Fréttir

Bar hvalamamma kálfi í Keflavíkurhöfn?
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
miðvikudaginn 31. júlí 2019 kl. 14:07

Bar hvalamamma kálfi í Keflavíkurhöfn?

Heimsókn grindhvala til Keflavíkurhafnar fyrir helgi er að taka á sig mynd. Sérfræðingar hafa verið að skoða myndskeið Víkurfrétta og hafa komist að því að ástæða þess að hvalirnir voru svona lengi á sama stað í höfninni sé sú að kýr í hópnum hafi verið að bera kálfi.

Á myndum sem teknar voru með dróna má sjá smærra dýr eða kálf á sundi í kringum hóp grindhvala í höfninni. Hvalirnir héldu sig á svipuðum slóðum innan hafnarinnar í nokkrar klukkustundir.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Það var ekki fyrr en makrílveiðibátur sigldi hring um hvalavöðuna að hópurinn tvístraðist og hélt aftur til hafs en grindhvalirnir hafa ekki sést aftur.

Á Wikipedia má lesa um grindhvali. Grindhvalurinn er sívalur um búkinn, gildastur framan við miðju en mjókkar til beggja enda. Hausinn er stuttur en með hátt og kúpt enni sem skagar fram yfir stutt trýnið, í hvorum skolti eru 8-13 tennur. Hornið er aftursveigt og framan við mitt bak. Bægslin eru löng og mjó, lengd þeirra getur verið allt að 30% af heildarlengd dýrsins.

Talsverður stærðarmunur er á kynjunum, kýrnar er 4,3 til 5,1 metrar á lengd og allt að 900 kg á þyngd. Tarfarnir eru 5,5 til 6,2 metrar og verða allt að 1700 kg.

Kálfarnir fæðast dökkgráir og yngri hvalir geta haft misdökka flekki. Fullorðin dýr eru svört eða dökkbrún fyrir utan að hvalurinn hefur hvítan blett á bringunni fyrir framan bægslin.

Grindhvalurinn er eindregið hópdýr, í hverri hjörð geta verið allt frá nokkrum dýrum upp í mörg þúsund. Algengt er að grindhvalahópar blandist öðrum hvölum, sérstaklega höfrungum. Grindhvalir synda iðulega í hópum á land upp, hvað þessu veldur er óþekkt. Samstaða hópsins er svo sterk að þegar fremri hluti hans hefur hlaupið á land fylgja þeir sem utar eru hinum beint í opinn dauðann.