Max Norhern Light
Max Norhern Light

Íþróttir

Alltaf verið draumur að spila með landsliðinu
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
föstudaginn 22. nóvember 2019 kl. 14:46

Alltaf verið draumur að spila með landsliðinu

-segir Samúel Kári Friðjónsson, atvinnumaður með 
Víkingi í Noregi.

„Það hefur verið draumur siðan ég byrjaði fyrst i fótbolta að spila með landsliðinu og ég er ótrúlega þakklátur fyrir það og stoltur að hafa fengið tækifærið,“ segir Keflvíkingurinn Samúel Kári Friðjónsson, atvinnumaður í knattspyrnu en hann kom inn í landsleik Íslands gegn Moldovu í undankeppni Evrópumótsins í knattspyrnu síðasta sunnudag.

Samúel hefur leikið níu landsleiki auk fjölda leikja með yngri landsliðunum en þetta var í fyrsta sinn sem hann leikur með liðinu í svona stórum leik í undankeppni stórmóts. Hann segir að það hafi verið sérstakt og mjög fallegt þegar stúlknakór söng þjóðsöng Íslands fyrir leikinn gegn Moldóvum en að sama skapi sérstakt að upplifa það gegn 50 þúsund Tyrkjum sem höfðu hátt á meðan íslenski þjóðsöngurinn var fluttur. Það hafi verið vanvirðing.

En hvað segir Samúel um leikinn gegn Moldóvu?

„Leikurinn var fínn. Við spiluðum ágætlega en hefðum getað klárað þetta fyrr en það bara datt ekki með okkur. Þrátt fyrir það þá náðum við á endanum að skora annað markið og vinna leikinn. Það var fyrir mestu.“

Er mikill munur að vera í keppni með landsliðinu eða félagsliðinu?

„Í rauninni er ekki mikill munur á því þar sem það er yfirleitt persónubundið hvernig þú undirbýrð þig fyrir leik, sérstaklega andlega. Aftur á móti æfingalega séð og allt í kringum það er alltaf munur. Við erum með frábært starfsmannateymi í landsliðinu sem gerir allt upp á tíu og því er mikið að þakka hvernig liðinu hefur gengið undanfarin ár.“

Samúel var lánaður frá norska liðinu Valerenga til Víkings í norsku úrvalsdeildinni fyrir þetta keppnistímabil. Keflvíkingurinn er ánægður í Noregi en markmiðið sé að komast í stærri deild.

„Það hefur gengið frábærlega hjá okkur. Við erum að berjast um 4. sætið núna til þess að ná Evrópusæti. Ég hef spilað hvern einasta leik og ekki skemmir það fyrir að við erum komnir i bikarúrslit. Sá leikur veður 8. desember. Bikarinn er það stærsta í Noregi og það er eitthvað sem maður gleymir aldrei.“

En gerir þú þér vonir um að komast til annars og stærra liðs?

„Ég fékk nokkur tilboð í sumar til þess að fara burt en það gekk ekki í gegn. Glugginn opnast aftur núna í janúar og við sjáum til hvað gerist þá.“