Bíður eftir gosi á herbergi 13
Þetta er mögulega einföldun á starfslýsingu en Sigurbjörn Arnar Jónsson hefur það starf þessa dagana að bíða eftir eldgosi. Og hann er ekki heima í sófa að bíða eftir gosinu. Hann dvelur á hótelherbergi með glæsilegt útsýni yfir hraun og mosa við Bláa lónið. Herbergi númer 13 hefur verið annað heimili Sigurbjörns frá því eldsumbrotin sem kennd eru við Sundhnúkagígaröðina hófust. Sigurbjörn stendur þar vaktina allan sólarhringinn, alla vikuna. En hvert er í raun verkefni Sigurbjörns?
„Mitt verkefni er í raun að vera til taks í rýmingu, þegar kemur að henni. Ég hef tekið þátt í þeim öllum á þessu ári hér við Silica hótelið og einnig verið til taks við sjálft Bláa lónið ef að á þarf að halda. Oftast hef ég þó aðeins þurft að taka fólk héðan,“ segir Sigurbjörn þegar blaðamaður hitti hann að máli á herbergi 13 á mánudaginn.
Vinnur við að bíða og bíða
Hvernig fer þetta fram?
„Þetta fer þannig fram að bjöllurnar hringja og ég sæki strætisvagninn sem er geymdur á þjónustuvegi hérna skammt frá hótelinu. Ég mæti svo með hann á bílastæðið við innganginn og tek alla um borð í bílinn sem eru ekki á einkabílum. Þegar við höfum fullvissað okkur 150% um að allir séu komnir um borð sem þurfa far með mér, þá er haldið yfir á stóra bílastæðið við Bláa lónið og athugað hvort þar séu einhverjir sem þurfa að komast með bílnum. Í síðustu rýmingu þurfti ég að aka um Reykjanes og í gegnum Hafnir en hinar þrjár gat ég farið Grindavíkurveginn. Þannig að ég vinn við það að bíða ... og bíða,“ segir Sigurbjörn sposkur.
Og þú hefur sofið vikum saman á hótelherbergi?
„Þetta er búið að vera brotið. Núna er ég búinn að vera hérna frá því á sumardaginn fyrsta, 25. apríl. Ég hef tvisvar skotist til Keflavíkur til að sækja hrein föt og þá er ég leystur af á meðan. Ég hef fram að þessu verið rúmlega viku hér fram að gosi. Svo þegar gýs þá slaknar á kerfinu og neyðarvakt er óþörf. Þegar landrisið er komið á krítískan stað er neyðarvaktin sett á að nýju og hún hefur verið að meðaltali um viku.
Fram að gosinu 16. mars var rýming á laugardeginum 2. mars og ég var kominn hingað aftur mánudaginn 4. mars. Lengsta neyðarvaktin var því frá morgni 4. mars og fram á laugardagskvöldið 16. mars.“
Mitt eðli er rólegt
Og hvað ertu að gera? Þú ert örugglega búinn að lesa bókasafnið?
„Veistu, ég fæ þessa spurningu mjög oft. Það hentar mér að mitt eðli er rólegt. Ég get setið og gert ekkert. Ég gæti horft á vegginn í einn eða tvo tíma og látið hugann reika. Ég er með ákveðna rútínu hér. Ég fer ekki alltaf í morgunmatinn en fer alltaf í hádegismat í mötuneyti starfsmanna í Bláa lóninu. Þar er mjög góður matur og vegna þess að ég stend sjálfur í flutningum þá hef ég verið mikið í örbylgjumat, þannig að maturinn í Bláa lónunu er mun hollari en það, þó ég beri þess kannski ekki merki utan á mér. Ég reyni að ganga eitthvað alla daga og ef ekki er veður til þess úti, þá nota ég líkamsræktina hér á Silica hótelinu. Ég fer á hlaupabrettið í rúman klukkutíma og tek þar kraftmikla göngu. Svo er ég bara að hanga á netinu og horfi þar á innihaldslaus Reels. Ég les eitthvað smá, en mætti gera mun meira af því. Í ljósi þess að ég hef allan tímann í heiminum, þá mætti ég gera meira af því. Ég er með spjaldtölvu með mér og skoða þætti á Netflix og Amazon.
Ég er róleg týpa og það hentar ágætlega í þetta starf. Þetta gæti reynst mörgum erfitt en ég er umkringdum frábæru starfsfólki hérna á hótelinu og þeim sem vinna í Bláa lóninu. Ég hef unnið við að keyra þessu fólki í og úr vinnu síðan 2015 og er orðinn vel málkunnugur mörgum og núna enn meiri vinur þeirra.“
Er þessi langa viðvera hérna eitthvað að hamla áhugamálunum?
„Ég er ekki með píanóið mitt með mér og ég kemst ekki í bíó. Ég mun komast í bíó á endanum þegar kemur að rýmingu, sem verður einhvern tímann. Svo vonast ég til þess að eldurinn komi upp utan varnargarðanna. Við munum hvernig þetta var þegar við misstum hitaveituna. Þá voru erfiðir tímar og ég vil ekki hugsa þá hugsun til enda ef það gerist aftur, þó svo það sé orðið hlýrra úti. En ég get látið tímann líða við að gera ekkert og mér leiðist ekki. Það eru kannski ekki margir með þennan þankagang, en ég er þarna og það hentar mér vel hér.“
Taugarnar spenntar
Það er ákveðin spenna þó sem fylgir þessu, þar sem það er ekki vitað hvenær gýs.
„Það viðheldur alltaf smá spennu hjá manni sjálfum þegar maður fer að sofa og ekkert heyrist í hótelgestum, sem heyrist reyndar aldrei í, þá heyrir maður alltaf niðinn í hitaveitunni. Ég upplifði eina nótt fyrir rýminguna 2. mars, þar sem taugarnar voru spenntar og ég gat eiginlega ekki sofið. Ég svaf í fötunum þá nótt. Ég veit ekki hvaðan þetta kom, því það var ekkert öðruvísi þá nótt en aðrar nætur hér.
Ég er alltaf mjög meðvitaður um ástandið hér og er alltaf með allt pakkað í töskur og poka á meðan ég er hérna. Ég er ekki að nota fataskápa, heldur með allt klárt til að fara út og gera það sem mér ber að gera. Ég vil ekki eyða óþarfa tíma í að allt sé út um allt. Ég fæ oft þá spurningu hvort ég sé hræddur. Ég segi nei með svona 70% vissu fyrir því svari. Ég er kannski ekki alveg í rónni, ekki alveg,“ segir Sigurbjörn.
Hvernig er upplifunin á ástandinu þegar flautan fer í gang?
„Svo ég tali um fyrsta skiptið, þá var það um hánótt. Þá fékk ég símtal, því það var ekki búið að setja upp þokulúðrana. Þá var bara tilkynnt að það væri verið að rýma og ég setti það litla sem ég var með í tösku og setti hana fram við borðið hjá innrituninni. Þaðan labbaði ég svo í strætóinn með mitt vasaljós. Ég fór með fólkið á Marr-iott hótelið í Keflavík og þaðan var svo hluti hópsins sendur með öðrum bílum í Reykjavík. Þá var ég spenntur en alls ekki hræddur. Það var ekki byrjað að gjósa þá og gaus ekki fyrr en þremur tímum eftir þá rýmingu. Ég tók rúnt um Keflavík þegar þetta var yfirstaðið og fann að þetta gekk vel og maður upplifði smá hetju innra með sér. Ég fann að ég var orðinn ofboðslega þreyttur og ætlaði upp í vinnuaðstöðu og leggja mig þar. Ég stoppaði á bílastæðinu við Nettó í Krossmóa og sofnaði þar í klukkutíma, því ég vissi að ég myndi ekki ná að komast á áfangastað án þess að sofna. Ég fann svo þegar ég vaknaði aftur að ég var í smá sjokki og depurð eftir þetta, því maður hafði ekki upplifað svona og svo byrjaði gosið.“
Ekki vottur af jarðhræringum
Svo þegar komið var að rýmingu númer fjögur þá var þetta ekkert mál. Það sem var óþægilegt við þá rýmingu var að skyndilega fóru þokulúðrarnir í gang þegar ég var inni á herbergi. Ég fór með mitt hafurtask fram í afgreiðslu og þá var gosið þegar byrjað og himininn rauðglóandi. Þá var ekki vottur af jarðhræringum. Þá var líka óþægilegt að reykurinn frá gosinu kom yfir svæðið í bland við gufuna frá hitaveitunni og skýið sem var hérna yfir var svolítið ógnvekjandi. Þetta var eina skiptið sem ytri aðstæður voru ógnvekjandi en maður vissi að þetta var á bak við fjall og því engin hætta á ferðum.
Í rýmingunni þann 8. febrúar sáum við hraunið nálgast Grindavíkurveginn og það var í fyrsta skipti sem ég sá hraun svona nálægt. Þetta var rosaleg upplifun fyrir gestina og það var einnig þegar við rýmdum 16. mars. Þá fórum við um Reykjanes og framhjá Höfnum. Þegar við ókum framhjá Patterson-vellinum var gosið komið í fulla stærð og það var mikil upplifun fyrir fólkið í bílnum hjá mér. Þetta var mikið af Bandaríkjamönnum og þau munu aldrei gleyma þessari ferð. Rýmingin gekk vel og ég reyni að halda þessu öllu léttu. Það hefur heldur aldrei verið nein hræðsla í bílnum, sem betur fer.“
Skoðar síðu Veðurstofunnar fimmtíu sinnum á dag
Sigurbjörn hefur nýtt tímann á milli rýminga til að velta fyrir sér jarðfræði svæðisins og er inni á öllum þeim síðum á fésbókinni þar sem jarðfræði og eldgos eru til umfjöllunar. „Svo fer ég inn á síðu Veðurstofunnar örugglega fimmtíu sinnum á dag. Þá stóla ég á visku þeirra sem eru vel að sér inni á jarðfræðisíðunum. En á endanum er þetta alltaf spurningin um það hvenær kemur gosið upp? Þegar gosið kom upp þann 16. mars hafði verið áköf skjálftavirkni en hennar varð ekki vart við Silica hótelið þar sem ég var. Það fannst ekki neitt.“
Sigurbjörn segir að í öllum fyrri rýmingum hafi verið jarðskjálftar sem hafi fundist á svæðinu en það hafi ekki verið fyrir síðasta gos og það hafi verið óþægilegt. Með framhaldið þá vonast hann til að það fari að gjósa fljótlega. Það sé ýmislegt fram undan sem hann langi að taka þátt í en geti ekki á meðan hann þurfi að standa neyðarvaktina í Svartsengi. „Ég vona bara að þetta verði gos sem veldur ekki tjóni á innviðum og haldi sig utan varnargarða.“ Og Sigurbjörn bætir því við að ef það verður gos, þá megi búast við að það loki í Bláa lóninu í einhverja daga og þá muni hann nýta tækifærið að fara í bíó nokkur kvöld í röð.