Fréttir

Draumabíll Suðurnesjamannsins efstur á óskalistanum
Föstudagur 23. febrúar 2024 kl. 16:03

Draumabíll Suðurnesjamannsins efstur á óskalistanum

Tveir heppnir karlmenn um sextugt skiptu með sér fyrsta vinningi í Lottó um síðustu helgi en báðir höfðu keypt 10 raða sjálfvalsmiða. Annar keypti sinn hjá Jóhönnu á Tálknafirði og hinn í Orkunni Fitjum í Reykjanesbæ og fengu þeir rúmar 10,2 milljónir króna hvor.

Vestfirðingurinn gerði sér lítið fyrir og brunaði í bæinn og var mættur á skrifstofu Íslenskrar getspár snemma á mánudeginum og sagði vinninginn koma á góðum tíma enda starfslok á næstunni. Suðurnesjamaðurinn mætti daginn eftir, sagði ýmislegt hafa gengið á að undanförnu; bæði í bæjarfélaginu, eins og allir vita, en líka innan fjölskyldunnar. Sagðist sá heppni nýlega hafa selt frá sér draumabílinn sinn til að hjálpa sínum nánustu. Hann leit bjartsýnum augum á framtíðina með góðan lottóvinning í farteskinu og hans fyrsta verk verði væntanlega að kaupa sér draumabílinn aftur.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Starfsfólk Getspár/Getrauna óskar vinningshöfunum innilega til hamingju og þakkar um leið veittan stuðning sem skiptir gríðarlega miklu máli fyrir fatlað fólk,

sem og íþrótta- og ungmennafélögin í landinu þar sem þau njóta góðs af allri sölu Lottó, segir í tilkynningu.