Gísli Reynisson
Gísli Reynisson skrifar
föstudaginn 5. janúar 2024 kl. 06:01

Landanir á Suðurnesjum árið 2023

Þar sem nýtt ár er komið þýðir það að framundan er vetrarvertíðin 2024 – og miðað við hversu góður desembermánuður var þá má búast við ansi góðri vertíð.

Árið 2023 var heilt yfir nokkuð gott fyrir landanir á Suðurnesjum, fyrir utan þessi miklu áföll sem komu fyrir Grindavík og sér ekki fyrir endann á.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Í þessum pistli ætla ég að fara yfir þessi þrjú bæjarfélög á Suðurnesjum og hvað kom á land í þessum bæjum.

Byrjum í Grindavík. Þar voru landanir 1.320 og bátarnir sem lönduðu í Grindavík voru alls 92. Sumir bátanna þar lönduðu aðeins í eitt skipti. Samtals kom á land í Grindavík alls 32.226.000 tonn (rúm 32 þúsund tonn). Kemur kannski ekki á óvart að aflahæsti báturinn í Grindavík var frystitogarinn Tómas Þorvaldsson GK sem landaði þar 3.900 tonnum, næstur á eftir honum var Sturla GK með 3.573 tonn, Sighvatur GK og Vörður ÞH báðir með um 2.740 tonn og Hrafn Sveinbjarnarson GK með 2.708 tonn.

Aflalægstu bátarnir í Grindavík árið 2023 voru; Dolly RE 104 með 140 kíló, Una KE 22 með 354 kíló og Spói RE 3 með 394 kíló, allir eftir eina veiðiferð.

Í Keflavík/Njarðvík voru alls 28 bátar sem lönduðu afla og þar komu á land alls 3.297 tonn. Langmestur hluti af þessum afla var eftir netabátana sem Hólmgrímur á og gerir út og síðan Erling KE. Mestum afla í þessum höfnum landaði Erling KE, um 900 tonnum, þar á eftir kom togarinn Sóley Sigurjóns GK með um 550 tonna afla, Friðrik Sigurðsson ÁR með um 500 tonna afla og Maron GK með um 400 tonna afla. Nokkrir bátar lönduðu eina löndun og Hólmsteinn GK var með minnsta aflann, eða 71 kíló í einni löndun, Stakasteinn GK kom þar rétt á eftir með 93 kíló í einni löndun.

Sandgerði var ein af stærstu löndunarhöfnum Íslands árið 2023 en þar voru landanir alls 2.465 og bátarnir sem lönduðu þar voru alls 122. Samtals komu á land í Sandgerði árið 2023 10.363.000 tonn (rúm 10 þúsund tonn). Í Sandgerði var Sigurfari GK aflahæstur með um 1.500 tonna afla, Siggi Bjarna GK var með um 1.350 tonn, Benni Sæm GK um 1.300 tonn og Margrét GK með um 1.200 tonn en Margrét GK er á línu og réri til að mynda frá því í ágúst 2023 og alveg til áramóta, allan tímann frá Sandgerði og gekk mjög vel að veiða.

Yfir strandveiðitímabilið voru mjög margir bátar sem réru frá Sandgerði og var Sandgerði næststærsta verstöðin yfir strandveiðitímabilið 2023, einungir Patreksfjörður var stærri. Sá bátur sem minnstum afla landaði í Sandgerði var Pontus HF sem kom með 303 kíló, Hraunsvík GK landaði 402 kílóum og Bergdís HF kom með 452 kíló.

Eins og undanfarin ár var ekki einu grammi af uppsjávarfiski (síld, kolmuna og loðnu) landað á Suðurnesjunum en nokkrum tonnum af makríl sem færabátar veiddu var landað í Keflavík í ágúst og fór mestur sá afli í beitu fyrir línubátanna á svæðinu.