Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Hátíðarmatur í uppáhaldi
Laugardagur 27. desember 2014 kl. 10:00

Hátíðarmatur í uppáhaldi

Kristinn Jakobsson í jólaeldhúsinu.

Kristinn Jakobsson bæjarfulltrúi í Reykjanesbæ og verkefnastjóri hjá MSS hlakkar alltaf til jólanna og hátíðarmatur er hans uppáhald. Hann segir heimlagaða Toblerone-ísinn setja punktinn á kvöldmáltíðina á aðfangadag. 

Aðventan er í huga Kristins skemmtilegur tími þar sem hefðin gefur honum tækifæri á að hitta fullt af fólki við ýmis ólík tilefni sem haldin eru á þeim tíma. Það eru ákveðin hlutverkaskipti milli Kristins og Ólafar, eiginkonu hans, í eldhúsinu. Ólöf sér um bakstur og eftirrétti en Kristinn um steikur og forrétti. Hátíðarmatur er hans uppáhald og hann vill meina að þeim mun einfaldari sem uppskriftirnar og matreiðslan séu verði til betri máltíð.  

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Spurður segist Kristinn ekki halda nægilega oft matarboð en þeim hjónum þyki gaman að fá vini og fjölskyldu í heimsókn og elda góðan mat og dreypa á góðu víni með. Oftar en ekki verði humar og alls kyns steikur fyrir valinu því slíkt sé í uppáhaldi. Þá sé þorskhnakki af stórþorski, kryddhjúpaðir og ofnsteiktur, algert sælgæti. Einnig standi hefðbundin lambasteik alltaf fyrir sínu.

Kristinn segist oft fá bestu hugmyndir fyrir matreiðsluna í umræðu um mat og matreiðslu og gjarnan fylgi einnig hugmyndir og matreiðsluaðferðir sem ég hann bara verði að prófa. Eitt sinn rakst hann á rússneska uppskrift af innbökuðum laxi (e. Koulbiac) sem hann gerði nokkrum sinnum fyrir fjölskylduna og endaði síðan sem forréttur í brúðkaupi systur hans. Ef Kristinn mætti velja hverjum hann myndi vilja bjóða í mat og eiga góða kvöldstund með, yrði líklegast að halda eitt heljarinnar matarboð. Hann gæti ekki með nokkru móti gert upp á milli sinna góðu vina eða fjölskyldu. 

Kristinn og Ólöf hafa haft þann sið að elda það sem þau langar í um hver jól. Ekki sé um að ræða neinn ákveðinn eða ómissandi mat, nema heimlagaði Toblerone-ísinn setji punktinn á kvöldmáltíðina á aðfangadag. Þá sé jólablandið, malt og appelsín, alltaf á borðum yfir hátíðirnar. Hins vegar séu áramótin undir meiri hefðum á gamlárskvöld er þá er smellt í eina innbakaða nautalund að hætti tengdamömmu Kristins. Upp úr hádeginu á nýársdag bjóða hjónin svo til sín fólkinu sínu í Egg Benedikt, sem er hleypt egg á enskri skonsku, borið fram með skinku og/eða reyktum laxi og Hollandaise sósu. Og þá er að sjálfsögðu allt gert frá grunni.

 

Uppskriftir: 

Forréttur: Grillaður humar í hvítlaukssmjöri með humar bisque.

 

Humarinn

4-5 stórir humarhalar á mann. 

200 gr smjör

3 hvítlauksgeirar marðir í gegnum hvítlaukspressu 

Salt og pipar

Steinselja, smátt söxuð 

Humarinn skelflettur og skelin nýtt í humarsoðið (bisque). 

Smjörið brætt með hvítlauknum í og látið sjóða smá stund, má alls ekki brúnast. 

Steinseljunni bætt út í ásamt salti og pipar. Smjörið látið kólna þá er humrinum bætt út í og hrært saman. Þá er humrinum raðað í eldfast mót og látin bíða þar til eldun fer fram. 

Grillið í ofninum hitað í hæsta hita og humarinn settur undir rauð glóandi grillið í 5-7 mínútur. ,Borin fram með humarbisque. 

 

Humar bisque 

Humarskelin brotin. 

2-3 mtsk Matarolía 

1⁄2 meðalstór laukur saxaður smátt

1⁄2 tsk paprikuduft 

Tómatur gróft saxaður 

2 dl hvítvín 

Vatn 

Salt og pipar 

 

Laukurinn gljáður í olíunni, paprikudufti bætt útí og humarskelini látin brúnast með tómatteningum og allt látið krauma í nokkrar mínútur þá er hvítvíni hellt yfir og látið sjóða. Vatni bætt út í þar til flýtur yfir skelina og látið sjóða í 20 mín undir loki. Þá er soðið sigtað og sett í annan pott soðið niður þar til gott sterkt bragð er að. Salt og pipar eftir smekk. Bragðbætt með smá dass af koníaki. Borið fram í sjússaglasi eða smábolla. 

 

Andarbringur með hindberjasósu (eða kirsuberjasósu)

 

Hindberjasósa: 

2 dl. gott Portvín 

1 dl. kirsuberja eða hindberjaedik 

100 gr sykur (má vera minna) 

30 gr smjör

Andarkraftur, salt og pipar. 

100 gr hindber eða kirsuber fersk eða frosin. 

Púrtvínið, endikið og sykurinn soðin saman. Sósan bragðbætt með andakraftinum, þarf u.þ.b. 2-3 msk. 

Smakkað til með salti og pipar. Rétt áður en bera á sósuna fram er mjúku smjörinu bætt í. 

 

Andarbringur. 

Í andabringurnar eru skáskornar grunnar rákir í haminn, niður í fitulagið. Þær kryddaðar með salti og pipar u.þ.b. 15-20 mínútum áður en að þær eru steiktar. Pannan er hituð vel og bringurnar settar á með haminn niður. Steikt við háan hita í ca 4 mínútur hvor hlið, plús um 7-10 mín í ofni þar til þær eru tilbúnar. Látnar standa í um 10 mínútur til að jafna hitann í þeim. Bringurnar eru skornar þvert í þunnar sneiðar. Gott er að bera fram með smjörsteiktum kartöflum, strengjabaunum og gulrótum eða því ferska grænmeti sem býðst á hverjum tíma.