Karlakórinn
Karlakórinn

Íþróttir

Borðtennisfélag Reykjanesbæjar stendur vel að vígi
Leikmenn A-liðs BR: Piotr Herman, Abbas Rahman Abdullah, Damian Kossakowski og Mateusz Marcykiewicz.
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
fimmtudaginn 2. desember 2021 kl. 09:34

Borðtennisfélag Reykjanesbæjar stendur vel að vígi

Um síðustu helgi fór fram deildarhelgi Borðtennissambands Íslands í Hagaskóla í Reykjavík. Borðtennisfélag Reykjanesbæjar (BR) leikur suðvesturriðli 3. deildar.

A-lið og B-lið BR mættust í innbyrðis viðureign en það sama var uppi á tengingnum í fyrstu umferð deildarkeppninnar. Þá hafði B-liðið betur en í þetta skiptið náði A-lið BR fram hefndum og sigraði lið B 3:2, bæði lið unnu að auki lið KR-C og Víking-D.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Lið BR sitja í efstu sætum riðilsins með sextán stig en þau hafa bæði sextán stig og unnið allar sínar viðureignir nema innbyrðisviðureignirnar. Næst kemur KR-D með fjórtán stig.

Borðtennismót Adidas

Fyrr í mánuðinum var borðtennismót sem var styrkt af Adidas haldið í Tennis- og badmintonfélagi Reykjavíkur (TBR). Nokkrir keppendur frá Borðtennisfélagi Reykjanesbæjar tóku þátt í mótinu og höfðu verðlaun upp úr krafsinu.

Jón Gunnarsson vann til silfurverðlauna í flokki eldri keppenda, Piotr Herman og Damian Kossakowski unnu til bronsverðlauna í sínum flokkum. Þeir félagar segja að nokkur mót eigi eftir að vera haldin fram á vor og mun Borðtennisfélag Reykjanesbæjar án efa senda sína fulltrúa til að berjast um verðlaun á þeim mótum.

Jón Gunnarsson varð annar í sínum flokki.


Opið borðtennismót í jólamánuðinum

BR heldur opið borðtennismót þann 18. desember 2021. Mótið er fyrir annars flokks leikmenn, það eru þeir sem eru undir 1.500 BTI stigum, og verður keppt í fjórum flokkum sem hér segir:

Konur, sextán ára og yngri (áætluð byrjun kl. 10:00)
Konur, eldri en sextán ára (áætluð byrjun kl. 11:00)
Karlar, sextán ára og yngri (áætluð byrjun kl. 12:30)
Karlar eldri en sextán ára (áætluð byrjun kl. 14:30)

Salurinn verður opinn frá klukkan 9:00 á keppnisdegi, Hringbraut 125 í Keflavík (gamla slökkviliðsstöðin)

Keppnisfyrirkomulagið er þannig að keppt verður í riðlum og í fjölmennari flokkum fara sigurvegarar úr riðlum og keppa í einföldum úrslætti. Spilað verður í riðlum og fara tveir upp úr hverjum riðli í einfaldan úrslátt. Vinna þarf þrjár lotur af fimm í riðlum og fjórar lotur af sjö í úrslætti. Einnig verður leikið um þriðja sætið í hverjum flokki.

Þátttökugjald er 1.000 krónur og greiðist á staðnum.

Tekið er við skráningum til 15. desember 2021 og nánari upplýsingar eru veittar tölvupósti: [email protected]

Þeir sem vilja taka þátt í keppninni og eru ekki enn í neinum borðtennisklúbbi verða skráðir sem leikmenn BR.

Verðlaunapeningar verða veittir fyrir efstu þrjú sætin og glæsileg verðlaun fyrir sigurvegara hvers flokks.

Tengdar fréttir