Mannlíf

Slöngulokkarnir voru hræðilegir
Sunnudagur 10. mars 2024 kl. 08:37

Slöngulokkarnir voru hræðilegir

Margrét Sanders og fermingarsystur hennar halda enn hópinn

Margrét Sanders, bæjarfulltrúi í Reykjanesbæ fermdist árið 1973 og fagnaði því hálfrar aldrar fermingarafmæli í fyrra. Hún fermdist í Keflavíkurkirkju og Björn Jónsson var prestur.

Hvað kemur fyrst upp í hugann þegar þú rifjar upp ferminguna? 

Skemmtilegur fermingaundirbúningur. Við Njarðvíkingarnir kynntumst þarna Keflavíkurkrökkunum og með okkur tókust góð kynni.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Af hverju léstu ferma þig? 

Ég hef alltaf trúað á Guð og var þarna að staðfesta skírnarheitið (örugglega ein af fáum).

Hvernig var fermingarundirbúningurinn, presturinn og kirkjan?

Mjög skemmtilegur. Vorum frábær og sterkur vinahópur. Höldum enn hópinn.

Var haldin veisla og hvað er eftirminnilegast úr henni?

Allt. Foreldrarnir voru frábærir og gerðu þennan dag eftirminnilegan. Eftirá getur maður hlegið af því að það voru settar sígarettur og vindlar í bakka og boðið upp á í veislunni.

Eru einhverjar fermingargjafir sem þú manst eftir?

Svefnpoki sem ég er nýhætt að nota.

Manstu eftir fermingarfötunum?

Já, svo sannarlega. Mjög stuttur kjóll í gulum og brúnum lit við skærgular sokkabuxur. Fermingajakkinn var rúskinnsjakki með gæru á.

Fermingargreiðslan?

Hún var hræðileg á þessum tíma, slöngulokkar.