Íþróttir

Bjartir fyrir lokaumferðirnar
Magnús hefur verið lykilmaður í vörn Keflavíkur.
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
föstudaginn 10. september 2021 kl. 07:45

Bjartir fyrir lokaumferðirnar

Magnús Þór Magnússon, fyrirliði meistaraflokks karla hjá Keflavík, hefur verið að glíma við eftirköst höfuðhögga sem hann varð fyrir í leikjunum gegn Fylki og FH. Magnús lék ekki með Keflavík gegn HK og það leit jafnvel út fyrir að hann yrði ekki meira með á tímabilinu – en Magnús er allur að koma til.

„Ég er allur að koma til og byrjaður að æfa aftur. Ég býst við að ná síðustu leikjunum, þessum þremur í deildinni og bikarleiknum gegn HK,“ segir Magnús en hann hefur þurft að taka því rólega þar sem höfuðhögg geta reynst varasöm. „Þetta voru tvö þung högg sem ég fékk með skömmu millibili í leiknum gegn Fylki og svo fékk ég aftur högg í leiknum á móti FH. Ég var svolítið vankaður eftir þetta en er orðinn góður núna og fer varlega af stað. Maður hefur fundið það á sjúkraþjálfurunum að þeir vilja fara hægt í sakirnar, eru eiginlega á nálum yfir þessu.“

Magnús segir að honum lítist vel á stöðuna hjá Keflavík fyrir lokaumferðirnar í Pepsi Max-deildinni. „Við erum bara bjartir en þurfum samt að ná allavega í einn sigur í viðbót, þrjú stig að minnsta kosti til að tryggja okkur frá falli.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Miðað við leikina gegn þessum liðum í fyrri umferðinni þá eigum við að geta það, við eigum KR, Leikni og ÍA eftir og það eru allt lið sem við eigum góða möguleika á móti. Við töpuðum 1:0 fyrir KR en það var leikur þar sem við vorum í góðum séns og hefðum hæglega átt að geta jafnað. Svo unnum við Leikni en gerðum jafntefli við ÍA.“

Keflavík er komið í átta liða úrslit í bikarkeppninni og mæta HK 15. september. Magnús segir að miðað við síðasta leik gegn þeim þá telji hann Keflavík vera betra liðið.

„Eins og sá leikur þróaðist, við einum færri, þá finnst mér við vera með betra lið en þeir og ég held að við komum til með að vinna þann leik. Það væri geggjað að komast í undanúrslitin – en við verðum að hugsa um einn leik í einu.“

Oliver James Kelaart Torres skoraði jöfnunarmark Keflavíkur gegn Fylki stuttu fyrir leikslok.

Pepsi Max-deild karla: Allt undir í lokaumferðunum

Keppni hefst að nýju um næstu helgi í efstu deild karla eftir landsleikjahlé. Keflvíkingar eru í níunda sæti með átján stig en hörð keppni er í neðri hluta deildarinnar þegar þrjár umferðir eru eftir. Staða neðstu liða er þannig að HK er í tíunda sæti (17 stig), Fylkir í ellefta sæti (16 stig) og ÍA er í neðsta sæti (12 stig).

Keflvíkingar leika heima gegn KR um næstu helgi, síðan eiga þeir útileik gegn Leikni sem er í sætinu fyrir ofan Keflavík. Lokaleikur Íslandsmótsins verður gegn botnliði ÍA á HS Orkuvellinum laugardaginn 25. september.