Fréttir

Kraftaverkabarnið 20 árum síðar
Mynd: Bryndís María á útskriftardaginn þar sem hún hlaut m.a. verðlaun fyrir námsárangur í eðlisfræði og stjörnufræði.
Föstudagur 31. júlí 2015 kl. 08:48

Kraftaverkabarnið 20 árum síðar

-Nýstúdent með áhuga á eðlisfræði og stjarnfræði

Þann 4. maí árið 1995 kom ung stúlka í heiminn þremur og hálfum mánuði fyrir tímann og var vart hugað líf. Þau kölluðu hana kraftaverkabarnið á vökudeild Landspítalans því þrátt fyrir að vega einungis 3 merkur við fæðingu braggaðist hún fljótt og var komin heim til sín fyrir settan fæðingardag.  Þessi stúlka heitir Bryndís María og tókum við viðtal við foreldra hennar Matthildi Sigþórsdóttur og Ragnar Borgþór Ragnarsson fyrir 20 árum síðan þar sem þau sögðu frá þessari erfiðu reynslu. Í dag blasir framtíðin við þessari ungu stúlku en hún útskrifaðist á dögunum sem stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík. Okkur fannst tilvalið á þessum tímamótum að kynnast betur þessari kraftaverkastúlku og ræddum jafnframt við móður hennar sem segir hana vera mjög ákveðna þótt hún hafi rólegt geðslag.


„Ég fæddist þremur og hálfum mánuði fyrir tímann eða á 25. viku. Ég var 36 cm og 890 g sem eru rúmar 3 merkur. Ég hef oft heyrt söguna af fæðingunni og svo hef ég líka nokkrum sinnum lesið viðtalið í Víkurfréttum sem var tekið við foreldra mína þegar ég var lítil“, segir Bryndís María en hún segir að það hafi aldrei háð sér að vera fyrirburi.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Var ekki hugað líf fyrsta sólarhringinn

„Fæðingin gekk ekki vel. Ég missti vatnið um tíuleytið og fór með sjúkrabíl með hraði á Landspítalann. Þegar þangað var komið var ég látin reyna að fæða en svo fundust engin lífsmörk hjá henni. Ég var þá send í bráðakeisara en þegar ég var svæfð þá rann Bryndís María hreinlega út og fæddist klukkan 10:50. Henni var ekki hugað líf fyrsta sólahringinn og því var hún skírð strax um kvöldið. En eftir fyrsta sólahringinn má segja að allt hafi gengið eins og í sögu. Bryndís María var í tvo mánuði á vökudeild og kom fyrst heim fyrir settan fæðingardag sem átti að vera 16. ágúst,“ segir móðir hennar Matthildur.

Að sögn Matthildar vann Ragnheiður I. Bjarnadóttir kvensjúkdómalæknir sem tók á móti Bryndísi Maríu kraftaverk þennan dag.

„Það er gaman að segja frá því að sautján árum seinna þegar ég kom í mæðraskoðun á Landspítalann hitti ég Ragnheiði og hún sagðist muna eftir þessum degi eins og hann hafi gerst í gær. Hún spurði frétta af Bryndísi og sagðist alltaf hafa langað að vita hvernig henni vegnaði í lífinu. Hún tók hárétta ákvörðun þarna á örlagastundu sem gerði það að verkum að Bryndís María er á lífi í dag og ég hef getað eignast tvö önnur börn. Hún fór yfir þennan dag með okkur þarna sem var frábært því ég var auðvitað sofandi meðan á öllu þessu stóð“.

Bryndís María á tvö systkini, Þóru Kristínu sem er 17 ára og Daða Snæ þriggja ára. Hún tók virkan þátt í tómstundastarfi sem barn en fjölskyldan er mjög samheldin.
„Ég æfði fimleika þegar ég var yngri og hef spilað golf síðan ég var 11 ára. Það er alltaf skemmtilegt að fara út á völl að spila og sérstaklega þegar fjölskyldan fer saman.“

Að sögn Matthildar hefur Bryndís María alltaf verið lítil og nett og tók hún þátt í fyrirburarannsóknum á sínum uppvaxtarárum. Hins vegar hefur henni alltaf gengið vel í námi, sér í lagi raungreinum. „Hún er mjög sjálfstæð og róleg en alveg með skap. Ég held að hún hefði aldrei farið í gegnum þetta á sínum tíma nema hafa eitthvað skap, hún veit alveg hvað hún vill.“

Tók þátt í ólympíuleikunum í stærðfræði

Bryndís María heillaðist af Menntaskólanum í Reykjavík og ákvað að hefja þar nám haustið 2011. Þar hafði áhrif áherslan á stærðfræði og eðlisfræði. „Sumarið 2014 keppti ég á Ólympíuleikunum í eðlisfræði sem voru haldnir í Astana í Kasakstan. Það er ómetanleg reynsla að hafa keppt á leikunum þó að keppnin sjálf hafi verið mjög erfið“, segir Bryndís María en hún útskrifaðist af eðlisfræðideild skólans í vor. „Það gekk bara vel“, segir Bryndís María aðspurð um prófið en móðir hennar bætir því við að hún hafi fengið tvenn verðlaun fyrir námsárangur við útskriftina, fyrir eðlisfræði og stjörnufræði. „Mér leist nú ekkert á það þegar hún var að fara til Kasakstan og vonað hálft í hvoru að hún kæmist ekki með“, segir Matthildur og hlær en hún segir ferðina hafa verið mikla upplifun sem hún muni njóta góðs af í framtíðinni.

En hver eru framtíðarplönin hjá þessari ungu stúlku?

„Ég byrja í Háskóla Íslands í haust og þar ætla ég að læra eðlisfræði með áherslu á stjarnvísindi. Það mun síðan koma í ljós hvað ég geri í framhaldinu eftir grunnnámið í HÍ“, segir þessi rólega en kraftmikla stúlka.


Mynd: Bryndís María vóg einungis 3 merkur við fæðingu og var 36 cm. Hún var kölluð kraftaverkabarnið á vökudeildinni.

Mynd: Bryndís María ásamt móður sinni Matthildi Sigþórsdóttur og systkinum Þóru Kristínu og Daða Snæ.

Mynd: Bryndís María á útskriftardaginn þar sem hún hlaut m.a. verðlaun fyrir námsárangur í eðlisfræði og stjörnufræði.

Mynd: Bryndís María hefur æft gólf frá unga aldri