Toyota ársgamlir bílar á tilboði
Toyota ársgamlir bílar á tilboði

Aðsent

Ólíkir skólar fyrir ólíka einstaklinga
Fimmtudagur 27. júní 2019 kl. 05:57

Ólíkir skólar fyrir ólíka einstaklinga

Skapandi og gagnrýnin hugsun, læsi og þátttaka í lýðræðissamfélagi verði áfram undirstaða íslenska skólakerfisins. Á dögunum samþykkti Alþingi frumvarp sem festir í sessi faglega umgjörð um starfsemi lýðskóla. Til þessa hefur ekki verið nein löggjöf í gildi um slíka skóla.

Meiri fjölbreytni – minna brottfall
Hlutverk lýðskóla er fyrst og fremst að búa nemendur undir lífið, gera þá að fjölhæfum einstaklingum og reiðubúna til að takast á við tilveruna. Fjölbreytni er menntakerfinu mikilvæg, nemendur hafa ólíkar þarfir og þeir þurfa að hafa val um nám sitt. Meðal ástæðna brotthvarfs úr framhaldsskólum okkar er ákveðin einsleitni í námsvali og það að nemendur finna sig ekki í námi. Það er vel að fjölbreytni námsframboðs hér á landi hefur aukist, ekki síst á framhaldsskólastiginu og að fleiri nemendur séu opnir fyrir námskostum t.d. á sviði verk- og tæknigreina.

Mikil gróska
Lýðskólar vinna með lykilhæfni skólastarfs, líkt og kveðið er á um í aðalnámskrá framhaldsskóla, svo sem námshæfni, skapandi hugsun, sjálfbærni og lýðræðisleg vinnubrögð en meðal markmiða þeirra samkvæmt frumvarpinu verður að mæta áhuga og hæfileikum nemenda sem vilja átta sig betur á möguleikum sínum og stefnu í lífi og starfi. Í dag starfa LungA-skólinn og Lýðháskólinn á Flateyri eftir hugmyndafræði lýðskóla og á forsvarsfólk þeirra lof skilið fyrir frjótt og gott starf. Skólarnir hafa glætt nærsamfélög sín auknu lífi og gefið nemendum úr ýmsum áttum tækifæri til að dvelja þar. Gaman væri að sjá lýðskóla verða að veruleika á Suðurnesjum. Þar liggja ákveðin tækifæri.

1916–2019
Í umræðu um lýðskóla og menntamál er áhugavert að skoða fyrstu stefnuskrá Framsóknarflokksins frá 1916, en þar segir m.a.: Alþýðumenntunina, sem flokkurinn telur hyrningarstein allra þjóðþrifa, vill hann stefnumarka og styðja, einkum með aukinni kennaramenntun og eflingu ungmennaskóla í sveitum og lýðskóla fyrir karla og konur í landsfjórðungi hverjum. Hina æðri menntun vill flokkurinn einnig láta til sín taka og halda hinu vísindalega merki Íslands hátt á lofti í öllu, sem vér getum keppt um við aðrar þjóðir. Sérstaklega vill hann styðja að því, að raunþægum vísindagreinum verði aukið við háskólanám vort og kennsla tekin upp í rafmagnsfræði og vélfræði.
Menntastefna Framsóknarflokksins frá 1916 á jafn mikið erindi nú sem fyrr. Margt hefur áunnist í menntamálum á Íslandi síðastliðin 100 ár og ný lög um lýðskóla eru svo sannarlega framfaraskref.

Silja Dögg Gunnarsdóttir,
þingmaður Framsóknarflokksins.

Ljósmyndastofa Oddgeirs
Ljósmyndastofa Oddgeirs