Fréttir

Lífið færist yfir Keflavíkurhöfn
Ritstjórn
Ritstjórn skrifar
laugardaginn 3. ágúst 2019 kl. 10:45

Lífið færist yfir Keflavíkurhöfn

Jæja, þá er maður kominn suður aftur eftir ferðlag um landið, en síðasti pistill var skrifaður á Djúpavogi.

Óhætt er að segja að veðurblíða leiki við okkur Suðurnesjamenn og spegilsléttur sjór svo til dag eftir dag. Já og makríllinn er kominn og þá færist heldur betur líf í Keflavíkurhöfn og ekki bara gagnvart bátunum sem landa þar, heldur líka útaf fólkinu sjálfur sem kemur á bryggjuna og veiðir makríl af bryggjunni sjálfri.

Reyndar þá fær nú Sandgerði eitthvað af þessum bátum sem landa makríl inn til sín. Átti leið um bryggjuna þann dag sem þessi pistill var skrifaður og þá voru hátt í 50 manns út um allt á bryggjunum að veiða makríl. Myndin sem fylgir þessum pistli sýnir Keflavíkurhöfn og sést aðeins í bátana og fólkið sem er þarna að veiða.

Bátarnir sjálfir eru ekki margir og miðað við hversu langt er komið fram í júlí þá er frekar fáir bátar komnir á veiðar en þeim fer fjölgandi. Lítum á hvaða bátar eru komnir þótt þeir séu ekki allir búnir að landa afla. Andey GK, Dögg SU, Hlöddi VE og Gulltoppur GK eru allir komnir en enginn af þeim er búinn að landa afla. Gosi KE er með 10,3 tn í fjórum veiðiferðum. Addi Afi GK 30,2 tn í sjö og þar af 6,8 tn í einni veiðiferð. Votaberg KE 5,2 tonn í þremur. Bergvík GK 17,6 tn í fimm. Svala Dís KE 14 tn í fjórum. Linda GK 5,9 tn í þremur enn báturinn landar í Sandgerði og vekur nokkra athygli því að Linda GK er minnsti báturinn sem er á makríl. Sunna Rós SH 30,6 tn í ellefu veiðurferðum og síðan Fjóla GK sem er langaflahæstur með um 49 tn í níu róðrum og mest 9,7 tonn í einni löndun.

Netabátarnir eru komnir á veiðar og eru þeir svo til allir að landa í Sandgerði. Erling KE er kominn á veiðar og vekur það nokkra athygli því að undanfarin sumur þá hefur báturinn ekki farið á þorsknetaveiðar um sumarið. Bátnum hefur gengið mjög vel en hann er að leggja netin út af Sandgerði og er kominn með 116 tn í 10 róðrum og mest 28 tonn í einni löndun. Sunna Líf GK er með 16 tonn í níu. Maron GK 60 tn í fjórtán og Halldór Afi GK 24 tn í ellefu róðrum.

Aftur á móti þá er Grímsnes GK að eltast við ufsann og það hefur gengið brösulega. Sigvaldi skipstjóri er búinn að vera að þvælast úti fyrir Grindavík og á svæðinu í kringum Eldey og hefur landað 36 tonnum í sjö róðrum.

Og fyrst ég er byrjaður að minnast á handfærabátana og ufsann þá er best að skoða þá. Tjúlla GK er kominn með 31 tonn í aðeins fimm róðrum og mest 7,8 tonn og af því er ufsi um 24 tonn. Guðrún GK kom með 5,2 tonn í einni löndun. Ragnar Alfreðs GK 28 tonn í aðeins þremur róðrum og er báturinn hættur á veiðum núna og kominn á makríl. Margrét SU 20,4 tonn í aðeins þremur róðrum og mest 8 tonn í einni löndun. Sara KE sem er ekki nema um 8 tonna bátur kom með fullfermi eða 5,1 tonn í einni löndun.

Nú er nýi Sigurfari GK kominn í slipp í Njarðvík og gamli Sigurfari GK er í Sandgerði og hefur landað 53 tonn í tveimur róðrum. Nýi Sigurfari GK hefur landað núna í júlí 106 tonnum í sex róðrum á Hornafirði sem var undir nafninu á Hvanney SF, þar sem Skinney-Þinganes hf á Hornafirði tók aflann í vinnslu.

Þess má geta að núverandi Sigurfari GK hefur heitið þessu nafni, Sigurfari, alla síðan tíð frá því að báturinn var smíðaður árið 1984 en var innfluttur árið 1986. Hét þá fyrst Sigurfari VE 138 en var seldur árið 1993 til Nesfisks og hélt nafninu sínu og líka númeri, var því orðin Sigurfari GK 138. Sigurfari GK stundaði togveiðar og humarveiðar fyrstu árin sem Nesfiskur gerði bátinn út en árið 2002 var síðasta árið sem báturinn stundaði togveiðar því að árið 2003 þá fór báturinn á dragnót og hefur verið á dragnót síðan.

Gísli Reynisson skrifaði.
[email protected]


Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024