Mannlíf

Í englabúningi með kórónu
Sunnudagur 10. mars 2024 kl. 08:40

Í englabúningi með kórónu

Fríða Dís Guðmundsdóttir ríghélt í barnatrúna

Tónlistar- og söngkonan Fríða Dís Guðmundsdóttir á góðar minningar frá fermingunni úr Hvalsneskirkju og veislunni en hún fermdist árið 2001. Reyndar voru veislurnar tvær sama daginn.

Hvað kemur fyrst upp í hugann þegar þú rifjar upp ferminguna?

Fermingargræjurnar sem ég fékk frá fjölskyldunni, ég gat sett í þær 3 geisladiska í einu og 2 kasettur. Síðan tengdi ég plötuspilara við allt heila klabbið og tætti í mig geisladiska- og plötusafn heimilisins enda auðvitað engar streymisveitur Youtube á þessum tíma, bara MTV og VH1 í línulegri dagskrá.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Af hverju léstu ferma þig? 

Ég ríghélt enn í barnatrúna á þessum tíma og fór ekki í uppreisn fyrr en ég komst í Led Zeppelin safnið hans pabba.

Fermingargræjurnar má sjá hægra megin á myndinni. Finnbjörn fermingarbróðir hennar grúskar í plötusafni heimilisins.

Hvernig var fermingarundirbúningurinn, presturinn og kirkjan?

Séra Hjörtur Magni fermdi mig í Hvalsneskirkju. Við vorum sex úr árganginum sem létum ferma okkur í kirkjunni, hinir létu ferma sig í Safnaðarheimilinu sem er nú Sandgerðiskirkja.

Var haldin veisla og hvað er eftirminnilegast úr henni?

Já, það var haldið fjölskylduboð í Miðhúsum í Sandgerði þar sem ég hitti skyldmenni en um kvöldið fékk ég að bjóða vinum mínum í pizzur, mér fannst seinni veislan mun skemmtilegri.

Eru einhverjar fermingargjafir sem þú manst eftir?

Það er óhætt að segja að fyrrnefndar hljómflutningsgræjur hafi slegið í gegn og fyrir fermingarpeninginn minn keypti ég mér húsgögn og innréttaði herbergið mitt, sem er frekar fyndin pæling.

Mannstu eftir fermingarfötunum eða klippingunni/greiðslunni?

Ég man að ég fór með mömmu í Mangó til að kaupa fermingarfötin, allt hvítt. Besta vinkona mín, sem hafði fermt sig árið áður, hafði verið með kórónu svo ég ákvað líka að vera með þannig, hálfgerður englabúningur sem ég var ekki lengi að slíta. Ég man að ég mátti líka vera með maskara og gloss á fermingardaginn sem ég fékk jafnan ekki. Mamma lofaði mér að ég fengi að klippa hárið stutt og lita það um leið og ég væri búin að ferma mig, sem ég gerði.