Nettó
Nettó

Fréttir

Jöfnunarsjóður greiði niður skólamáltíðir
Fimmtudagur 10. janúar 2019 kl. 09:22

Jöfnunarsjóður greiði niður skólamáltíðir

Miðflokkurinn fagnar auknu fjármagni upp á 62 milljónir frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga með bókun og tillögu á síðasta fundi bæjarstjórnar Reykjanesbæjar.
 
„Hér er tækifærið til að nýta þetta fé til að styrkja efnaminni fjölskyldur í Reykjanesbæ og bjóða upp á systkinaafslátt af skólamáltíðum. Alþýðusamband Íslands hefur lagt áherslu á það, að mikilvægt sé að koma til móts við tekjuminni fjölskyldur og draga úr gjaldtöku m.a. vegna skólamáltíða. Rökstuðningurinn fyrir því að afnema gjaldtöku á skólamáltíðum hefur verið að mismuna ekki börnum á grundvelli efnahagslegrar stöðu foreldra þeirra í samræmi við Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og létta undir með barnafjölskyldum. Reykjanesbær á ekki að láta sitt eftir liggja í þessum efnum. Miðflokkurinn leggur því til að þetta fé verði lagt til að taka fyrsta skrefið í því að gera skólamáltíðir í Reykjanesbæ gjaldfrjálsar,“ segir í bókun Margrétar Þórarinsdóttur, bæjarfulltrúa Miðflokksins.
 
Á fundinum var borin var upp tillaga Miðflokksins um að áætlaðar umframtekjur frá Jöfnunarsjóði verði notaðar til að gera skólamáltíðir gjaldfrjálsar. Tillagan var felld með 10 atkvæðum gegn 1 atkvæði bæjarfulltrúa Miðflokksins. 
Ljósmyndastofa Oddgeirs
Ljósmyndastofa Oddgeirs