Flugger
Flugger

Mannlíf

Dvergadansinn sló í gegn
Þriðjudagur 22. janúar 2013 kl. 08:59

Dvergadansinn sló í gegn

Þegar Stóru-Vogaskóli keppti í Lego-keppni

Stóru-Vogaskóli tók þátt í hinni árlegu Legó-keppni sem var í Hákskólabíó á laugardaginn s.l. Lið skólans var skipað níu nemendum úr 6. bekk og gekk þeim vel í öllum greinum. Skemmtiatriði þeirra, Dvergadans, var kosið það besta í keppninni af áhorfendum í stóra salnum í Háskóabíói. Liðið hafnaði svo í 7. sæti í keppninni. FLL-First Lego League er tækni- og hönnunarkeppni ætluð grunnskólabörnum. Um 200 þúsund nemendur tóku þátt í þessari keppni í ár í 44 löndum.

Keppninni er skipt niður í fimm hluta. Í fyrsta lagi smíða keppendur vélmenni úr tölvustýrðu Legói sem er forritað til að leysa tiltekna þraut. Að þessu sinni snerist þrautin um ýmis verkefni sem eldri borgarar þurfa að leysa í lífinu. Þetta eru fyrir fram ákveðin verkefni og þarf að forrita vélmenni til þess að leysa þau. Í öðru lagi eiga keppendur að gera vísindalega rannsókn á ákveðnu efni sem tengt er þema keppninnar. Í þriðja lagi halda keppendur ítarlega dagbók um undirbúninginn. Í fjórða lagi eiga þeir að flytja frumsamið skemmtiatriði. Að lokum þurfa liðin að gera grein fyrir því hvernig þau forrituðu vélmennið sitt en þar reynir á þekkingu þátttakenda á eigin búnaði.

Að þessu sinni var Stóru-Vogaskóli eini Suðurnesjaskólinn og aðeins tveir skólar af Suðvesturhorninu tóku þátt í keppninni. Vaxtarbroddur hátæknimenntunar ungu kynslóðarinnar virðist um þessar mundir vera á Austurlandi. Þess má geta að fjögur lið frá Hornafirði tóku þátt og gekk þeim öllum vel. Sigurliðið kom frá Akureyri. 

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Hér má sjá dvergadansinn fræga sem skilaði sigri fyrir Stóru-Vogaskóla.