Fréttir

Líkur á gosi á næstu klukkustundum hafa dofnað
Umferð að Keili er stranglega bönnuð. VF-mynd: Hilmar Bragi
Fimmtudagur 4. mars 2021 kl. 18:41

Líkur á gosi á næstu klukkustundum hafa dofnað

Líkur á að gos geti hafist á næstu klukkustundum hafa dofnað. Áfram gert ráð fyrir sömu sviðsmyndum varðandi líklegustu staðsetningu og mögulegt umfang goss. Taka þarf óróapúlsa alvarlega og reikna með að gos geti hafist þegar að þeir mælast, segir á vef Veðurstofu Íslands.

Vísindaráð almannavarna fundaði á fjarfundi í dag til að ræða jarðskjálftahrinuna á Reykjanesskaga. Fundinn sátu fulltrúar frá Veðurstofu Íslands, Háskóla Íslands, Umhverfisstofnun, Isavia-ANS, HS-Orku og ÍSOR.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Á fundinum var farið yfir mælingar og gögn sem hafa borist síðasta sólarhringinn. Mat vísindamanna er að nýjustu gögn gefi ekki vísbendingar um að gos sé yfirvofandi á næstu klukkustundum.

Jarðskjálftamælingar sýna að virknin er ennþá mikil á svæðinu, þó dregið hafi úr henni eftir óróapúlsinn sem mældist í gær. Skjálftavirknin hefur verið að færast örlítið í suðvestur, en ennþá er megin virknin á þeim slóðum sem hún hefur verið að undanförnu.

Einnig var farið yfir nýjar InSAR gervihnattamyndir sem bárust í dag. Þær myndir spanna tímabilið frá 25. febrúar til 3. mars (kl. 18:59) og sýna ennþá merki um að kvikugangur sé að myndast á svæðinu milli Fagradalsfjalls og Keilis. Það styðja einnig GPS mælingar, sem sýna áfram nokkuð stöðuga hreyfingu, sem þó virðist hafa hægt á sér miðað við síðustu daga. GPS mælingarnar, ásamt InSAR gögnum, sýna því að ekki varð veruleg aukning í kvikurhreyfingum samfara jarðskjálftavirkninni í gær. Sérfræðingar munu túlka frekar gervihnattamyndir og GPS mælingar, til að átta sig á hversu miklar breytingar hafa átt sér stað og hvað þær þýða um framvindu mála.

Niðurstaða vísindaráðs er sú að nýjustu mælingar og gögn sýni að þau merki sem komu fram í gær um að veruleg hætta væri á að gos gæti hafist á næstu klukkustundum hafi dofnað mjög. Jarðskjálftavirkni og kvikuhreyfingar halda eigi að síður áfram. Því hefur þessi atburðarás ekki áhrif á þær sviðsmyndir sem unnið hefur verið eftir, að gera verði ráð fyrir að gos geti brotist út ásamt líklegustu staðsetningu og mögulegu umfangi goss.

Framvindan mun verða kaflaskipt á næstunni. Taka þarf óróapúlsa alvarlega og reikna með að gos geti hafist þegar að þeir mælast.

era verður ráð fyrir að framvinda á Reykjanesskaga muni verða kaflaskipt næstu daga og aftur geta komið skyndilegir púlsar með þéttum smáskjálftum (óróapúlsar), sambærilegir þeim sem mældust í gær. Dæmi um slíka kaflaskipta virkni, þar sem kvika kemst á hreyfingu og framkallar púlsa með tíðum smáskjálftum, eru Kröflueldar 1975-1985. Þar einkenndist virknin af talsverðri skjálftavirkni og kvikuhreyfingum samfara púlsum með smáskjálftavirkni. Í sumum tilfellum urðu eldgos, í öðrum ekki.

Það er mat vísindaráðs að nauðsynlegt sé að taka óróapúlsa, sambærilegum þeim sem varð í gær, alvarlega og reikna með þeim möguleika að gos kunni að vera yfirvofandi þegar þeir mælast.

Vísindaráð mun hittast aftur á morgun til að ræða nýjustu gögn og mælingar.