Blik- mannstu eftir Eydísi
Blik- mannstu eftir Eydísi

Fréttir

  • Aflafréttir í Víkurfréttum
    Nýr Sighvatur GK kemur til Grindavíkur á dögunum. Ljósmynd: Jón Steinar Sæmundsson
  • Aflafréttir í Víkurfréttum
Föstudagur 21. september 2018 kl. 08:50

Aflafréttir í Víkurfréttum

Komiði sæl lesendur Víkurfrétta. Núna er maður búinn að færa sig yfir til Víkurfrétta eftir að hafa skrifa um 100 pistla í hitt Suðurnesjablaðið. Þessi pistlar mínir í Víkurfréttum verða svo til með sama sniði og var áður. Sem sé fjallað um fiskveiðar bátanna og togaranna frá Suðurnesjum. Til viðbótar því þá fer ég með ykkur í smá ferðalag aftur í tímann og við skoðum aflatölur og veiði og fleira frá árum áður. Það ferðalag kemur af og til og stundum munu pistlarnir að mestu fjalla um gamla tíma.
 
Janúar hvert ár er byrjunin á nýju ári. Svo kölluðu almanaksári. Aftur á móti þá er september líka byrjun á ári. Reyndar ekki almanaksári, heldur kvótaári. Kvótinn er gefinn út hvert ár á tímabili sem miðast við 1. september til 31. ágúst ár hvert. Þá fer svo til allur flotinn á veiðar og stóru línubátarnir í Grindavík fara allir á flakk um hafnir landsins og landa þá mikið á Norðurlandi og Djúpavogi á Austurlandi. 
 
Jóhanna Gísladóttir GK er komin með 197 tonn í tveimur róðrum og landað í Grundarfirði. Sturla GK 175 tonn í þremur róðrum landað á Siglufirði. Krístin GK 164 tonn í þremur róðrum á Sauðárkróki. Páll Jónsson GK 163 tonn í tveimur. Valdimar GK 155 tonn í fjórum og Hrafn GK 148 tonn í fjórum, báðir að landa á Siglufirði.  
 
Sighvatur GK landaði 136 tonnum í tveimur róðrum í Grindavík og þessir túrar eru síðustu túrarnir sem Sighvatur GK landar fyrir útgerðina Vísi ehf. í Grindavík. Sighvatur GK var keyptur til Grindavíkur árið 1980 og hét áður Bjartur NK. Undir þessu nafni, Sighvatur GK, hefur línan verið aðalveiðarfærið hjá bátnum og var Sighvatur GK annar báturinn í Grindavík til þess að fá línubeitningavél, Skarfur GK var sá fyrsti. Sighvatur GK stundaði að auki netaveiðar nokkuð oft á vertíðum.
 
Ég hef ekki tekið það saman hversu mikinn afla báturinn hefur borið að landi en þau eru nokkur þúsundin sem hann hefur komið með í land og undanfarin ár hefur báturinn verið að veiða þetta í kringum 3000 tonnin á hverju ári.
 
Nýi Sighvatur GK er bátur sem margir ættu að kannast vel við. Hann var nefnilega lengi uppi í slippnum í Njarðvík og var þá staðsettur við hliðina á húsinu. Sá bátur var lengst af gerður út undir nafninu Skarðsvík SH frá Rifi og var um tíma í Sandgerði og hét þá þar Arney KE. Bátnum var breytt í svo til nýjan bát og má segja að ekkert sé eftir af þeim gamla nema kjölurinn. Nægur kvóti er á nýja Sighvati GK því að búið er að færa á bátinn um 3400 tonna kvóta.
 
Vísir ehf. í Grindavík er líka kominn með annan nýjan bát í sína útgerð og sá bátur er reyndar miklu minni og er bátur í krókaaflamarkinu. Vísir ehf. keypti útgerð Daðeyjar GK í fyrra og var þetta fyrsti báturinn eða smábáturinn sem að Vísir ehf. eignast og þar með var fyrirtækið komið inn í krókamarkið. Veturinn 2018 kaupir Vísir síðan Óla Gísla GK frá Sandgerði með öllum aflaheimildum um 500 tonn og hefur sá bátur hafið róðra undir nýju nafni. Heitir báturinn í dag Sævík GK og er nokkuð merkilegt að nýi Sighvatur GK hét nafninu Sævík GK þegar að hann lá upp í slipp í Njarðvík.  
 
Samhliða þessu þá hafa orðið breytingar hjá skipstjórunum, því að Júlíus Sigurðsson frá Grindavík, sem var lengst af með Daðey GK, er tekinn við Sævík GK og Kristinn Arnberg Kristinsson, eða Kiddó eins og hann er kallaður, sem var með Dóra GK, er tekinn við Daðey GK.
 
Að lokum, ef þið viljið að ég skoði eitthvað aftur í tímann þá getið þið sent póst á gisli@aflafrettir.is. Vefsíðan www.aflafrettir.is er í minni eigu en þessi pistlar munu ekki birtast þar. Þið getið farið þar inná og lesið um fiskveiðar um allt Ísland.
 
Gísli Reynisson
Ljósmyndastofa Oddgeirs
Ljósmyndastofa Oddgeirs