Karlakórinn
Karlakórinn

Íþróttir

Ætlar að setja Grétar í vasann!
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
föstudaginn 19. janúar 2024 kl. 06:06

Ætlar að setja Grétar í vasann!

Grétar Ólafur Hjartarson er hreinlega óstöðvandi í tippleik Víkurfrétta, hann hafði betur gegn körfuboltagoðsögninni Teiti Örlygssyni um helgina, 10-9. Grétar er því heldur betur kominn á toppinn í heildarleiknum, er með 39 rétta og ennþá á stalli, ótrúlegur leikmaður!

1.416 tipparar, og þar af 46 á Íslandi, voru með alla þrettán leikina rétta og fengu í sinn hlut tæpar 120 þúsund krónur.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Ekki að Víkurfréttir vilji reyna halda aftur af Grétari en ákveðið var að draga inn í hringinn fyrrum mótherja hans á knattspyrnuvellinum, Martein Ægisson úr Vogum en þeir Grétar mættust tvisvar sinnum á knattspyrnuvellinum, Marteinn að sjálfsögðu með sínum Þrótturum og Grétar í gulu Grindavíkurtreyjunni.

„Ég man fyrri  leikinn eins og hann hafi verið leikinn í gær,“ segir Marteinn og hélt áfram. „Þessi leikur var í æfingamóti fyrir Íslandsmótið og ég var á hægri kantinum. Ég var alltaf mjög skeinuhættur og sóknarþenkjandi kantmaður en fékk það erfiða hlutverk að halda Grétari í skefjum í þessum leik. Það gekk mjög vel hjá mér, Grétar skoraði ekki nema þrjú mörk í leiknum, m.a. eitt með hjólhestaspyrnu. Þessi leikur fer samt mest í sögubækurnar vegna dómaraskandals. Gulli Hreins var á línunni og var alltaf að kjafta við áhorfendur og missti því af þremur rangstöðumörkum, Grétar skoraði örugglega tvö þeirra. Eins og ég segi, ef réttlát dómgæsla hefði verið í leiknum hefði ég haft Grétar kyrfilega í öðrum rassvasanum mínum! Grétar skoraði líka þrennu í seinni leiknum en þá átti ég að leiða sóknarleik okkar og slapp því við Grétar. Það eftirminnilegasta í þessum leik var þegar ég klobbaði [þegar leikmaður nær að setja boltann á milli fóta andstæðings síns] Sverri Sverrisson snilldarlega. Ég ætla mér að setja Grétar í hinn rassvasann á laugardaginn, þar sem ég er Liverpool-maður og hann United geri ég einhvern veginn ráð fyrir því að þetta verði auðveld viðureign en reyndar verður að viðurkennast að þótt Liverpool sé margfalt betra í dag er alltaf hörkuleikur á milli þessara risa. Kannski verður þetta því hörkurimma á milli okkar Grétars,“ sagði vígreifur Marteinn að lokum.

Grétar var fyrst smeykur þegar blaðamaður sagði honum frá næsta áskoranda. „Úff, ætlarðu að setja Martein á móti mér núna?“ spurði Grétar og hélt svo áfram. „Ég man varla eftir þessum leikjum á móti Marteini á sínum tíma. Ég er nú kannski ekki tilbúinn að skrifa undir að hann hafi haft mig í vasanum í fyrri leiknum. Ég hefði átt að skora tíu mörk í þessum leik en lét þrjú duga. Ég setti líka þrennu í seinni leiknum, Marteinn hafði vit á því að halda sig fjarri mér þá en ég man að hann átti tilþrif þess leiks þegar hann klobbaði Sverri Sverris snilldarlega, ég er ennþá að núa Sverri upp úr því þegar ég hitti hann. Svo miðað við viðureignir mínar við Martein til þess, ég gæti ekki verið rólegri fyrir slaginn á laugardaginn,“ sagði kokhraustur forystusauðurinn.