Fréttir

Áhugamannahópur um nýja heilsugæslu á Suðurnesjum settur á laggirnar
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
föstudaginn 13. mars 2020 kl. 13:00

Áhugamannahópur um nýja heilsugæslu á Suðurnesjum settur á laggirnar

Samtök atvinnurekenda á Reykjanesi eru þessa dagana að setja í gang áhugamannahóp um nýja heilsugæslu á Suðurnesjum. Verkefni hópsins er að skoða hvaða möguleikar eru á Suðurnesjum varðandi rekstur heilsugæslu. Í hópnum eru fulltrúar frá atvinnulífinu á Suðurnesjum en einnig hafa verið fengnir til liðs við hópinn allir þingmenn Suðurkjördæmis sem hafa búsetu á Suðurnesjum.

Í dag eru reknar tvær heilsugæslustöðvar á Suðurnesjum, önnur í Reykjanesbæ, hin í Grindavík. Þær eiga að þjóna um 28.000 íbúum. Um 2.000 íbúar af Suðurnesjum eru hins vegar skráðir á heilsugæslustöðvar á höfuðborgarsvæðinu, þar sem þeir telja sig ekki fá þá þjónustu sem þeir vilja á Suðurnesjum.
Vinnuhópurinn er þegar farinn að skoða málefni heilsugæslunnar á Suðurnesjum, sem býr við þröngan húsakost. Talið er eðlilegt að heilsugæsla hafi um 1.500 fermetra fyrir hverja 10–12 þúsund íbúa. Húsakostur núverandi heilsugæslu á svæðinu er mun minni en það og barn síns tíma.

Á heilsugæslunni í Reykjanesbæ fara um fimmtán milljónir króna á ári í kostnað við að gefa út veikindavottorð og þannig eru biðstofur hálffullar af þannig verkefnum oft á tíðum.

Næstu verkefni hópsins verða að taka saman upplýsingar frá höfuðborgarsvæðinu um rekstur heilsugæslunnar þar og hvernig þeim rekstri er háttað. Einnig ætlar hópurinn að fá fund með ráðamönnum sveitarfélaga á Suðurnesjum og heilbrigðisráðherra. Þá á að velta upp þeim spurningum hvaða rekstrarform fólk vilji á heilsugæslunni, hvort hún eigi að vera einkarekin eða ríkisrekstur.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024