Fréttir

Besta leiðin að gosinu
Mynd frá Björgunarsveitinni Þorbirni
Fimmtudagur 4. ágúst 2022 kl. 16:29

Besta leiðin að gosinu

Björgunarsveitin Þorbjörn deildi upplýsingum um það hvernig best sé að komast að eldgosinu á Facebook síðu sinni fyrr í dag. Textinn hér að neðan er tekinn beint upp úr Facebook færslunni.
„Gangan að nýja hrauninu og gígnum er að lágmarki 7 km aðra leið og hækkunin er um 300m. Það þýðir að heildar gönguferðin getur verið rúmir 14 kílómetrar um nokkuð torfært svæði og eru mjög brattar brekkur í nágrenni gígsins. Gera má ráð fyrir að slík ganga taki 5 til 6 klukkustundir hið minnsta. Gangan að útsýnispalli þar sem gígurinn sést er aðeins styttri eða rétt rúmir 5 km aðra leið. Best er að leggja bílum á bílastæðið við gönguleið A og ganga svo eftir A leiðinni alla leið upp á Fagradalsfjall. Þegar komið er upp á fjallið er haldið eftir sléttunni til norðausturs þar til gosið sést. Verið er að vinna í slóðamálum og merkingum og erum við að reyna okkar besta í að gera þetta eins aðgengilegt og öruggt er. Björgunarsveitin Þorbjörn mun fara í kvöld og setja niður stikur til þess að einfalda gönguleiðina eins og hægt er.“
Hér fyrir neðan er góð lýsing á bestu leiðinni að eldgosinu í dag og næstu daga en fyrst er gott að fara yfir nokkra mikilvæga hluti.
1. Besta leiðin að gosinu fer eftir vindátt og veðri hverju sinni, fylgist því vel með tilmælum Lögreglu og viðbragðsaðila.
2. Verið vel útbúin. Mikilvægt að vera vel klædd, með nesti, góða skó, höfuðljós og fullhlaðinn síma.
3. Skiljið bílinn ykkar eftir á bílastæði en ekki í vegköntum. Það er nóg af stæðum fyrir alla.
4. Gasmengun er á svæðinu og gæti safnast í lægðum. Nauðsynlegt er að forðast reykinn af gosinu.
5. Gamla hraunið er ennþá heitt og stórhættulegt yfirferðar. Vinsamlegast gangið ekki á hrauninu.
Að lokum hvetjum við alla til þess að fara varlega og njóta dýrðarinnar.
- Björgunarsveitin Þorbjörn
Sjá Facebookfærslu Björgunarsveitar Þorbjarnar hér: https://www.facebook.com/bjorgunarsveitinthorbjorn/posts/pfbid02U4fgzedRCWFMe31jFaq6tVVXyLFcSvpjgmEfswUHcjBGmcymfLwiJeK88JLxcoryl
Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024