Fréttir

VR stendur fyrir  virðingu og réttlæti
Bryndís Kjartansdóttir og Salbjörg Björnsdóttir hjá VR á Suðurnesjum.
Marta Eiríksdóttir
Marta Eiríksdóttir skrifar
föstudaginn 14. febrúar 2020 kl. 07:24

VR stendur fyrir virðingu og réttlæti

Verslunarmannafélag Suðurnesja sameinaðist VR þann 1. apríl 2019 en VR stendur fyrir virðingu og réttlæti. Skrifstofur félagsins á Suðurnesjum eru nýfluttar að Krossmóa 4a í Reykjanesbæ.

Starfsmenn VR á Suðurnesjum eru þær Bryndís Kjartansdóttir, kjaramálafulltrúi, Salbjörg Björnsdóttir, þjónustufulltrúi, og Gísli Kjartansson, sem sér um orlofshús félagsins.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Félagsmenn kusu sameiningu

„Verslunarmannafélag Suðurnesja varð ekki deild innan VR heldur sameinaðist það alveg félaginu en þetta gerðist eftir að félagsmenn kusu sameiningu við VR. Við erum þrjú sem störfum hér suðurfrá, nýflutt í Krossmóann á fjórðu hæð, en hingað geta félagsmenn leitað ef eitthvað er,“ segir Bryndís.

„Við sjáum um allar umsóknir í varasjóð, starfsmenntasjóði og sjúkradagpeninga ef fólk er ekki fært um að sækja um það sjálft á heimasíðu VR. Fólk kemur þá hingað til okkar og sækir um styrki, til dæmis krakkar á framhaldsskólaaldri vegna skólagjalda eða háskólanemendur sem sækja um styrk vegna skólagjalda. Þetta eru þá krakkar sem hafa starfað í verslun og eru orðnir félagsmenn í VR,“ segir Salbjörg.

„VR telur um 35.000 félagsmenn, barist er fyrir réttindum þeirra og ekkert gefið eftir. VR stendur vel með félagsmönnum sínum sem eru skrifstofu- og verslunarfólk og störf tengd þeim. Félagið er mjög stöndugt og vinsamlegt gagnvart félögum sínum. Varasjóður félagsmanna getur dekkað styrk í líkamsrækt, sjúkraþjálfun, tannlæknakostnað, lækniskostnað, heyrnartæki og fleira. Fólk getur kynnt sér þetta allt nánar á heimasíðu okkar www.vr.is,“ segir Bryndís.