Blik í auga
Blik í auga

Íþróttir

Keflavík sigraði Þór
Markaskorararnir tveir, Joey Gibbs og Nacho Heras, í baráttunni í teig Þórsara þegar liðin mættust á Nettóvellinum í fyrri umferð Lengjudeildarinnar. Mynd úr safni Víkurfrétta.
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
mánudaginn 7. september 2020 kl. 19:29

Keflavík sigraði Þór

Keflvíkingar eru í toppbaráttunni í Lengjudeild karla, þeir gerðu góða ferð til Akureyrar þar sem þeir mættu Þórsurum. Leikurinn var var mikilvægur fyrir Keflavík því með sigri komust þeir í annað sæti deildarinnar, upp fyrir Leikni Reykjavík. Leiknum lyktaði með 3:1 sigri Keflvíkinga og komu öll mörkin í fyrri hálfleik.

Það voru heimamenn sem byrjuðu leikinn betur þegar þeir stöðvuðu Keflvíkinga á leið í sókn, brunuðu upp kantinn, gáfu fyrir þar sem boltinn barst á óvaldaðan Þórsara og hann skoraði fram hjá Sindra í markinu (17').

Keflvíkingar jöfnuðu leikinn á 31. mínútu þegar Rúnar Þór Sigurgeirsson tók góða aukaspyrnu inn á teig Þórsara, boltinn barst til Joey Gibbs sem afgreiddi hann í netið. 1:1.

Fimm mínútum síðar fengu Keflvíkingar hornspyrnu sem Þórsarar náðu ekki að koma frá, boltinn barst til Kian Williams sem átti góða sendingu á fjærstöng þar sem Nacho Heras var einn og óvaldaður og skallaði boltann í netið (36').

Keflvíkingar voru ekki hættir – eða ætti maður að segja Joey Gibbs var ekki hættur? Rétt áður en flautað var til leikhlés barst boltinn aftur til Sindra sem var undir pressu og sendi langan bolta fram völlinn. Þórsvörnin átti í erfiðleikum með að koma boltanum frá og hár bolti barst til Gibbs sem tók hann á kassann og lét svo vaða rétt fyrir utan vítateigsbogann. Boltinn söng í netinu, gullfallegt mark og óverjandi fyrir markvörð Þórs. Staðan í hálfleik því 3:1.

Seinni hálfleikur var markalaus og Keflvíkingar voru frekar líklegir til að bæta við en Þór að minnka muninn.

Með sigrinum komst Keflavík í annað sæti Lengjudeildarinnar, fjórum stigum á eftir toppliði Fram og einu stigi fyrir ofan Leikni Reykjavík. Keflavík á leik til góða þar sem leik þeirra gegn Grindavík síðustu umferð var frestað.

Þór sendi leikinn út í beinni og er hægt að sjá hann í spilaranum hér að neðan.