Fréttir

Fólk í fiskvinnslu fær hærri laun á tekjutengdum bótum
Miðvikudagur 23. september 2020 kl. 10:12

Fólk í fiskvinnslu fær hærri laun á tekjutengdum bótum

Fiskvinnslufyrirtæki á Suðurnesjum þarf að flytja inn vinnuafl frá Póllandi þrátt fyrir mikið atvinnuleysi. Tekjutengdar bætur eru hærri en yfirborguð átta tíma dagvinna
„Það er óneitanlega sérstakt að vera í þeirri stöðu að þurfa að flytja inn vinnuafl frá Póllandi og skaffa því húsnæði næstu mánuðina því núverandi starfsmenn fá meira út úr því að vera á tekjutengdum atvinnuleysisbótum en launum fyrir átta tíma dagvinnu,“ segir eigandi fiskvinnslufyrirtækis á Suðurnesjum í samtali við Víkurfréttir.

Hann segist standa frammi fyrir því núna að starfsfólk sem hann þurfti að segja upp 1. júní og á samkvæmt því að hætta að vinna 1. október ætli að nýta sér úrræði velferðarkerfisins og vera frekar á bótum en að halda áfram störfum.

„Við höfum unnið í því að undanförnu að búa til verkefni til áramóta til að geta haldið starfsfólkinu eða þangað til vetrarvertíð hefst um áramótin. Þrátt fyrir að vera með yfirborgun tapar fólkið á því að halda áfram í vinnu næstu þrjá mánuði þar sem tekjutengdu bæturnar eru hærri því þær eru miðaðar við laun fyrstu sex mánuði ársins. Þá eru launin mun hærri með tilheyrandi yfirvinnu á vertíðinni. Við getum skaffað dagvinnu til áramóta en launin eru að meðaltali um 8% lægri en tekjutengdu bæturnar sem fólkinu stendur til boða. Við þurfum því að flytja inn nýtt vinnuafl frá Póllandi. Við getum því sagt að atvinnulífið sé að tapa í samkeppni við velferðarkerfið. Þetta er mjög sérstök staða,“ sagði eigandi þessa fyrirtækis.

Samkvæmt tölum sem hann hafði undir höndum þá fær starfsfólkið tekjutengdar bætur næstu þrjá mánuði að meðtali um 425 þúsund krónur en laun þess hjá fyrirtækinu í dagvinnu með bónus eru rúmar 391 þúsund krónur. Þá segir hann að fólkinu standi til boða svört vinna og spari sér ýmislegt fleira með því að vera frekar á bótum en í vinnu.