Keflvíkingar styrkja karla- og kvennalið sín
Undirbúningstímabilið er nýfarið af stað í knattspyrnunni og liðin eru í óðaönn að styrkja leikmannahópa sína. Keflavík, sem teflir fram liðum í efstu deild kalra og kvenna, er búið að tvo erlenda miðverði til sín.
Finnskur leikmaður í Keflavík
Keflavík hefur gert samning við finnska miðvörðinn Dani Hatakka um að leika með liðinu út tímabilið 2022.
Dani Hatakka er 27 ára gamall og kemur frá Honka FC í Finnlandi þar sem hann hefur leikið rúmlega 70 leiki. Hatakka hefur einnig verið á mála hjá Brann í Noregi og fleiri liðum í Finnlandi.
Til mikils er vænst af Finnanum segir á Facebook-síðu knattspyrnudeildarinnar en hann hefur þegar hefur hafið æfingar með liðinu.
Fetar í fótspor Natasha Anasi
Caroline Van Slambrouck hefur skrifað undir samning við Keflavík og mun leika með liðinu út knattspyrnutímabilið 2023.
Caroline kemur frá Santa Teresa á Spáni en lék með Benfica áður. Hún lék einnig með ÍBV hér á landi áður, frá 2017 til 2019, þegar hún kom til ÍBV þegar Natasha fór frá ÍBV til Keflavíkur. Nú fetar hún í fótspor Anasi í annað sinn og kemur í hennar stað til Keflavíkur eftir að Natasha gekk til liðs við Breiðablik.
Caroline spilar í stöðu miðvarðar og er vænst til mikils af henni á vellinum í efstu deild í sumar