Nettó
Nettó

Fréttir

Guðni Ingimundarson heiðursborgari Garðs látinn
Mánudagur 17. desember 2018 kl. 11:47

Guðni Ingimundarson heiðursborgari Garðs látinn

Guðni Ingimundarson, heiðursborgari Garðs, er látinn. Guðni lést í gær. Guðni fæddist að Garðstöðum í Garði þann 30. desember 1923 og  hefði því orðið 95 ára þann 30. desember nk. Eiginkona hans var Ágústa Sigurðardóttir frá Ásgarði á Miðnesi en hún lést 2016. Börn þeirra eru Sigurjóna, Ingimundur og Árni, sem öll eru búsett í Garði.
 
Guðni Ingimundarson var kjörinn heiðursborgari Garðs árið 2014. Lágmynd af heiðursborgaranum var svo afhjúpuð um síðustu áramót. Guðni var kjörinn heiðursborgari Sveitarfélagsins Garðs fyrir frumkvöðlastarf hans við varðveislu menningarverðmæta sem tengjast atvinnusögunni, sem og fyrir störf hans í þágu byggða- og atvinnumála.
 
Guðni var alla sína starfsævi vörubílstjóri. Árið 1954 var hann fenginn til að leggja vatnsveitu í Garði. Til þess að vinna verkið festi hann kaup á GMC hertrukk með bómu að framan. Guðni ætlaði sér að nota trukkinn í þetta eina verkefni, en það fór svo að trukkurinn varð hans aðal atvinnutæki í um 50 ár. Guðni og trukkurinn leystu mörg verkefni í Garði og fóru auk þess víða um Suðurnes til að vinna að margvíslegum verkefnum.  Fyrir vikið er Guðni vel þekktur meðal Suðurnesjamanna og gjarnan er talað um Guðna og trukkinn samtímis.
 
Guðni hefur gegnum tíðina safnað á annað hundrað bátavéla, gert þær upp sem nýjar og gangfærar. Elsta vélin er frá því um 1920. Þegar Byggðasafnið á Garðskaga var vígt þann 2. júlí 2005 afhenti Guðni safninu að gjöf og til varðveislu 60 gangfærar bátavélar, auk þess sem hann gaf safninu GMC trukkinn sinn fræga. Auk þessara véla átti Guðni um 40 uppgerðar og gangfærar vélar í skúrnum hjá sér að Borgartúni í Garði, þar sem Guðni bjó til dánardags. 
 
Guðni var því sannur frumkvöðull við varðveislu menningarverðmæta sem tengjast atvinnusögunni og er vélasafnið sem hann hefur safnað og gert upp einstakt, ekki aðeins á Íslandi heldur þótt víðar væri leitað.

Ljósmyndastofa Oddgeirs
Ljósmyndastofa Oddgeirs