Mannlíf

Slæmur aðbúnaður Grindvíkinga í Garðvangi
Í setustofunni á Garðvangi.
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
laugardaginn 3. febrúar 2024 kl. 12:17

Slæmur aðbúnaður Grindvíkinga í Garðvangi

Rúmlega 30 herbergi deila fjórum eldavélum og einu sjónvarpi. | Búin að sækja um íbúðir út um allt en fær engin svör.

„Okkur finnst við vera svo afskipt úti í Garðvangi, við fáum engin svör,“ segir Kristólína Þorláksdóttir, Grindvíkingur sem búið hefur á Garðvangi í Garði síðan náttúruhamfarirnar áttu sér stað í Grindavík 10. nóvember. Fjölskyldan flutti aftur til Grindavíkur í upphafi árs en þurfti svo aftur að rýma heimilið sitt þegar síðasta eldgos varð 14. janúar. Aftur var ekkert annað í boði en Garðvangur, sem upprunalega var byggt sem verbúð, hefur lengst af verið hjúkrunarheimili en svo tók Vinnumálastofnun húsnæðið á leigu fyrir hælisleitendur af erlendum uppruna. Við hamfarirnar í Grindavík var húsnæðið rýmt fyrir Grindvíkinga.

Lína í eldhúsinu á Garðvangi í Garði.

Kristólína eða Lína í Vík, eins og hún er sjálfsagt betur þekkt í Grindavík, hefur ekkert nema gott um Garðvang að segja, þ.e.a.s. sem bráðabirgðahúsnæði en eftir u.þ.b. tveggja mánaða búsetu, vill hún komast í eigið húsnæði.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

„Ég veit að það er erfitt að útvega húsnæði fyrir alla og ég gat alveg sætt mig við þetta tímabundið en það er ekki hægt að bjóða einum né neinum upp á þetta til lengri tíma litið. Þetta er orðinn mjög mikill fjöldi og aðstaðan er lítil sem engin. Það er eitt eldhús með fjórum eldavélum en við komumst aldrei að til að elda okkar mat, þarna er fólk frá nokkrum löndum og þau elda hvenær sem er sólarhringsins og taka pottana með sér inn á herbergin sín. Það er eitt sjónvarp í setustofunni og þar getum við horft á RÚV og búið. Ég er búin að hringja marg oft í þjónustumiðstöðina og óska eftir félagsráðgjafa, það var talað um að það ætti að koma félagsráðgjafi einu sinni í viku. Við höfum fengið tvær heimsóknir á þessum rúmu tveimur mánuðum. Það er alveg sama hvað maður hringir, ég fæ engin svör. Það var hægt að sætta sig við þetta fyrstu dagana og vikurnar, þá vorum við kannski um fimmtán talsins en það kemur nánast nýtt fólk á hverjum degi núna og þetta er orðið fullt, þetta er ekki nokkrum manni bjóðandi. Það eru þrjú salerni og tvær sturtur, sem ég veit ekki hve mörg herbergi þurfa að deila og það eru oft fleiri en tveir á hverju herbergi. Hvert herbergi er með vask en vatnið sem kemur úr krönunum er svo mórautt að það er engum manni bjóðandi.“

Gústi, Gvendur og Lína.

Engin svör

Lína segist vera búin að sækja um íbúðir út um allt en fær engin svör, það finnst henni verst. „Jú, ég hef fengið svör frá þessum fasteignafélögum, vegna þess að ég er ekki lengur að borga í lífeyrissjóð, á ég ekki rétt á að leigja íbúð? Við hjónin erum komin á ellilífeyrisaldur og getum þess vegna ekki fengið leigða íbúð. Til hvers var maður að borga í þennan lífeyrissjóð alla sína hunds- og kattatíð? Við erum búin að gefast upp en sem betur fer var Sigrún Harpa, barnabarnið okkar, að fá þriggja herbergja íbúð í Vogum og hún ætlar að láta okkur fá eitt herbergi en þetta getur ekki verið nema bara til bráðabirgða, það sér hver heilvita maður. Ég hef ekki náð einum löngum og góðum nætursvefni allan þennan tíma, Pólverjarnir eru komnir snemma á fætur og kalla gangana á milli svo það er enginn svefnfriður. Ég vil alls ekki setja út á þessa útlendinga, þetta er gott fólk og allt það og þetta er líka erfitt fyrir þau. Þau tala bara ekki tungumálið okkar, þau eiga ekki samskipti við neina og þau eru bara einangruð inni á herbergjunum sínum. Þetta fólk kann ekki að biðja um hjálp, okkur er sagt að fara inn í tollhús en við getum ekki keyrt til Reykjavíkur, þetta er bara alveg ömurlegt ástand,“ segir Lína.

Vilja vera á Suðurnesjunum

Allir Grindvíkingarnir á Garðvangi eru á forræði Grindavíkurbæjar, þess vegna hefur félagsþjónustan í Suðurnesjabæ ekkert getað hjálpað til en presturinn frá Útskálaprestakalli, Sigurður Grétar Sigurðsson, kom tvisvar sinnum í heimsókn en Lína segist ekkert hafa fengið frá félagsþjónustunni í Grindavík. „Það kom aðili og setti upp jólatré og tók svo niður, annars höfum við ekkert fengið. Við höfum enga sálræna né aðra aðstoð fengið. Svo finnst okkur dapurlegt að heyra að það virðist ekki jafnt yfir alla ganga. Sonur okkar fór í tollhúsið um daginn, var að biðja um aðstoð varðandi húsnæði og talaði við konu sem hafði verið úthlutað íbúð í Hveragerði en íbúðin var ekki með uppþvottavél og því fékk hún aðra íbúð. Þetta finnst okkur ekki sanngjarnt, þessi sonur okkar er félagi í Sjómanna- og vélstjórafélagi Grindavíkur en félagsmenn þar geta einhverra hluta vegna ekki sótt um íbúðir hjá fasteignafélaginu Bjargi.

Verst af öllu finnst mér að vera ekki svarað. Ég hef sótt um ótal íbúðir, hef ekki einu sinni fengið svar um að viðkomandi íbúð sé farin. Ég hringdi inn í tollhús, það var tekið niður nafn og símanúmer, ekkert hringt til baka, þetta finnst mér verst af öllu. Ég hef alltaf verið lífsglöð og kát en í fyrsta skipti á ævinni finn ég fyrir kvíða og þunglyndi. Þetta er ekkert líf, ég hef ekki getað eldað mat fyrir okkur, við horfum á fréttirnar og svo förum við inn á herbergi og horfum þar á veggina. Ég skil bara ekki að ríkið skuli ekki kaupa allar þær fjölmörgu íbúðir sem eru tilbúnar eða eru á byggingarstigi, það verður að fara sýna okkur einhverja leið út úr þessum vítahring sem við erum í. Við erum með fjárbúskap, sem betur fer gátum við komið rollunum okkar fyrir í hesthúsahverfinu í Keflavík, við erum afskaplega þakklát fyrir að geta haft þær þar í bili. Við vorum komin með allt féð heim um jólin og blessunarlega gat fólk frá björgunarsveitinni okkar í Grindavík farið og gefið fénu þegar við máttum ekki fara inn í bæinn. Ef draumar okkar rætast, fáum við íbúð hér á Suðurnesjunum, hér viljum við vera. Mest af öllu viljum við bara fá svör,“ sagði Lína að lokum.

Svona er eitt af baðherbergjunum.