Fréttir

Gosið í mánuð og hraunrennsli eykst
Frá eldgosinu 17. apríl sl. VF-mynd: Jón Hilmarsson
Mánudagur 19. apríl 2021 kl. 12:46

Gosið í mánuð og hraunrennsli eykst

Í dag er mánuður síðan eldgos hófst í Fagradalsfjalli en það var að kvöldi 19. mars sem eldgos hófst í Geldingadölum. Í fyrstu var talað um að gosið væri ræfilslegt. Fyrst um sinn gaus á lítilli sprungu í Geldingadölum en fljótlega myndaðist eldborg með tveimur gígum eða gosopum.

Það var svo ekki fyrr en á öðrum degi páska sem sem sprunga opnaðist utan Geldingadala og hraun tók að renna niður í Meradali. Síðan þá hafa nokkur gosop opnast til viðbótar og virknin er mismunandi á milli gosopa. Það gerðist svo 16. apríl að hraun tók að renna úr Geldingadölum og mun væntanlega fljótlega ná að renna niður í Meradali.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Í samantekt frá Jarðvísindastofnun Háskólans segir að meðalhraunrennslið fyrstu 30 dagana er 5,6 m3/s. Í samanburði við flest önnur gos er rennslið tiltölulega stöðugt. Mælingarnar á hrauninu sýna nú að nokkur aukning hefur orðið síðustu 1-2 vikur. Meðalrennslið fyrstu 17 dagana var 4,5-5 m3/s, en síðustu 13 daga er það nálægt 7 m3/s.

Hér má sjá þrívíddarlíkan af eldstöðinni frá Náttúrufræðistofnun.