Fréttir

Fyllerí og slæm umgengni við Keflavíkurhöfn
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
mánudaginn 12. ágúst 2019 kl. 12:13

Fyllerí og slæm umgengni við Keflavíkurhöfn

„Við höfum aldrei lent í þessu áður og íhugum nú alvarlega að loka bryggjunni fyrir fólki,“ segir Halldór Karl Hermannsson, hafnarstjóri í Reykjanesbæ en í sumar hefur umgengni verið mjög slæm, veiðimenn ölvaðir og jafnvel verið með ólæti.

Steininn tók úr sl. laugardagskvöld þegar starfsmaður hafnarinnar var kallaður á staðinn vegna óláta og fyllerís á bryggjunni í Keflavík. Einn veiðimannanna kom akandi á bíl sínum niður á löndunarbryggjuna og var ofurölvi við stýrið. Var hringt í lögreglu sem mætti með 3 bíla á staðinn en maðurinn reyndi að stinga af á bílnum en var lokaður af á svæðinu. Tók lögreglan manninn og færði hann á lögreglustöðina.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Að sögn Halldórs hafnarstjóra hefur umgengnin verið til skammar og svo virðist sem bryggjan sé orðin samkomustaður útlendinga en þeir hafa verið mjög iðnir á bryggjunni og stunda makrílveiðar stíft. Þeir hafa líka brotist ítrekað inn á hafnarsvæðið í Helguvík þó því hafi verið lokað að kvöldi með hliði. Þá hafi þeir gert gat á girðinguna til að komast inn á bryggjuna.

Halldór segir að það sé ekki síst út af öryggisástæðum að skoði þurfi alvarlega að loka bryggjunni í Keflavík þar sem ástandið er verst. Ástandið á veiðimönnum sé slíkt að þeir geti orðið sér að voða í nálægð við sjóinn og þar sem verið sé að landa makríl af bátum.

Meðfylgjandi myndir voru teknar sl. laugardagskvöld.