Fréttir

Eldgosið nú staðið lengur en síðustu þrjú gos
Frá gosstöðvunum við Sundhnúk í gærkvöldi. VF/Ísak Finnbogason
Þriðjudagur 19. mars 2024 kl. 12:34

Eldgosið nú staðið lengur en síðustu þrjú gos

Landris heldur áfram í Svartsengi

Eldgosið heldur áfram og hefur nú staðið í rúman tvo og hálfan sólarhring og er orðið lengra en þau þrjú gos sem hafa orðið á svæðinu síðan í desember 2023. Áfram gýs á sömu stöðum og seinnipartinn í gær sem eru sunnarlega á gosprungunni. Gígbarmar halda áfram að byggjast upp og kvikustrókavirkni enn nokkur. Veðurstofa Íslands greinir frá þessu.

Hraunjaðarinn sem var um 300 m frá Suðurstrandarveginum í gær virðist ekki hafa færst áfram síðan í gær. Hraunrennsli frá gígunum er áfram mest til suðurs, en virkir hraunjaðrar renna ofan á því sem rann í upphafi gossins. Engin skjálftavirkni hefur verið í og við kvikuganginn síðan eldgos hófst en gosórói mælist og hefur verið nokkuð stöðugur undanfarna tvo sólahringa sem er vísbending um að ekki hafi dregið úr krafti gossins.

Landris heldur áfram við Svartsengi

Þegar kvika hljóp frá Svartsengi yfir Sundhnúksgígaröðina að kvöldi 16. mars þá seig land í Svartsengi líkt og þegar fyrri kvikugangar mynduðust. GPS mælingar og gervitunglamyndir eftir það sýna að landris heldur áfram í Svartsengi sem bendir til þess að enn streymi kvika af dýpi inn í kvikusöfnunarsvæðið undir Svartsengi ásamt því að fæða eldgosið.

Hafa ber í huga að enn hafa fengist tiltölulega fáir mælipunktar á þeim skamma tíma sem liðið hefur síðan eldgosið hófst og mælingunum fylgir ávallt óvissa. Aflögunarmælingar sem verða aðgengilegar næstu daga munu gera sérfræðingum mögulegt að áætla nánar með líkanreikningum það magn kviku sem streymir inn undir Svartsengi.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Bylgjuvixlmynd19032024

Bylgjuvíxlmynd sem sýnir mælt landris (rauð svæði) á milli 17. og 18. mars eftir að eldgosið hófst. Myndin byggir á gögnum úr Iceye gervitungli.

Samkvæmt mælingum sem framkvæmdar voru í gærkvöldi hefur dregið úr gasútstreymi frá eldgosinu miða við það sem var í upphafi. Áfram eru þó líkur á að gasmengunar verði vart og veðurspá bendir til vaxandi suðvestanáttar, verði um 13-20 m/s á gosstöðvunum í dag en dregur úr vindi í kvöld. Gasmengun berst því til norðausturs. Sjá gasdreifingarspá hér.

Hættumatskort sem uppfært var í gær er áfram í gildi til kl. 15:00 á morgun 20. mars að öllu óbreyttu.