Mannlíf

Sjóarinn síkáti tókst vel eftir tveggja ára kórónuveirudvala
Sunnudagur 19. júní 2022 kl. 12:40

Sjóarinn síkáti tókst vel eftir tveggja ára kórónuveirudvala

Sjómenn heiðraðir við sjómannamessu

Nokkrar af hetjum hafsins frá Grindavík voru heiðraðar sérstaklega við sjómannamesssu í Grindavíkurkirkju á sjómannadaginn. Sr. Elínborg Gísladóttir þjónaði fyrir altari. Kór Grindavíkurkirkju söng undir stjórn Erlu Rutar Káradóttur organista. Einsöng við athöfnina sungu nemendur í Tónlistarskóla Grindavíkur, þau Bergsveinn Ellertsson, Jón Emil Karlsson og Olivia Ruth Mazowiecka. Ræðumaður dagsins var Sigurður Sverrir Guðmundsson og ritningarlestra lásu sjómannshjónin Júlíus Magnús Sigurðsson og Hólmfríður Karlsdóttir. 

F.v.: Kristín Arnleif Gunnþórsdóttir, Sigurgeir þór Sigurgeirsson, Ólína Þorsteinsdóttir, Sigurður Gunnarsson, Enok Bjarni Guðmundsson , Anna Sigríður Björnsdóttir, Hólmfríður Birna Hildisdóttir, Gunnar H.B. Gunnlaugsson, Steinunn Gestsdóttir, Tryggvi Sæmundsson og Einar Hannes Harðarsson. VF-mynd: Sigurbjörn Daði Dagbjartsson

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Að athöfn lokinni í kirkjunni gekk Andri Karl Júlíusson Hammer  fylktu liði með blómsveig að minnisvarðanum Von. Þar sungu Grindavíkurdætur eitt lag.

Þegar athöfninni lauk við Von var farið á hátíðarsvæðið við Kvikuna en hátíðarsvæðið hefur fengið nafnið Húllið.

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, flutti hátíðarræðu og svo rak hver viðburðurinn annan. Við höfnina sá Björgnuarsveitin Þorbjörn um sjómannaþrautir eins og koddaslag, flekahlaup og kararóður. Á hátíðarsvæðinu voru tívolí-tæki og viðburðir voru á og við veitingahús bæjarins.

Sjóarinn síkáti hófst á föstudeginum en þá um kvöldið var efnt til litagöngu þar sem íbúar Grindavíkur mættu í litum síns hverfis við íþróttahúsið. Þaðan var svo gengið í fylkingu að Húllinu þar sem fram fóru bryggjutónleikar.

Á laugardeginum var boðið upp á skemmtisiglingu frá Grindavíkurhöfn með tveimur fiskiskipum frá Vísi hf. Dagskrá var á sviði við Húllið og víða um bæinn. Safnskipið Óðinn var til sýnis í höfninni og um kvöldið var slegið upp sjómannaballi í íþróttahúinu með Audda og Sveppa, Jóni Jónssyni, ClubDub og BB Brothers.

Sjóarinn síkáti þótti takast vel en hátíðarhöld hafa fallið niður tvö síðustu ár vegna heimsfaraldurs Covid-19. Fjölmargar myndir frá helginni eru í myndasafni neðst á síðunni.


Forseti Íslands kom sjóleiðina til Grindavíkur

Gamla varðskipið og nú safnskipið Óðinn var til sýnis í Grindavík þarsíðasta laugardag. Óðinn lagði upp í siglingu til Grindavíkur frá Reykjavík og kom til hafnar um hádegisbil. Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, kom með Óðni til Grindavíkur og tók þátt í athöfn í skipinu þegar japönsk skipasmíðastöð afhenti Hollvinasamtökum Óðins nýtt frammastur á skipið.

Forseti Íslands fékk óvænta áskorun í Suðurnesjamagasíni.

Sjónvarpsmenn Víkurfrétta tóku á móti safnskipinu Óðni í Grindavík og ræddu við Guðna forseta í forsetasvítunni um borð. Viðtalið var sýnt í Suðurnesjamagasíni Víkurfrétta á fimmtudagskvöld á sjónvarpsstöðinni Hringbraut og á vf.is. Þar var rætt við Guðna um ferðalagið sjóleiðina til Grindavíkur o einnig almennt um varðskipið Óðinn en forsetinn er fróður um varðskipasöguna og þorskastríðin. Þá fékk Guðni óvænta áskorun í viðtali sínu við Suðurnesjamagasín sem má sjá í spilaranum hér að neðan.

Sjóarinn síkáti 2022