Karlakórinn
Karlakórinn

Pistlar

Ferðalag aftur í tímann
Sandgerðishöfn. Mynd/Reynir Sveinsson
Gísli Reynisson
Gísli Reynisson skrifar
föstudaginn 15. desember 2023 kl. 06:00

Ferðalag aftur í tímann

Desember er núna orðinn hálfnaður og bátar sem hafa verið að veiða frá Suðurnesjum eru að mestu að landa í Sandgerði og þrír netabátar í Keflavík og Njarðvík. Þar sem þetta er frekar rólegt ætla ég að fara með ykkur í smá ferðalag þrjátíu ár aftur í tímann og skoða hvað var um að vera í höfnunum á Suðurnesjum í desember árið 1993.

Byrjun í Grindavík, þá lönduðu þar 25 bátar um 1.700 tonna afla. Þá voru stórir línubátar aflahæstir í Grindavík sem allir voru að nota beitningavélar. Hæstur var Sighvatur GK með 222 tonn í fjórum löndunum og mest 102 tonn, Kópur GK var með 183 tonn í fjórum og Hrungnir GK 175 tonn í fjórum. Þar á eftir komu þrír netabátar; Vörður ÞH með 162 tonn í tíu, Sæborg GK 162 tonn í fjórtán og Geirfugl GK 159 tonn í fimmtán. Auk þess kom togarinn Hópsnes GK með 69 tonn í einni löndun.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Engin færabátar landaði í Grindavík í desember árið 1993 en af bátunum sem eru undir 100 tonnum að stærð var Reynir GK hæstur með 49 tonn í ellefu, Þorsteinn Gíslason GK 42 tonn í fimmtán, Ólafur GK 29 tonn í tíu, Máni GK 26 tonn í sextán og Vörðufell GK 24 tonn í fjórtán, allir á línu nema Máni GK sem var á netum.

Í Keflavík/Njarðvík árið 2023 eru aðeins þrír bátar að landa afla en í desember 1993 voru bátarnir 26 og lönduðu alls um 1.050 tonnum af fiski. Í Keflavík í desember 1993 var Bergvík KE hæstur á línu með beitningavél með 179 tonn í fjórum, Erling KE 175 tonn í sextán, Happasæll KE 123 tonn í 23, Ágúst Guðmundsson GK 79 tonn í tólf og Gunnar Hámundarson GK 53 tonn í nítján, allir þessir fjórir voru á netum.

Þá voru líka nokkrir dragnótabátar sem voru á veiðum í Faxaflóanum, Bugtinni. Hæstur var Haförn KE með 48 tonn í tólf, Erlingur GK með 47 tonn í fjórtán, Baldur GK 40 tonn í fimmtán, Reykjaborg RE 31 tonn í tólf og Arnar KE 28 tonn í ellefu.

Nokkrir smábátar lönduðu í Keflavík og hæstur var Dýrfirðingur ÍS með 19 tonn í átta, Sigurvin GK 18,8 tonn í tíu, Kári Jóhannesson KE 18,7 tonn í tíu og Jaspis KE 18,6 tonn í tíu, allir á línu.

Togarinn Eldeyjar Súla KE landaði 137 tonn í þremur og togarinn Þuríður Halldórsdóttir GK landaði 125 tonn í tveimur.

Sandgerði hefur alltaf verið ein af stærstu löndunarhöfnum landsins og í desember 1993 var þar enginn undantekning því alls voru þeir 52 bátarnir sem lönduðu í Sandgerði í desember 1993 og lönduðu alls um 1.700 tonna afla. Þar var hæstur Þorri GK sem var á línu með beitningavél með 189 tonn í fjórum, Stafnes KE var á netum og með 102 tonn í tveimur löndunum, Freyja GK 97 tonn í þremur á línu, Sænes EA (sem Sævar Ólafsson var skipstjóri á) var með 88 tonn í fimm á trolli, Jón Gunnlaugs GK 81 tonn í ellefu, Geir Goði GK 80 tonn í tíu, Ljósfari GK 73 tonn í tíu og Sigþór GK 56 tonn í níu. Þessir fjórir bátar voru á balalínu.

Mikill fjöldi af smábátum réri frá Sandgerði og hæstur af þeim var Hafdís KE með 30 tonn í átján, Hafdís GK 32 var rétt á eftir með 28,8 tonn í átján, Víðir KE 28 tonn í nítján og Sæljómi GK 27 tonní sautján.

Auk þess voru ansi margir togarar að landa í Sandgerði í desember 1993, t.d. Snæfari GK með 103 tonn í þremur löndunum, Sveinn Jónsson GK 162 tonn í þremur, Ólafur Jónsson GK 158 tonn í þremur og Haukur GK með 57 tonn í einni löndun.

Auk þess var töluverðu magni af síld og loðnu landað í Grindavík og einhverju í Sandgerði.

Af þessum fjölda af bátum sem eru nefndir hérna að ofan eru allir bátarnir horfnir, Erling KE sem minnst er á að ofan var með skipaskrárnúmerið 1016, Þorri GK og Snæfari GK áttu sér sögu sem ég kannski skrifa um seinna meir en sú saga tengist Rafni ehf. sem var stórt fyrirtæki í Sandgerði. Myndin sem fylgir með kemur frá föður mínum, Reyni Sveinssyni.