Pistlar

Bátar halda áfram að að tvílanda
Gísli Reynisson
Gísli Reynisson skrifar
föstudaginn 23. febrúar 2024 kl. 06:00

Bátar halda áfram að að tvílanda

Febrúarmánuður svo til hálfnaður og hefur verið mjög góður varðandi aflabrögð. Í raun er búin að vera mokveiði og það að bátar þurfi að tvílanda heldur áfram. Daðey GK, Hulda GK, Óli á Stað GK og Geirfugl GK hafa allir þurft að landa tvisvar sama daginn út af mokveiði.

Lítum á aflabrögðin. Sævík GK er komin með 110 tonn í átta róðrum og mest 23 tonn í einni löndun en báturinn landar í Þorlákshöfn, Margrét GK 100 tonn í níu róðrum og mest 17,5 tonn, Óli á Stað GK 85 tonn í sex róðrum en báturinn byrjaði í Sandgerði og fór síðan yfir í Þorlákshöfn, Daðey GK 90 tonn í tíu löndunum en hafa ber í huga að þessar tíu landanir eru á sex dögum því einn daginn þurfti Daðey GK að landa þrisvar 29,6 tonnum. Næst þurfti Daðey GK að landa tvisvar sama daginn og var þá með 24,4 tonn og síðan þurfti báturinn aftur að landa tvisvar og var þá með um 21 tonn. Dúddi Gísla GK er með 75 tonn í fimm róðrum og mest 25 tonn í róðri, Hópsnes GK 34 tonn í fjórum og Geirfugl GK 48 tonn í fjórum róðrum, þar af kom báturinn með 19 tonn sem var landað í tveimur róðrum sama daginn. Hulda GK 38 tonn í fjórum róðrum og athygli vekur með þennan afla að þessar fjórar landanir voru á sitthvorum deginum en báturinn þurfti að landa tvisvar sitthvorn daginn, fyrst með um 18 tonn og síðan með um 20 tonn.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Netabátarnir hafa veitt vel og er Erling KE kominn með 239 tonn í tólf róðrum, mest 45 tonn í róðri, Friðrik Sigurðsson ÁR er kominn með 103 tonn í þrettán róðrum og Jökull ÞH 243 tonn í fjórum róðrum og mest 80 tonn.

Jökull ÞH er nefndur hérna þó báturinn landi reyndar ekki á Suðurnesjunum en hann er með netin sín utan við Garðskagavita og utan við Sandgerði. Báturinn veiðir í sig, sem þýðir að báturinn  landar á nokkurra daga fresti en Jökull ÞH kemur í Keflavík og liggur þar meðan netin eru í sjó. Sama og Kap VE hefur gert. Skipstjórinn á Jökli ÞH er Sigvaldi Hólmgrímsson, sem var lengi skipstjóri á Grímsnesi GK, en hann er sonur Hólmgríms sem er núna með Friðrik Sigurðsson ÁR á leigu og gerir út Halldór Afa GK sem hefur hafið veiðar á netum og landað 5 tonnum í þremur róðrum.

Hjá dragnótabátunum er Sigurfari GK kominn með 143 tonn í ellefu róðrum og mest 23 tonn, Maggý VE 115 tonn í átta og mest 23 tonn, Benni Sæm GK 100 tonn í níu og mest 21 tonn, Siggi Bjarna GK 74 tonn í níu og mest 14 tonn og Aðalbjörg RE 28 tonn í sjö. Aðalbjörg RE er að eltast við kolann, sem er öfugt við hina dragnótabátanna sem eru í ufsa og þorskinum.

Þó nokkur fjölgun hefur orðið á færabátunum og núna, þegar þetta er skrifað, hafa þrír færabátar á Íslandi náð að landa yfir tíu tonnum frá áramótum á færum. Það er ansi gott. Þessir þrír bátar eru Dímon GK sem er kominn með 10,3 tonn í tíu róðrum, Agla ÍS 11,6 tonn í ellefu róðrum og Guðrún GK sem er aflahæst færabátanna á Íslandi það sem af er árinu og er komin með 11,9 tonn í átta róðrum.

Þessir þrír færabátar hafa verið að eltast við ufsann og gengið mjög vel og má segja að góða færaveiðin frá Sandgerði hafi dregið að sér báta utan af landi, t.d. kom bátur frá Skagaströnd núna til Sandgerðis og sá bátur heitir Viktor Sig HU.

Núna, fyrst svona mikill fjölgun er á færabátum í Sandgerði, þá þarf hafnarstjórn í Sandgerði að skoða hvort hægt sé að fá mann á kranana í Sandgerði svo sjómenn sem eru einir á bátum þurfi ekki að klifra upp og niður stigana til þess að hífa fisk úr báti. Á fjöru er ansi langt niður í bát, allt upp í þrjá til fjóra metra, og því munar talsvert um að höfnin sé með mann á krananum eða þá eitthvað samkomulag við Fiskmarkaðinn.

Sandgerðishöfn hefur reyndar því miður verið með mjög neikvætt orðspor á sér út af þjónustleysi, en síðustu tvö ár hefur þjónustan við höfnina batnað mjög mikið og orðsporð Sandgerðishafnar hefur breyst töluvert – en hægt er að gera betur.