Fréttir

Ekkert verður af byggingu kísilverksmiðju Thorsil
Dagar kísilverksmiðja í Helguvík eru taldir.
Þriðjudagur 6. júlí 2021 kl. 11:20

Ekkert verður af byggingu kísilverksmiðju Thorsil

Meira en ár liðið frá uppsögn lóðar- og hafnarsamnings

Á fundi stjórnar Reykjaneshafnar í maí 2020 var farið yfir stöðu mála varðandi fyrirhugaða uppbyggingu Thorsil ehf. á iðnaðarsvæðinu í Helguvík. Í fundargerð kemur fram að þann 11. apríl 2014 hafi verið undirritaður lóðar- og hafnarsamningur, milli Reykjaneshafnar annars vegar og Thorsil ehf. hins vegar, um uppbyggingu kísilverksmiðju á iðnaðarsvæðinu í Helguvík en nú séu liðin meira en sex ár frá þeirri undirritun og ekkert bólar á fyrirhugaðri starfsemi.

Í samningum fólst m.a. að Reykjaneshöfn tryggði Thorsil ehf. ákveðna lóðaraðstöðu, með þeirri uppbyggingu áttu að skapast vel launuð störf á svæðinu ásamt auknum umsvifum í starfsemi Reykjaneshafnar. Fyrirliggjandi eru samningsviðaukar aðila þar sem kveðið er á um greiðslufyrirkomulag þeirra gjalda sem inna átti af hendi á grundvelli samningsins. Í ljósi þess að greiðslur hafa ekki borist lítur stjórn Reykjaneshafnar svo á að Thorsil ehf. hafi vanefnt samningsskyldur sínar. Á tímum óvissu og atvinnubrests er þörf á allri uppbyggingu til að vega upp á móti óheillavænlegri þróun. Stjórn Reykjaneshafnar telur óforsvaranlegt að bíða endalaust í óvissu á meðan nýir aðilar óska eftir samræðum um framtíðaruppbyggingu. Á fundinum var samþykkt samhljóða að fela hafnarstjóra að segja samningum upp í samræmi við 2. mgr. greinar 7.4 í fyrrnefndum lóðar- og hafnarsamningum frá og með mánaðarmótum maí/júní 2020.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Samkvæmt því ákvæði tekur uppsögn gildi einu ári eftir að uppsögnin berst Thorsil ehf. en hefur engin áhrif ef Thorsil ehf. efnir samningsskyldur sínar á árs uppsagnarfrestinum. Tilkynning um uppsögnina var send forsvarsmönnum Thorsil ehf. 20. maí 2020 í samræmi við ákvæði samningsins varðandi slíkar tilkynningar. Þar sem liðið er rúmt ár frá því að uppsögn samnings var tilkynnt, og engin viðbrögð hafa borist frá Thorsil ehf. varðandi uppsögnina, lítur stjórn Reykjaneshafnar svo á að ofangreindur lóðar- og hafnarsamningur sé úr gildi fallinn. Erindið var samþykkt á fundi stjórnar Reykjaneshafnar þann 29. júní síðastliðinn og því ætti að vera ljóst að ekkert kísilver komi til með að vera með starfsemi í Helguvík í nánustu framtíð. Saga kísilverksmiðja í Helguvík var stutt en gekk síður en svo stórslysalaust fyrir sig eins og flestir ættu að muna.