Íþróttir

Tap hjá Keflavík í Eyjum
Vigdís Lilja Kristjánsdóttir kom Keflavík yfir á fjórtándu mínútu. Myndir úr safni Víkurfrétta
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
þriðjudaginn 7. júní 2022 kl. 21:03

Tap hjá Keflavík í Eyjum

Keflavík lék í kvöld gegn ÍBV á Hásteinsvelli í Vestmannaeyjum. Leikurinn var sá áttundi sem Keflavík leikur í Bestu deild kvenna en Keflavík byrjaði vel, vann tvo fyrstu leikina en hefur tapað fimm leikjum og gert eitt jafntefli í síðustu sex umferðum. Leiknum lauk með 3:2 sigri ÍBV.

Sömu lið mættust í Mjólkurbikarnum fyrir rúmri viku og þá slógu Eyjakonur Keflavík út en í kvöld komust Keflvíkingar yfir á 14. mínútu þegar mistök áttu sér stað í vörn Eyjakvenna. Boltinn barst til Ana Paula Santos Silva sem sendi á Vigdísi Lilju Kristjánsdóttur sem átti ekki í vandræðum með að afgreiða boltann í netið og staðan orðin 0:1.

ÍBV náði að jafna leikinn tíu mínútum síðar (24') og komast yfir á 31. mínútu. Staðan í hálfleik 2:1.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024
Ana Paula Santos Silva skoraði seinna mark Keflvíkinga.

Seinni hálfleikur var rétt nýhafinn þegar Santos Silva jafnaði fyrir Keflavík (47'). Nú var hlutverkunum snúið við og Vigdís Lilja fékk boltann eftir önnur mistök í vörn ÍBV, Vigdís sendi á Santos Silva sem kláraði dæmið vel og staðan orðin 2:2.

Heimakonur komust enn á ný yfir á 55. mínútu og þar við sat. 3:2 tap á sterkum útivelli.