Pistlar

Förum við að sjá bolfiski landað í Helguvík?
Gísli Reynisson
Gísli Reynisson skrifar
föstudaginn 9. febrúar 2024 kl. 07:56

Förum við að sjá bolfiski landað í Helguvík?

Eins og fram kom bæði í síðasta pistli mínum, sem og í frétt í Víkurfréttum, þá er aftur að færast líf í Helguvík eftir að Vísir hf. í Grindavík ákvað að færa eina saltfiskvinnslulínu sína úr Grindavík til Helguvíkur.

Það er nefnilega nokkuð merkilegt að Helguvík var upprunalega ekki byggð sem neinskonar höfn sem tengdist sjávarútvegi heldur var hún byggð sem olíuhöfn fyrir Keflavíkurflugvöll. Ofan við Helguvíkursvæðið, ekki langt frá Kölku, eru gríðarlega stórir olíutankar sem að mestu eru neðanjarðar og sjást ekki með berum augum og frá þeim liggja olíuleiðslur inn á Keflavíkurflugvöll.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Árið 1994 komu fyrst upp hugmyndir um að vinna að Helguvík þannig að þar væri hægt að taka á móti fiski og uppsjávarfiski og það var síðan um 1996 að loðnuverksmiðjan í Helguvík tók til starfa.

Stór kostur við Helguvík sem löndunarhöfn er hversu mikið dýpi er í höfninni en saga Helguvíkur sem fiskihöfn tók enda árið 2019 þegar Síldarvinnslan á Neskaupstað ákvað að loka verksmiðjunni. Húsnæðið á Síldarvinnslan ennþá og það mun Vísir nýta sér fyrir vinnsluna sína.

Eitt er nokkuð merkilegt með Helguvík sem fiskihöfn en þar hefur bolfiski aldrei verið landað, einungis uppsjávarfiski eins og loðnu, síld, kolmuna og makríl – en það gæti breyst með nýrri vinnslulínu Vísis og við förum að sjá bolfiski landað í Helguvík.

Annars var haugabræla undir lok janúar og erfitt sjóveður en þó náði Margrét GK að fara einn róður rétt undir lok mánaðar og kom með í land um 14 tonn. Með þeim afla náði Margrét GK að enda sem aflahæsti báturinn að 21 brúttótonni yfir allt landið.

Þegar þessi pistill er skrifaður er fyrsti dagurinn sem loksins gaf á sjóinn og mokveiði var hjá bátunum sem réru frá Sandgerði, sem dæmi má nefna að Hulda GK (sem áður hét Dúddi Gísla GK ) lenti í svo mikilli mokveiði að báturinn þurfti að tvílanda í Sandgerði, samtals um 22 tonnum.

Já, vertíðin greinilega í fullum gangi en mikið agalega sakna ég þó þess að sjá netabátaflotann eins og var hérna á árum áður.