Fréttir

Gosið ekki dautt úr öllum æðum
Eldgosið og hraunstreymið er tilkomumikil sjón.
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
föstudaginn 2. júlí 2021 kl. 20:25

Gosið ekki dautt úr öllum æðum

Virkni og órói gossins í Geldingadal datt nánast alveg niður í nótt en gosið virðist ekki alveg tilbúið að gefa upp öndina því virkni þess hófst aftur eftir hádegi og nú er hraun tekið að renna úr gígnum á ný.

Í kvöldfréttum RÚV sagði Þorvaldur Þórðarsons, prófessor í eldfjallafræði við HÍ, að hrun hafi orðið í gígnum í nótt eftir mikla gusu sem hófst í gærkvöldi og henni fylgdi mikið sjónarspil. Um fjögurleytið í nótt risu upp miklir reykjarmekkir úr gígnum og þá hafi verið að hrynja inn í hann, eitthvað rann úr gígnum eftir það en svo datt allt niður. Þorvaldur telur líklegra að hlé sé á gosinu en að því sé lokið. „Í augnablikinu þykir mér það líklegra vegna þess að aðdragandinn er dálítið hraður og það er frekar óvenjulegt að gos endi þannig, þau deyja oftar út í rólegheitunum – en maður veit svo sem aldrei og þetta gos er ólíkindatól. Það gæti alveg tekið upp á því að enda allt öðruvísi en önnur gos,“ sagði Þorvaldur um gosið í Geldingadal.

Þorvaldur segir að óróinn bendi til að kvika sé ennþá undir hrauninu og nái það að hlaðast upp geti það komið upp með látum. Hraunjaðarinn er kominn að varnargarði í Geldinadal og haldi hraun áfram að streyma í dalinn muni þar fara yfir varnargarðinn og flæða niður í Nátthaga. 

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Mini-Móðuharðindi

Mikillar gosmengunar hefur orðið vart í dag, aðallega á höfuðborgarsvæðinu en seinni partinn í dag lá t.a.m. mikið mistur yfir Reykjanesbæ. Svava S. Steinarsdóttir, heilbrigðisfulltrúi hjá Reykjavíkurborg, sagði í sama fréttatíma að efnahvörf hafi orðið í gosmekkinum og brennisteinssambönd hafi myndast auk brennisteinssýru og súlfatefnasambanda. Hún sagði jafnframt að mengunin mælist sem svifryk á loftgæðamælum en ekki hefðbundin gasmengun. „Þetta getur valdið ertingu í öndunarfærum, sérstaklega hjá þeim sem eru viðkvæmir fyrir og með astma, þeir geta sérstaklega fundið fyrir einkennum á svona dögum,“ sagði Svava.

Svona mengun kallast blámóða og olli Móðuharðindin á sínum tíma. „En þetta er nú kannski svona mini-móðuharðindi hjá okkur,“ sagði Svava ennfremur.