Fréttir

Óþarfi að skjóta sendiboðann
Hjálmar Hallgrímsson, formaður bæjarráðs
Föstudagur 17. ágúst 2018 kl. 06:00

Óþarfi að skjóta sendiboðann

-segir Hjálmar Hallgrímsson, formaður bæjarráðs Grindavíkur. Umræða um málefni lykilstarfsmanna á bæjarskrifstofu ekki rétt. Farið eftir málefnasamningi í meirihlutasamstarfinu.

„Það er áríðandi að staðreyndir séu á borðinu og ekki gott að skamma bara eða skjóta sendiboðann. Bæjarstjórinn er okkar tengiliður og framkvæmdastjóri meirihluta bæjarstjórnar. Hann gerir það sem við ákveðum,“ segir Hjálmar Hallgrímsson, oddviti sjálfstæðismanna og formaður bæjarráðs Grindavíkur en bæjarstjóraráðning og starfsmannamál hafa verið mikið í umræðunni í bæjarfélaginu að undanförnu.

Bæjarstjórn samþykkti í upphafi mánaðarins að ráða Fannar Jónasson bæjarstjóra en hann hafði sinnt starfinu frá ársbyrjun 2017 og var þá ráðinn eftir ráðningarferli. Það sem vakti athygli í þessari ákvörðun bæjarstjórnar var að meirihlutinn klofnaði í þessari ákvörðun. Forseti bæjarstjórnar, Sigurður Óli, bæjarfulltrúi Framsóknarflokks og forseti bæjarstjórnar fylgdi ekki ákvörðun þriggja bæjarfulltrúa sjálfstæðismanna sem vildu Fannar áfram. Sigurður vildi Þorstein Gunnarsson og hann fékk líka atkvæði frá Samfylkingu og Flokki unga fólksins. Bæjarfulltrúi Miðflokksins gaf Fannari sitt atkvæði og niðurstaðan var því sú að Fannar fékk 4 atkvæði en Þorsteinn þrjú.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Aðspurður um hvort það sé ekki sérstakt að meirihluti bæjarstjórnar skuli klofna í fyrsta stóra máli sem hún tekur fyrir segir Hjálmar að meirihlutinn hafi verið sammála um að láta málið ráðast í bæjarstjórn. „Í málefnasamningi okkar sjálfstæðismanna og Framsóknar var ákvæði um að auglýsa stöðu bæjarstjóra. Við vorum þarna að uppfylla það atriði og vorum allir í meirihlutanum sammála um að við myndum taka þeirri niðurstöðu sem kæmi.“

Nú hafa fimm lykilstarfsmenn sagt upp störfum að undanförnu og sumir tengt það við bæjarstjóraráðningu.

„Ég vil taka það skýrt fram að þrír af þessum fimm voru búnir að segja upp áður en ráðning Fannars var staðfest. Það er ekkert launungarmál að nokkrir starfsmenn höfðu fengið áminningu sem bæjarstjóri sá um að koma áleiðis en það er eftir ákvörðun meirihlutans.“

En er ekki sérstakt og verður ekki erfitt fyrir forseta bæjarstjórnar að vinna með bæjarstjóra sem hann vildi ekki?

„Traust getur unnist með tímanum og ég er bjartsýnn á það eins og framtíðina í okkar bæjarfélagi. Við erum að vinna í mörgum góðum málum og höldum ótrauðir áfram uppbyggingu.“