Omnis
Omnis

Fréttir

Nýr vefur Ljósanætur er kominn í loftið
Ritstjórn
Ritstjórn skrifar
þriðjudaginn 6. ágúst 2019 kl. 16:48

Nýr vefur Ljósanætur er kominn í loftið

Í tilefni af 20 ára afmæli Ljósanætur í ár var tekin ákvörðun um að ráðast í gerð nýrrar vefsíðu fyrir hátíðina þar sem sú gamla var orðin barn síns tíma og glímdi við ýmsa tæknilega erfiðleika. Vefsíðan sem nú hefur litið dagsins ljós er unnin í samvinnu við vefhönnunarfyrirtækið Stefnu og hefur að megin markmiði að dagskrá hátíðarinnar sé sem aðgengilegust. Dagskráin birtist eftir dögum í tímaröð auk þess sem hægt er að skoða heildardagskrá. Þá er einnig á einfaldan hátt hægt að flokka viðburði eftir tegund og einnig tegund og dögum. Þannig má á auðveldan hátt finna dagskrá fyrir börn á laugardegi svo dæmi sé tekið, segir í frétt frá Reykjanesbæ.

Meðal nýjunga er að nú birtast á síðunni fréttir tengdar hátíðinni, þannig að allar helstu upplýsingar um hátíðina og það sem er efst á baugi hverju sinni er þar að finna. Þá er nú einnig hægt að skoða dagskrána á ensku sem er mjög jákvæð viðbót.

Líkt og verið hefur er einn megin kostur síðunnar sá að viðburðahaldarar skrá sjálfir á síðuna eigin viðburði með texta og mynd. Þar bíða samþykktar og birtast að því fengnu. Nú er einnig hægt að setja inn upplýsingar á ensku um viðburðinn og er fólk eindregið hvatt til að gera það, jafnvel þótt aðeins sé um lágmarksupplýsingar sé að ræða t.d. hvort um er að ræða tónleika eða myndlistarsýningu o.s.frv. Viðburðirnir munu birtast eins og þeir eru skráðir inn utan þess að þeir eru yfirfarnir.

Það er von þeirra sem að hátíðinni standa að síðan nýtist notendum hennar vel. Alltaf má reikna með smávægilegum byrjunarörðugleikum og eru allar ábendingar um þá vel þegnar, ýmist með tölvupósti á netfangið ljosanott@ljosanott.is eða með skilaboðum á facebooksíðunni Ljósanótt.

Ljósmyndastofa Oddgeirs
Ljósmyndastofa Oddgeirs